23.03.1972
Neðri deild: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

4. mál, kaup á skuttogurum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það frv. ríkisstj. um kaup á 13 miðlungsstórum skuttogurum, sem hér liggur fyrir til 1. umr. í hv. d., varðar bæði stefnu okkar í sjávarútvegsmálum og ekki síður stefnu ríkisstj. í málum skipasmíðaiðnaðarins. Ég vil gera nokkrar aths. um hvort tveggja, einkum þó þá hlið málsins, sem varðar svonefnda endurnýjun togaraflotans og skipasmíðaiðnaðinn í landinu.

Öllum hv. þdm. er í fersku minni, að síldveiðar réðu svo gersamlega stefnunni í fiskveiðimálum okkar fyrir 1967, að þá datt engum í hug að láta smíða skip eingöngu til þorskveiða og meira að segja varð stundum að leggja togurum vegna þess fyrst og fremst, að þeir gátu ekki keppt við síldveiðarnar um kaup og kjör sjómanna, þrátt fyrir ýmsar jöfnunarráðstafanir milli þessara útgerðarþátta. Eftir hvarf síldarinnar var síldveiðiflotanum breytt meira eða minna í togskip, þótt sum þeirra væru bæði óhagkvæm að stærð og gerð fyrir marga útgerðarstaði úti um land, og á árinn 1967 fóru menn alvarlega að hugleiða nauðsyn endurnýjunar togaraflotans. Á vegum Norðurlandsáætlunar var þá m.a. unnið að sérstakri athugun á því, hvaða stærð og gerð togskipa mundi henta bezt frá útgerðarstöðum á Norðurlandi. Við þessa athugun var stuðzt við nýjustu tölvutækni og tölfræðilegar upplýsingar, sem við eigum einstæðar um aflabrögð íslenzku togaranna á undangengnum árum. Slíkar vísindalegar vinnuaðferðir við ákvörðun hentugra skipa eru nú orðnar algengar meðal erlendra fiskveiðiþjóða. Því miður var áðurnefndri athugun ekki að fullu lokið af ástæðum, sem hér yrði of langt mál að rekja, en bráðabirgðaniðurstöður sýndu, að 400–500 lesta skuttogarar mundu henta bezt, hafa hagstæðasta rekstrarútkomu, ef miðað var við, að nær öllum afla yrði landað á Norðurlandi. Þessi athugun var gerð í samráði við nokkra útgerðaraðila, og þrjú útgerðarfyrirtæki á Norður- og Austurlandi fóru þegar á árinu 1969 að leita fyrir sér um smíði á slíkum skipum og fengu bæði tilboð erlendis frá og frá íslenzkum skipasmíðastöðvum. Hugmynd stjórnvalda var sú að greiða sérstaklega fyrir smíði þessara skipa í landinu. Málalyktir urðu þó þær, að áðurgreindir aðilar hættu við þessi áform sín.

Ástæðurnar fyrir þessu voru að mínum dómi þrjár. Í fyrsta lagi lagði togaranefnd ríkisins kapp á, að ríkisvaldið styddi sérstaklega smíði þúsund lesta skuttogara, sem gert var með sérstöku 15% framlagi frá ríkissjóði og viðkomandi sveitarsjóði eins og kunnugt er og frv. liggur hér fyrir um. Útilokað var fyrir minni sveitarfélög að hlíta þeim skilmálum. Þá hafði þessi ráðstöfun mikil áhrif á afstöðu sjómanna og útgerðaraðila um það, hvað skyldi teljast nýtízku togarl. Flestum þótti lítið til 400–500 lesta skipa koma, enda þótt athuganir á hagkvæmni þeirra fyrir innlenda hráefnisöflun sýndu, að þeir voru hagstæðari skip. Sem betur fór réðust þó nokkrir aðilar í minni sveitarfélögum fyrir norðan og austan í að kaupa miðlungsstóra skuttogara notaða erlendis frá. Reynslan af þeim hefur verið mjög góð, eins og kunnugt er, og átti það drýgstan þátt í því, að nú er mikil eftirspurn eftir hliðstæðum skipum víðs vegar um landið, en þó alveg sérstaklega á stöðum norðan- og austanlands, sem hafa þá sérstöðu að þurfa að hafa skip með mikla sóknargetu, ef nýta á aðstöðu og mannvirki, sem í hefur verið ráðizt á þessum stöðum, og þeir eiga að haldast í byggð.

Þá er ég kominn að kjarna þess atriðis, sem ég vildi minna hér á og menn hafa gjarnan nefnt endurnýjun togaraflotans. Við erum í raun alls ekki að endurnýja togaraflotann, það er mjög víllandi hugtak. Við erum að fara inn á þá braut að umþótta víðs vegar um landið frá síldveiðum og yfir í þorskútgerð. Ef við hefðum byggt nokkra þúsund lesta togara fyrir þá staði, sem áður stunduðu togaraútgerð, hefðum við verið að endurnýja togaraflotann. En nú erum við að láta smíða fjöldann allan af þorskveiðiskipum í stað síldveiðibátanna, sem víða eru nú úreltir og óhentugir sakir nýrra viðhorfa. Hér er því um að ræða breytta stefnu í sjávarútvegsmálum, sem er afleiðing breyttra aðstæðna, en ekki orðin til fyrir tilstilli stjórnvalda, hvorki fyrrv. né núverandi. Breytta stefnu, sem ég hygg lífsnauðsyn að framkvæma, þótt auðvitað sé ekki sama, hvernig að verður staðið. Ástæðan til þess, að ég legg áherzlu á þetta við þessar umr., er fyrst og fremst sú, að í mínum huga vekur þetta spurningar um það, hvernig stjórnvöld hyggjast standa að því að auðvelda þessa umþóttun, sníða af henni þá agnúa, sem á því eru augljósir að söðla um með svo snöggum hætti. Og síðast en ekki sízt: Hvaða ráðstafanir hyggjast stjórnvöld gera til þess að hluti þessara skipa verði smíðaður í landinu með tilliti til þess, að allar líkur eru á, að uppistaðan í íslenzkum fiskiskipaflota verði á næstunni slík skip?

Ég ætla einungis að ræða hér síðustu spurninguna. Flestum hv. þm. mun vera kunnugt, að samningar standa nú yfir við erlenda aðila um smiði á flestum eða öllum þessum skipum. Mikið er af því látið, að verð þessara aðila sé margfalt lægra en íslenzkra skipasmiðastöðva. Í þessu er fólginn mikill misskilningur og ýkjur, svo að ekki sé meira sagt. Eini skuttogarinn, sem hér er í smíðum af sambærilegri stærð og miðlungsskuttogarar þeir, sem nú er mjög sótzt eftir, er á mjög hliðstæðu verði. Þetta gerist þrátt fyrir að samkeppnislönd okkar, Pólland og Spánn eða Japan, búa við gerólík hagkerfi, einkum þó hin fyrrnefndu. Vinnuafi er þar ódýrt og ríkissjóðir þessara landa greiða beint og óbeint niður skipasmiðarnar. Okkur Íslendingum ætti að vera ljóst, að við byggjum aldrei upp skipasmíðaiðnað í landi okkar, ef sá ungi og lítt reyndi iðnaður á að keppa án gagnráðstafana af hálfu íslenzkra stjórnvalda við slíka aðila. Ég hlýt að lýsa áhyggjum mínum yfir vinnubrögðum íslenzkra stjórnvalda í þessum efnum. Svo sem kunnugt er af fréttum, hefur stofnunin nýja haft þau afskipti af skipasmíðum á Akureyri, að hún hefur óskað þess, að Slippstöðin hætti við smíði tveggja þúsund lesta skuttogara, sem fyrrv. ríkisstj. samdi um við stöðina, en að smíðaðir verði í staðinn nokkru minni togarar. Stjórn stöðvarinnar hefur tekið þessari málaleitun vel og hefur stungið upp á leið til þess að framselja samninga um smíði þúsund lesta togaranna. En þá bregður svo við, að engin leið er að fá svör um það, hvort ríkisvaldið hyggist beita sér fyrir því, að stöðin fái að byggja minni togarana, 3–4, eins og minnzt var á í tilmælum stofnunarinnar. Mér er ekki kunnugt um, að ríkisstj. hafi með einum eða öðrum hætti látið kanna, hvaða brögðum Pólverjar, Spánverjar eða Japanir beita okkur í samkeppni um smíði á þessum skipum. Mér er ekki heldur kunnugt um, að ríkisstj. hafi látið kanna, hvaða afleiðingar ýmsar ráðstafanir hennar, svo sem í skattamálum, hafi haft á samkeppnishæfni íslenzks skipasmiðaiðnaðar eða t.d. vinnutímastyttingin ein, sem talin er hafa í för með sér 5–6 millj. kr. hækkun á einum skuttogara, sem byggður yrði innanlands, frá því sem áður var. Ég hlýt því að spyrja, þó að hæstv. ráðh. séu allir svo önnum kafnir, að þeir hafi ekki tíma til þess að sækja fundi þessarar hv. d., þá hlýt ég að spyrja, og það gæti einhver kannske komið því til þeirra: Er ríkisstj. ljóst, að miklar líkur eru á því, að miðlungsstórir skuttogarar verði uppistaðan í íslenzkum fiskiskipaflota á næstu árum? Ætlar hún eða ætlar hún ekki að stuðla að því, að nokkur hluti þess flota verði frá byrjun smíðaður hér á landi, svo að reynsla fáist í skipasmíðum á þessu sviði? Hvaða ráðstafanir hyggst hún gera til þess?