10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

198. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 378 var flutt í Ed. og hefur fengið þar samhljóða samþykki. Efni frv. er það að breyta stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins frá því, sem nú er. Ástæðan til þessarar breytingar er fyrst og fremst sú, að í lögum nr. 89 frá 1966, um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, eru ákvæði um sjóðstjórnina og þar segir, að formaður sjóðsstjórnar skuli vera forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar eða fulltrúi hans. Með lögum frá 20. des. s.l., um Framkvæmdastofnun ríkisins, er Efnahagsstofnunin lögð niður og af þessum sökum er nauðsynlegt að breyta nefndu ákvæði um stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og þykir eðlilegt að tengja stjórn sjóðsins við þá aðila, sem lagt er til hér í frvgr. En þar er lagt til, að hún verði skipuð fimm mönnum, og skal landbrh. skipa hana til fjögurra ára í senn. Skal einn stjórnarnefndarmaður vera tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, annar af Stéttarsambandi bænda, þriðji af Búnaðarbanka Íslands, fjórði af Framkvæmdastofnuninni og fimmti af ráðh. án tilnefningar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. að lokinni þessari umr.