06.03.1972
Efri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. vék nokkrum orðum að brtt. sinni, sem ég gerði að umræðuefni hér áður. Hann sagði, að hann flytti ekki brtt. um Keflavík eða Njarðvík vegna þess, að það væri meiri ástæða eða þörf á þeim stöðum fyrir námskeið, sem hér er um að ræða, heldur en víða annars staðar. Ég er honum sammála um þetta. Ég lagði áherzlu á það, að það væru mismunandi ástæður, m.a. eftir því, hvar væri á landinu, og þess vegna væri gert ráð fyrir því í frv., að slík námskeið yrðu haldin á stöðum, sem væru fjærst Stýrimannaskólanum í Reykjavík, þ.e. á Ísafirði, Akureyri og í Neskaupstað.

Ef við miðum við fjarlægðina, liggur það í augum uppi, að það er meiri þörf fyrir sérstök námskeið víðast hvar á landinu, þar sem eru þróttmiklir útgerðarstaðir, heldur en á stað, sem tekur klukkutíma eða innan við klukkutíma að ferðast frá til Reykjavíkur. Með tilliti til þessa tel ég, að það sé ekki rétt af löggjafanum að leggja sérstaka áherzlu á að halda námskeið við hliðina á Stýrimannaskólanum í Reykjavík, ef svo mætti segja. Ef það ætti að leggja áherzlu á einstaka staði, þá ætti fyrst tig fremst að leggja áherzlu á þá staði, sem fjærst eru og nemendur eiga verst með að sækja til Reykjavíkur frá. Þetta er það, sem vakti fyrir mér. Ég hef ekki á móti því, að það séu haldin námskeið um þetta efni í Keflavík eða Njarðvíkum, siður en svo. En ég tel, að löggjafinn eigi ekki að leggja sérstaka áherslu á þessa staði fram yfir marga aðra, og ég áskil mér, ef þetta fær hljómgrunn hér í hv. d., að leggja fram brtt. um fleiri staði.