06.03.1972
Efri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð. Ég hef sem nm. menntmn. mælt með samþykkt þessa frv., en hins vegar, eins og síðasti hv. ræðumaður sagði, þá áskildu nm. sér rétt til þess að fylgja eða hafna brtt., sem fram kynnu að koma við þetta frv. Þessar brtt., sem fram eru komnar, eru á þskj. 58. Þær eru tvær. Ég vildi tjá afstöðu mína til þessara brtt.

Fyrri till. fjallar um skipun skólanefndar Stýrimannaskólans. Í till. þessari felst sú breyting frá frv., að í skólanefnd skuli sitja tveir fulltrúar nemenda. Ég hef ekkert við þessa till. að athuga og lýsi mig fylgjandi henni. En það er síðari till. á þskj. 58, sem ég vil víkja nokkru nánar að.

Í 15. gr. frv., 1. mgr., segir, með leyfi hæstv. forseta: „Námskeið, er veiti þá fræðslu, sem um getur í 5. gr., svo og þá fræðslu, sem þarf til að standast fiskimannapróf 1. stigs og jafnframt til að setjast í 2. bekk í stýrimannaskóla, skal skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík láta halda árlega á eftirfarandi stöðum, þegar næg þátttaka er að dómi rn.: Akureyri, Ísafirði og í Neskaupstað.“

Seinni brtt. á þskj. 58 fjallar um það, að hér komi til viðbótar „og Keflavík eða Njarðvík.“ Það er augljóst, hver er ástæðan fyrir því að gera ráð fyrir, að það séu haldin sérstök námskeið á Akureyri, Ísafirði og í Neskaupstað, eins og frv. gerir ráð fyrir. Hér er um að ræða staði, sem eru fjarlægir Reykjavík, þar sem Stýrimannaskólinn er staðsettur. Það er sjálfsagt að hafa slíkt ákvæði í lögum, og það eru sérstakar ástæður fyrir hendi. Spurningin er sú, hvort þær ástæður eru fyrir hendi hvað varðar Keflavík eða Njarðvík. Er þar um svo mikla fjarlægð að ræða frá Reykjavík? Og þetta vekur aðra spurningu. Á þetta þá ekki við um fjölmarga aðra staði á landinu? Hvers vegna má þá ekki nefna t.d. Patreksfjörð eða Húsavík eða Hornafjörð eða Akranes? Við sjáum, að það mundi vera algerlega ástæðulaust að fara að tiltaka sérstaklega Keflavík eða Njarðvík í þessari löggjöf. En það er ekki hægt að komast hjá því, að það væri frekar ástæða til þess að lögfesta slíkt varðandi ýmsa aðra staði.

Mér finnst, að þessi till. beri með sér viss sjúkdómseinkenni, sem maður verður oft var við hér í sölum hv. Alþ., þau, að ef eitthvað þarf af eðlilegum ástæðum að gera fyrir ákveðna staði eða byggðarlög í landinu af sérstökum ástæðum, þá vilja menn heimfæra þessar ástæður upp á aðra staði og þá einkum í sínu kjördæmi. Mér þykir ástæða til þess að vara við þessum vinnubrögðum, og með sérstöku tilliti til þess stend ég hér upp til þess að lýsa andstöðu minni við þessa brtt. Til frekari áherzlu á þetta sjónarmið leyfi ég mér að benda á, að í 3. mgr. 15. gr. frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er að hafa námskeiðin á öðrum stöðum en að ofan greinir að tilskildu samþykki menntmrn.“ Ég held, að með þessu ákvæði sé fyllilega séð fyrir þeim þörfum, sem kunna að vera fyrir hendi hvað varðar Keflavík og Njarðvík eins og alla aðra staði á landinu.