06.03.1972
Efri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr. að öðru leyti en því, að ég tek eftir, að Páll Þorsteinsson, en ég er hans varamaður, hefur ekki verið viðstaddur, þegar nál. í málinu hefur verið afgr. úr n., og ég vildi aðeins geta þess, að ég er samþykkur þeirri skoðun, sem kemur fram í áliti n.

Raunverulega snertir þetta atriði, breytingin á 6. gr., miklu stærra mál. Það snertir það málefni, hvort við Íslendingar eigum að halda við þá skipan, sem við höfum haft á okkar skólamálum, að hafa hér löng sumarfrí skólanemenda, þannig að þeir hafi tækifæri til þess að taka þátt í ýmsum störfum þjóðlífsins og kynnast þeim á unga aldri, eða hvort við eigum að taka upp þá stefnu, sem flestar aðrar þjóðir hafa í þessum efnum, að hafa stutt sumarfrí, miklum mun styttri en tíðkast hér á landi. Ég vildi því koma því að í þessu sambandi, að ég tel fyrir mína parta, að við ættum að halda þeirri stefnu og þeirri skipan, sem hér hefur verið á, að skólanemendur fái tiltölulega löng sumarfrí, fái þá tækifæri til þess að vinna að ýmsum störfum, sem eru nauðsynleg fyrir þjóðfélagið í okkar mannfæð, og jafnframt að kynnast ýmsum þáttum þjóðlífsins snemma, sem þeir ekki fá tækifæri til á unga aldri, ef annar háttur væri hafður á í þessum málum.

Mér er kunnugt um. að einn menntaskólinn hér í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð, sem er nú eins konar tilraunamenntaskóli, hefur í hyggju að breyta til í þessum efnum, þó ekki þannig að stytta sumarfrí, heldur að færa sumarfríin fram, þannig að skólinn hætti fyrr á vorin en verið hefur og hefji svo aftur skólastarf fyrr á haustin. Þetta hefur mikla kosti varðandi vertíðarvinnuna, en nú er svo háttað, að það er meira og meira kvartað um skort á vinnuafli í sambandi við aðalkraftvertíðina hjá okkur Íslendingum. Mér er kunnugt um, að fiskiþing hefur t.d. rætt þessi málefni, og þar eru einróma skoðanir í þá átt, að vinnuaflsskortur um hávertíðina sé vaxandi stórvandamál. Ég hygg, að það væri kannske skynsamlegt til þess að leysa m.a. úr þessu, því að það leysist úr læðingi mikið vinnuafl, þegar skólarnir hætta á vorin, að skólarnir hættu dálítið fyrr en nú er og byrjuðu þá aftur fyrr að haustinu. Með því móti mætti á ýmsum stöðum landsins fá vinnuafl til starfa á hávertíðinni, sem annars situr á skólabekk. Sums staðar tíðkast það, að nemendur fái frí úr skólunum, þegar vertíðarhroturnar steðja að.

Ég vildi koma þessum orðum að í sambandi við þessa brtt., sem n. leggur hér til, en hún er í raun og veru liður í miklu stærra máli, og í sambandi við Stýrimannaskólann er nú alveg sérstök ástæða til þess að fylgja þessari breytingu, vegna þess að hvergi mun bera meiri nauðsyn til þess en einmitt meðal nemenda Stýrimannaskólans, að þeir fái tækifæri til þess að vinna að vertíðarstörfum og fá þá e.t.v. æfingu í sjómennsku jafnhliða skólanum.