17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

162. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur rætt þetta mál á fundi og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda ítarlega ræðu um þetta mál. Þetta er stjfrv., og ef menn vilja kynna sér efni þess eða forsendurnar fyrir því, þá geta þeir lesið grg. Aðalatriðið er að hækka útflutningsgjöldin úr 1900 kr. í 2300 kr. á tonn, og þessi hækkun á að renna til tryggingamála. Við höfum kynnt okkur það, að mikil þörf er fyrir að fá aukið fé til tryggingamálanna, vegna þess að verðhækkanir hafa orðið á skipum og yfirleitt allri þjónustu, og þess vegna varð samkomulag um það í n. að mæla með samþykkt frv. Hins vegar áskilja einstakir nm. sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., ef þær koma fram. En n. sem slík hefur ekki lagt til, a.m.k. ekki við þessa umr., neinar ákveðnar breytingar.