07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

162. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hér er nú reyndar hreyft miklu máli, sem hefði verið hægt að spjalla lengi um, en ég ætla ekki að gera það, heldur nota tækifærið og spyrja hæstv. sjútvrh., hversu langt er komið þessari athugun á nýjum reglum og kannske nýju kerfi í sambandi við vátryggingasjóðinn og fyrirkomulag á vátryggingum skipa. Mig rekur minni til þess, að eitt af þeim atriðum, sem eru í hinum margumrædda stjórnarsáttmála, sé einmitt endurskoðun á þessu vátryggingakerfi fiskiskipa, sem hefur verið vandræðakerfi um margra ára bil. Innan samtaka útvegsmanna eru mikil átök um kerfið sjálft og er því ekki að leyna, að í gegnum þetta kerfi fer fram einhver mesta raunverulega eignaupptaka, sem á sér stað hér á Íslandi, og væri hægt að margsanna það.

En hvað um það. Síðari fréttir hafa hermt það, að þessi stjórnarnefnd Tryggingasjóðs hafi metið skip mjög misjafnlega. Nýlega strandaði skip í Grindavík, glænýtt, og kom í ljós, að það var metið svo lágt, að eigendur þess urðu fyrir stórtjóni, því að matið er aðeins greitt út. Nú skal ég ekki segja neitt um það, hvernig þessu mati hefur verið háttað, en mér skilst, að útvegsmenn eigi þó einn fulltrúa í þessari nefnd, en fróðlegt væri að vita um það, hvernig allt þetta kerfi gengur fyrir sig, ef slíkt á sér stað, að mörg skip eru þannig vanmetin, vegna þess að þegar búið er að veita slíka fyrirgreiðslu við nýsmíði, eins og á sér stað nú á Íslandi, þá er auðvitað mjög mikið atriði, að lánveitendur hafi tryggingu fyrir sínu fjármagni. En mér skilst, að allt að 85–92% sé lánað út á skip hér innanlands, á fiskibáta. Ég vildi aðeins fá að forvitnast um það, hvað líður þessari endurskoðun. Og er að vænta þess, að við sjáum einhverjar till. á yfirstandandi þingi, eða er farið eingöngu eftir því, hvað stjórnarnefndin segir og samtök útvegsmanna?