02.02.1972
Efri deild: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

153. mál, umferðarlög

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja. Eins og hæstv. dómsmrh. hefur lýst sem sinni skoðun, þá mun það sýna sig, að hve miklu leyti ákvæði þessa frv. um eigin ábyrgð tjónvaldar, sem hér er til umr., muni bera árangur í þá átt að fækka umferðarslysum. Ég efast ekkert um, að við getum öll sameinazt um það að óska, að svo verði, en reynslan verður þar úr að skera.

Hæstv. ráðh. vék að ýmsum atriðum, sem bæði væri verið að undirbúa og æskileg væru til þess að reyna að fækka umferðarslysunum. Hann minntist þar á fræðslu í skólunum. og þetta atriði er auðvitað mjög mikilvægt, að byrjað sé á þegar á ungum aldri barna að fræða þau um umferðina og kenna þeim að vara sig á hættunum. Af hálfu umferðarráðs stóðu á sínum tíma yfir, eins og ég veit að hæstv. dómsmrh. mun vera kunnugt, miklar umræður við menntmrn. um. hvernig þessu skyldi fyrir komið, og því er ekki að leyna, að fræðsla um umferðarmál hefur alls ekki verið svo sem ætlazt hefur verið til bersýnilega, þegar maður les lög og reglugerðir, sem snerta þetta. Ég er hæstv. dómsmrh. sammála um, að það beri að leggja megináherzlu annars vegar á fræðslu í skólunum og hins vegar, sem hann e.t.v. hefur áðan nefnt, en hefur þá bara farið fram hjá mér, að nota sjónvarp og hljóðvarp, í þessu skyni og þó fyrst og fremst sjónvarpið.

Það hefur verið gerð sú breyting á útvarpslögum okkar, að þessu hefur einmitt verið komið þar inn, og það hefur verið einnig af hálfu umferðarráðsins mjög mikið kannað, á hvern veg þessu yrði bezt fyrir komið. Ég vil segja það, að þegar umr. urðu í þinginu í fyrra einmitt um hlutverk umferðarráðs, þá lét ég í ljós þá skoðun mína, að það bæri að leggja sérstaka áherzlu á þessa tvo þætti í viðleitni manna til þess að afstýra umferðarslysunum. Sjálfsagt þarf mikla athugun og sérfræðiþekkingu til þess að koma þessu fyrir á þann bezta veg, sem á verður kosið, og kostnaður hlýtur að sjálfsögðu einnig af því að verða. Skoðun mín er sú, að sjónvarpið ætti að leggja af mörkum það tæknilega framlag, sem til þarf, en umferðarráð yrði þá, að sjálfsögðu í samráði við fjölmiðlana, að skipuleggja, hvernig þetta skyldi gert.

Það er eðlilegt, að öllum hrjósi hugur við hinum hörmulegu og tíðu umferðarslysum, kannske fyrst og fremst þegar menn verða fyrir líftjóni eða bíða heilsutjón af völdum umferðarslysa, og einnig hlýtur mönnum að vaxa í augum það geysilega fjártjón, sem af þessum slysum verður. Ég var nýlega að tala við mann, sem er starfsmaður eins af tryggingafélögunum og hefur verið það um marga áratugi, og þetta barst í tal og ég innti hann eftir því, hvort við Íslendingar hefðum ekki eiginlega hæsta tölu umferðarslysa þeirra landa, sem hann þekkti til. Ég verð að segja, að ég furðaði mig nú nokkuð á því, að hann taldi, að svo væri ekki, og nefndi eitt af nágrannalöndum okkar, sem mundi vera fyllilega sambærilegt við okkur að þessu leyti. Ég skal ekki fara frekar út í það, en þar hlýtur þá líka margt að vera bogið bæði við umferðarmenningu og fræðslu, sem ég hélt þó að ekki væri.

En ég vil enda þessi orð mín með því að taka undir það, að ég held, að sérhver tilraun, jafnvel þó að vafi kunni að vera um, hvern árangur hún beri, hún eigi fullan rétt á sér til þess að afstýra þessum ósköpum, sem orðin eru í umferðinni.