19.10.1971
Efri deild: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

4. mál, kaup á skuttogurum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl., sem sett voru í tíð fyrrv. ríkisstj. Frv. fjallar um það að veita heimild til þess, að keyptir verði átta skuttogarar, eins og rætt er um í viðkomandi lögum, í staðinn fyrir sex, sem þar voru tilgreindir.

Ég veit, að allir hv. þdm. kannast vel við efni þessara laga, og þarf því ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Eins og kunnugt er, eru allir þessir átta togarar þegar í byggingu eða hafa verið gerðir byggingarsamningar um þessi skip. En vegna þess að upphaflegu lögin, sem um þetta fjölluðu, gerðu aðeins ráð fyrir því, að keypt yrðu sex skip, en síðar bættust tvö við, þá varð að samþykkja þessi brbl. og síðan er þetta frv. flutt hér til staðfestingar á þeim.

Ég óska eftir, að frv. þetta gangi til hv. sjútvn., en sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um málið á þessu stigi.