16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

153. mál, umferðarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur gengið í gegnum Ed. og var þar samþ. óbreytt og athugasemdalaust í þeim búningi, sem það var lagt fram í öndverðu. Þetta frv. er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 11. jan. s.l. Það fjallar um breytingar á 73. gr. umferðarlaganna og sú efnisbreyting er í því fólgin, að lögð er nokkur sjálfsábyrgð á þá bifreiðaeigendur, sem hafa valdið tjóni. Það segir svo í þessari 73. gr., eins og lagt er til að henni verði breytt, með leyfi forseta:

„Nú hefur viðurkennt vátryggingafélag, sbr. 70. gr., greitt bætur samkv. framangreindu, og skal þá sá, sem fébótaábyrgð ber á tjóni samkv. 69. gr., endurgreiða vátryggingafélaginu fjarhæð, sem nemur 2.5% af vátryggingarfjárhæð ökutækisins samkv. 1. málsgr. 70. gr., ef tjónið nemur þeirri fjárhæð, en ella að fullu. Endurkröfurétti þessum fylgir lögveð í ökutækinu á sama hátt og greinir í 4. málsgr. 69. gr., þó þannig að veðband það, sem þar greinir, gangi fyrir.“

Þessi prósenta, sem þarna er tilgreind, mundi svara til þess, að sjálfsábyrgðin nemi 7 500 kr. á bifreið, ökutæki. Í 3. málsgr. sömu gr. er bannað að kaupa tryggingu gegn endurkröfu vátryggingafélagsins. Með þeirri lagabreytingu er stefnt að því að hamla gegn því eða ákveða það, til þess að ekki sé dregið úr því aðhaldi, sem verið er að setja með lögum þessum.

Með þeirri lagabreytingu, sem hér er um að ræða, er stefnt að því að reyna að hamla á móti eða draga úr hinum alvarlegu umferðarslysum. Það þarf sjálfsagt ekki hér að fjölyrða um það, hversu alvarleg umferðarslysin eru orðin, þau eru orðin mörg hér, þeim hefur farið fjölgandi. Það liggja náttúrlega augljósar ástæður til þess, að svo hefur orðið, bifreiðum hefur fjölgað, vegir og götur eru ekki svo góðar sem skyldi, umferðin hefur aukizt gífurlega, en því miður verður að segja það eins og það er, að mikið skortir einnig á að gætni og nægileg tillitssemi sé sýnd í umferðinni. Þá er auðvitað alvarlegast af öllu í þessu sambandi það, að það hefur borið á og ber talsvert á ölvun við akstur. Ölvaðir ökumenn eru auðvitað stórhættulegir sjálfum sér og öðrum og þarf ekki að fjölyrða um það.

Auðvitað er það átakanlegast í sambandi við þessi bifreiðaslys þegar slys verða á mönnum, sem hafa í för með sér örkuml eða dauða, en hitt er einnig víst, að í sambandi við þessi bifreiðaslys og umferðarslys á sér stað gífurlegt fjártjón og eignatjón. Umferðarráð hefur gert nokkrar skýrslur um umferðarslys hér, þ. á m. umferðarslys árið 1970 og umferðarslys 1969, ég rakti þær tölur í hv. Ed., og sé ekki ástæðu til þess að fara út í þær skýrslur hér. Þar er einnig að finna nokkra greinargerð um það, hvar slysin eiga sér stað, hvort þau hafa átt sér stað í þéttbýli eða utan þéttbýlis o.s.frv. Sú hv. n., sem fær þetta mál hér til meðferðar, getur að sjálfsögðu fengið aðgang að þessum skýrslum, og ég skal því ekki lengja mál mitt með því að vera að endurtaka þær hér.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefur löggjöfin fram til þessa, eða fram til þess að þessi brbl. voru gefin út, verið á þann veg, að bifreiðaeigendur hafa ekki borið neina sjálfsábyrgð í sambandi við skyldutryggingu eða ábyrgðartryggingu. Það hefur að vísu verið heimild til endurkröfu alveg samsvarandi og samhljóða því, sem er í 2. málsgr. 71. gr. þessa frv., þar sem segir, að vátryggingafélag hafi endurkröfurétt á hendur hverjum þeim, sem valdið hefur slysi eða tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, en lækka megi þó endurkröfuna með hliðsjón af sök tjónvalds, efnahags hans, fjárhæð tjónsins eða öðrum atvikum. Þetta ákvæði var tekið inn í umferðarlögin á sínum tíma, en þá aðeins sem heimildarákvæði, en vitaskuld út frá nokkuð svipaðri hugsun eins og liggur til grundvallar þeirri lagabreytingu, sem hér er um að ræða. En þegar þetta var sett inn í umferðarlögin á sínum tíma, þótti ekki rétt að fara lengra í þessu efni en þarna var gert. Það hefur fengizt reynsla af framkvæmd þessa heimildarákvæðis og ég gerði líka í Ed. nokkra grein fyrir því, hvernig sú reynsla væri, og það liggja fyrir tölur um það, hve oft vátryggingafélög hafa lagt fram slíka endurkröfu, hve oft nefnd sú, sem um þetta á að fjalla samkv. lögum, hefur tekið slíka kröfu til greina. Og án þess að ég ætli að endurtaka það, sem ég sagði í Ed. um þetta, þá er það ljóst að mínum dómi, að tryggingafélögin hafa farið mjög sparlega í það að nota þessa heimild og þess vegna hefur orðið minna úr því, að þetta heimildarákvæði veitti það aðhald í þessum efnum, sem því var upphaflega ætlað að gera. Þess vegna hefur það verið svo í reyndinni, þrátt fyrir þetta heimildarákvæði, sem í lögum hefur verið, að þeir, sem lenda í því að valda tjóni, þurfa oft ekki annað en að tilkynna tjónið og vátryggingafélagið borgar þá, en þeir sleppa við öll fjárútlát í sambandi við það. Sú skipan er ekki heppileg að mínum dómi, og með þeirri lagabreytingu, sem hér er um að ræða, er farið inn á þá braut að láta þá, sem tjóni valda, borga jafnan nokkuð sjálfa. Það er skoðun mín, það er a.m.k. trú mín, að slíkt muni verða þeim nokkurt aðhald og stuðla að því, að menn fari gætilega. Þó að þetta hafi staðið nokkurn tíma nú, þá er það samt svo, að ekki er hægt að segja, að það sé fengin nokkur reynsla af því enn, en þó sýnist sumum, að það hafi haft nokkra verkun í þessa átt, en það er vitaskuld ekki samt á þessu stigi hægt að fullyrða um það, hver reynslan af þessu verður. Ég lít á þetta sem tilraun, sem sjálfsagt er að gera, en mér er auðvitað ljóst, að það þarf margt fleira að koma til, til þess að reyna að vinna á móti hinum miklu og sívaxandi umferðarslysum, þeirri miklu slysaöldu, sem hér hefur borið á að undanförnu. Þetta frv. eða sú skipan, sem lagt er til að lögleidd sé með því, er ekki nema einn sína í þeirri viðleitni, sem þarf að eiga sér stað í þá átt að reyna að hamla á móti þessum stórkostlegu slysum.

Í sambandi við þetta mál hafa komið fram raddir um það, ekki sízt frá bifreiðarstjórunum sjálfum, að það væri ástæða að setja upp sérstakan dómstól í sambandi við meðferð þessara mála, dómstól, sem þeir hafa kallað umferðardómstól. Það hefur nú sýnt sig við eftirgrennslan í því efni, að hugmyndir manna um það efni eru nokkuð óljósar, og það er ekki kunnugt um, að fyrirmynd að slíku sé að finna í nágrannalöndum. Samt sem áður eru starfsmenn í dómsmrn. að athuga það, hvort rétt sé eða hægt sé að setja upp slíkan sérstakan dómstól til þess að fjalla um þessi mál m.a. til þess að reyna að flýta fyrir úrlausn í þeim.

Það er auðvitað meginatriðið í þessu frv., að farið er inn á þessa braut að leggja þannig nokkra sjálfsábyrgð á þá bifreiðaeigendur, sem valda tjóni. Hitt er auðvitað og verður álitamál, hvaða upphæð á að nefna í þessu sambandi. Ég held, að sumum geti sýnzt, að þarna sé of lág upphæð nefnd, öðrum getur sýnzt, að hún sé of há, og um þetta geta verið skiptar skoðanir. Ég hygg nú, að þegar alls er gætt, þá sé þessi tala þarna nokkuð nærri lagi.

Það er auðvitað rétt að undirstrika það, sem augljóst er af frv., að ákvæði þess breyta engu fyrir þann, sem fyrir tjóni verður, hann á eftir sem áður sinn rétt óskertan á hendur tryggingafélaginu, það er engin áhætta lögð á hann. Samskipti hans og tryggingafélagsins verða alveg óbreytt, frá því sem verið hefur, og hann getur gert sína kröfu og gerir sína kröfu á hendur tryggingafélaginu, og tryggingafélaginu er skylt að standa honum skil á hans bótakröfu. En það er svo tryggingafélagið, sem skal endurkrefja þann, sem tjóni veldur, um þessa upphæð. Það er augljóst mál, að þessari endurkröfu fylgir nokkur fyrirhöfn og kostnaður fyrir vátryggingafélögin, og reynslan verður að skera nokkuð úr í því efni, hversu greiðlega gengur að endurheimta þessa fjárhæð.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, að þarna sé um að ræða tilraun til þess að reyna að hamla á móti hinum miklu umferðarslysum, en mér er það ljóst, að mörg atriði önnur þurfa að koma þarna til og þurfa að fara saman og það þarf að hefja nýja sókn í því að vinna gegn umferðarslysunum. Þar eru auðvitað mörg atriði, sem koma til greina og sem augljóst er að þurfa að koma til greina. Þar má sjálfsagt henda á nauðsyn aukinnar löggæzlu, það er ekki vafi á því, að með aukinni löggæzlu má nokkuð stemma stigu við umferðarslysunum og það þarf að aðgæta. Enn fremur er það auðvitað mjög mikið atriði að koma á aukinni fræðslu í þessum efnum og á ég þá fyrst og fremst við almennt að koma á og auka fræðslu um þessi efni í sk5lum. Enn fremur má vel vera, að það þurfi að huga að því að bæta fræðslu þeirra, sem með ökutæki fara, þ.e. ökukennsluna, og margt annað kemur þarna til greina. Þá þarf að mínum dómi að ganga hiklaust fram í því að svipta ökumenn ökuleyfi, þar sem ástæða er til þess. Það er að vísu svo, að framkvæmd í því efni hefur verið nokkuð mismunandi eftir umdæmum. Ég hef fyrir mitt leyti lagt áherzlu á það, að framkvæmdin í þeim efnum væri samræmd og henni væri fylgt stranglega fram, og það er mín skoðun, að svipting ökuleyfis þegar í stað og til bráðabirgða strax þegar slys verður, þar sem nokkur ástæða er til þess, sé eitt áhrifaríkasta tækið til þess að hamla á móti þessum umferðarslysum. Það þarf auðvitað svo að skapa það almenningsálit, sem vinnur á móti þessum umferðarslysum og kennir mönnum þá umferðarmenningu og rótfestir hjá mönnum þá umferðarmenningu, sem nauðsynleg er. Um þetta og mörg önnur atriði í sambandi við þetta alvarlega mál mætti að sjálfsögðu tala hér langt mál, ég skal ekki fara út í það hér nema tilefni gefist til, en ég held, að það verði allir að leggjast á eitt um það, að reyna að styðja hverja tilraun, sem gerð er í þessu efni, jafnvel þó að það spor, sem stigið er í það og það sinn, sé ekki stórt.

Ég skal svo, herra forseti, ekki fara um þetta frv. fleiri orðum, en vísa til þess, sem ég sagði áðan, að auðvitað getur sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, fengið þau gögn, sem fyrir liggja og þetta mál varða, og ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn.