23.03.1972
Neðri deild: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

4. mál, kaup á skuttogurum

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta mikla mál, ekki til þess að orðfæra sérstaklega það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. ræddi í sinni ræðu um það, sem snertir skipabyggingar innanlands, heldur til þess að rifja upp og minna á það framtak, sem hafizt var handa um af hálfu hæstv. fyrrv. ríkisstj.

Það er svo að heyra víða og víðast, að menn standi í þeirri meiningu, að hæstv. núv. ríkisstj. hafi haft frumkvæði um þessa nýsköpun í sjávarútvegi, sem skuttogararnir vitanlega eru. Þetta er hinn mesti misskilningur, því að af hálfu fyrrv. ríkisstj. var tekin ákvörðun um byggingu hvorki meira né minna en 17 skuttogara, átta stórra skipa; tveggja í Póllandi, fjögurra á Spáni og tveggja á Akureyri, — þó að e.t.v. verði breyting á því nú, þá skiptir það ekki höfuðmáli, — fimm í Noregi fyrir Vestfirðinga, tveggja fyrir Siglufjörð, þar af annað byggt hér innan lands, og síðan gerði hún Austfirðingum kleift að kaupa tvö skuttogskip í Neskaupstað og Hólmatind á Eskifirði. Þetta var fyrir frumkvæði fyrrv. ríkisstj. og á það vildi ég leggja áherzlu og til þess er erindi mitt í ræðustólinn nú.