03.12.1971
Efri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

106. mál, verslunaratvinna

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um lítið mál að ræða. Gert er ráð fyrir einni minni háttar breytingu á gildandi lögum um verzlunaratvinnu. Lagt er til, að greinilega sé tekið fram í lögunum, að ráðh. hafi heimild til þess að veita einstökum aðilum verzlunarleyfi, án þess að þeir uppfylli öll þau meginskilyrði, sem gengið er þó út frá í lögunum að eigi að vera til staðar, þegar um leyfi til verzlunaratvinnu er að ræða.

Í eldri lögunum voru slík heimildarákvæði, en þau, sem eru í lögunum eins og þau eru nú, þykja ekki nægilega skýr í þessum efnum. Það hefur sem sé komið í ljós, eins og segir í grg. frv., en þar segir m.a.:

„Í ljós hefur komið við framkvæmd laganna, að erfitt er að veita ýmsum aðilum verzlunarleyfi, sem eðlilegt er að eigi kost á leyfi til verzlunar. Er því lagt til, að núgildandi heimild verði rýmkuð, þannig að ráðh. geti veitt undanþágu frá skilyrðum 3. tölul. 4. gr., þegar sérstaklega stendur á að hans mati.

Er hér t.d. átt við iðnaðarmenn, sem verzla oft með vörur í sinni sérgrein, en hafa sjaldan verzlunarskólapróf. Svo má og nefna ýmsar sérverzlanir svo sem hannyrðaverzlanir, söluturna, smærri verzlanir o.s.frv. Virðist of strangt að gera þá kröfu, að allir, sem slíka verzlun vilja reka, hafi verzlunarskólapróf eða jafngilda menntun eða þá hafi starfað við verzlun um þriggja ára skeið. Á hinn bóginn hafa slíkir umsækjendur oft sérþekkingu á takmörkuðu sviði t.d. hannyrðakennari á hannyrðavörum o.s.frv.“

Bent er einnig á, að þetta sé í fullu samræmi við þá grg., sem fylgdi frv. til I. um verzlunaratvinnu, þeim lögum, sem nú gilda, en í þeirri grg. stóð, að það væri skoðun þeirrar nefndar, sem undirbjó þá löggjöf, að hún teldi æskilegt, að einstaklingar og fyrirtæki væru eins frjáls að því að geta stundað verzlun og frekast væri kostur.

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það hefur sem sagt komið í ljós, að alveg óhjákvæmilegt þykir, að í lögum séu skýr fyrirmæli um það, að ráðh. geti vikið frá þessum meginatriðum varðandi kröfur um menntun til verzlunaratvinnu og veitt heimildir, þegar sérstaklega stendur á. Ég vænti þess, að þetta fáist samþ., legg svo til, að að lokinni þessari umr. gangi málið til allshn. til athugunar.