17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

106. mál, verslunaratvinna

Frsm. minni hl. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. allshn. hefur getið um, þá kom upp ágreiningur í n. vegna þessa frv., sem hér liggur fyrir. Hins vegar vil ég byrja á því að láta í ljós undrun mína á þeirri yfirlýsingu frsm. meiri hl., sem er á þá leið, að meiri hl. n. hafi ekki getað samþ. brtt. mína, því að sú brtt. sá ekki dagsins ljós fyrr en meiri hl. var búinn að skila sínu áliti raunverulega og lýsa því yfir, að hann væri ekki til viðtals um eina eða neina breytingu. Það var vegna þess, að ekki tókst að vekja upp slíkar umr. og fá samkomulag um eina eða aðra breytingu, sem ég í n. áskildi mer rétt til að lýsa sérskoðunum mínum í þessu máli og leggja fram brtt., sem ég hef nú gert.

Hér er ekki um að ræða stórmál, en þó mál þess eðlis, að ekki er hægt að afgreiða það frá hinu háa Alþ., án þess að það sé skoðað og menn taki afstöðu til þess eftir beztu samvizku. Frv. gerir ráð fyrir því, að ráðh. geti veilt undanþágur frá skilyrðum frv. um leyfi til verzlunaratvinnu, þegar sérstaklega stendur á að hans mati, og fyrir mitt leyti tel ég þetta frv. óaðgengilegt, vegna þess að það er sett undanþága inn í löggjöfina án nokkurs fyrirvara og að því er virðist án þess að nokkrar skorður séu fyrir því eða almennar reglur um, hvenær ráðh. geti veitt þessar undanþágur og hvenær ekki.

Lög um verzlunaratvinnu voru orðin allgömul eða frá 1929, og á miðjum síðasta áratug hófust umr. um nauðsyn á því að breyta þessum lögum. Til þess var skipuð nefnd, eins og frsm. meiri hl. allshn. hefur skýrt frá, og út úr þeim athugunum kom svo frv., sem í aðalatriðum var samþ. og nú eru lög nr. 41 frá 1968, um verzlunaratvinnu. Þessi lög eru ítarlega samin og að því er virðist vandlega undirbúin. Þar hafa menn velt fyrir sér ýmsum hliðum þessa máls og m.a. kemur fram í grg. með því frv., að nefndin hefur einmitt gert sér grein fyrir því vandamáli, sem liggur að baki því, að þetta frv., sem nú er lagt fram, er flutt, því vandamáli, sem skapast gjarnan og þá helzt um hinar dreifðu byggðir, þar sem einstaklingar eru að setja á stofn einhvers konar rekstur, þar sem verzlun er kannske ekki aðalmarkmið þessa reksturs, en er þó nauðsynleg, og þá eru þessir einstaklingar ekki búnir þeim hæfileikum eða þeim skilyrðum, sem lögin setja til þess að menn geti fengið verzlunarleyfi. Það segir í grg. frv., sem varð að lögum 1968, með leyfi forseta:

„Nefndinni er enn fremur ljóst, að ýmis mjög sérstök vandamál risa í sambandi við verzlun í strjálbýli. Hefur nefndin í till. sínum leitazt við að gera ráðstafanir, sem veiti íbúum í strjálbýli eins góða verzlunarþjónustu og kostur er, jafnvel þótt samkeppnin um hylli kaupendanna geti ekki þróazt þar með sama bætti og gerist í þéttbýli.“

Þarna kemur ljóst fram, að nefndin hefur einmitt gert ráð fyrir og hugleitt þetta vandamál, en engu að síður hefur hún lagt fram það frv., sem gert var, og frv. síðan samþ., eins og öllum er kunnugt.

Tilgangur nefndarinnar og tilgangur laganna var vissulega sá að gera verzlunarþjónustuna sem bezta á hverjum stað og á hverjum tíma, en ég leyfi mér að efast um, að bezta verzlunarþjónusta sé endilega fólgin í því að veita undanþágu um verzlunarrekstur til einstaklinga, sem hafa mjög takmarkaða þekkingu á verzlunarrekstri og kannske eru alls ekki hæfir til þess. Enn fremur vil ég vekja athygli á því, að eitt aðalmarkmið þessa frv. um verzlunaratvinnuna og laganna var að tryggja, að þeir aðilar, sem fást við verzlun, geti uppfyllt þær skyldur, sem slíkur rekstur leggur þeim á herðar, ekki hvað sízt gagnvart samfélaginu í heild. Og þar segir enn fremur í nál.:

„Nefndin telur þvert á móti æskilegt, að einstaklingar og fyrirtæki séu eins frjálsir að því að stunda verzlun og frekast er kostur, svo framarlega sem tryggt sé eins og kostur er, að verzlunin fullnægi skyldum sínum gagnvart borgurum og samfélaginu.“

Þarna er náttúrlega sá fyrirvari settur um frjálsa verzlun, sem a.m.k. ég styð, að þá sé fullnægt almennum lágmarkskröfum, skilyrðum og skyldum um það, að verzlunarreksturinn tryggi borgurunum og samfélaginu sem bezta þjónustu. Mín skoðun er sú, að þegar búið er að setja lagabálk, samþykkja lagabálk um verzlunaratvinnu, ítarlegan lagabálk, þá sé það ekki verjandi nokkrum árum seinna að setja inn í þennan sama lagabálk ákvæði um það að veita undanþágu frá þeim skilyrðum, sem búið er að selja lög um. Eða til hvers er yfirleitt verið að setja lög, ef ekki á að setja almennar reglur fyrir fólk og fyrir samfélagið til þess að fara eftir? Og það er lítið vit í slíkri löggjöf, sem er upp á margar greinar, í þessu tilfelli er hér um löggjöf að ræða upp á 17 gr., og síðan kemur ákvæði, sem segir bara, að ef ráðh. metur svo, þá skal hann veita undanþágu frá lögum. Ég fellst vissulega á, að það geti skapazt þær kringumstæður, að nauðsynlegt sé að liðka til, og þess vegna hef ég sett þá skoðun fram, að jafnframt því sem ráðh. fái heimild til að gefa undanþágu, sé það háð einhverjum lágmarkskröfum. sem gera verður til viðkomandi aðila. Fram kemur í nál. með frv. frá 1968, að þróunin hafi verið sú í hinum ýmsu atvinnuvegum og sérsviðum að auka forgang og sérréttindi viðkomandi aðila. Nú skal ég engan dóm leggja á þessa þróun og má vel vera, að hún sé ekki heppileg, en þetta er staðreynd engu að síður og manni finnst þá ankannalegt, að á sama tíma sem þessi þróun er mjög áberandi og greinileg sé vikið frá henni á þessum vettvangi og gefin undanþága, sem nánast gefur allt saman frjálst.

Við höfum í þessu landi verzlunarskóla, þar sem við erum að reyna að ala upp ungt fólk til að hafa sérþekkingu á verzlunarstörfum, fjögurra ára skóla. Við höfum veitt vissa viðurkenningu á verzlunarmenntun og verzlunarfræðslu og ég held, að það þurfi að gera reyndar meira af því að viðurkenna verzlunarfræðin, en á meðan við erum að uppfræða fólk og viðurkennum það með því að reka sérstakan skóla og veita fjármagn til þessa skóla, þá verðum við líka að gera ráð fyrir því, að það þurfi sérstaka menntun til þess að reka verzlun, og þá getum við ekki á sama tíma fallizt á að veita undanþágur til hvers og eins án nokkurra skilyrða eða fyrirvara um það, að maður hafi einhverja lágmarksþekkingu.

Frsm. meiri hl. allshn. taldi, að frv., eins og það liggur fyrir og meiri hl. er að mæla með, geri ekki ráð fyrir, að ótakmarkað megi veita undanþágur, og vitnar þar til mats einhverra lögfræðinga. Skal ég ekki draga úr ágæti minna kollega, en ég get þó ómögulega séð, hvernig hægt er að skilja þetta mjög svo skýlausa frv. öðruvísi en svo, að ráðh. hafi alveg ótakmarkaða heimild og ótakmarkað vald til þess að veita undanþágu að sínu eigin mati og til þess þurfi ekki að koma annað en hans eigið mat. Enginn fyrirvari annar en þar sem segir: „þegar sérstaklega stendur á„. Og hvað er það „þegar sérstaklega stendur á“, er það ekki mjög teygjanlegt hugtak og rúmt til orða tekið? Minn skilningur á þessu frv. er þvert á móti sá, að ráðh. hafi algjörlega ótakmarkað vald, ótakmarkað ráðrúm til þess að veita undanþágurnar. Ég leyfi mér líka að efast um, að með því að samþykkja þá hógværu brtt., sem ég flyt við þetta frv., þá fjölgi undanþágum. Ég get ekki skilið þann rökstuðning, því að ég held þvert á móti, að ef settar eru almennar reglur um nauðsynlega undirstöðumenntun viðkomandi einstaklings, sem sækir um undanþágu, í bókhaldi eða vörufræði eða allra þýðingarmestu lagafyrirmælum, sem gilda um verzlunarrekstur, þá ætti það ekki að stuðla að því að undanþágum fjölgaði.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá er hér ekki um að ræða stórmál. Ég vildi láta þetta álit mitt koma í ljós með því að bera fram þessa brtt. og skila sérstöku áliti. Ég tel, að lögin um breyt. á 10. gr. laga um verzlunaratvinnu, sem samþ. voru hér 1970 í febrúar, séu alls ekki hliðstæð þeirri breyt., sem nú er verið að gera, því að þau voru samþ. af sérstökum ástæðum vegna EFTA- aðildar Íslands og eiga sér þá skýringu, og forsenda þeirra laga var því allt önnur en sú, sem hér vakir fyrir flutningsaðilum.

Brtt. gerir ráð fyrir því, að aftan við frv. komi svo hljóðandi málsgrein: „enda sé fullnægt lágmarksskilyrðum, sem nánar skulu ákveðin með reglugerð“, þ.e. að ráðh. geti veitt undanþágu frá skilyrðum þessa töluliðs, þegar sérstaklega stendur á að hans mati, þegar fullnægt er lágmarksskilyrðum, sem nánar skuli ákveðin með reglugerð. Ég hefði haldið, að þetta væri hógvær till. og væri þess eðlis, að þd. gæti fallizt á hana.