25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

7. mál, ríkisreikningurinn 1969

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir til 1. umr. ríkisreikningurinn fyrir árið 1969, en hann hefur, eins og hann ber með sér, verið endurskoðaður bæði af ríkisendurskoðuninni og yfirskoðunarmönnum. og hefur fyrrv. fjmrh. svarað þeim fsp„ sem þar voru gerðar. Ástæðan til þess, að reikningur þessi var ekki lagður fyrir á síðasta Alþ., var sú, að þá hafði ekki verið lokið við að gera grein fyrir þeim nefndum, sem störfuðu á árinu 1969, en samkomulag varð um það milli yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins og þáv. hæstv. fjmrh. að fresta því, að reikningurinn yrði lagður fram fyrr en því verki væri lokið. Nú hefur hér á hv. Alþ. verið lögð fram ásamt reikningnum skrá yfir þessar nefndir og þær upplýsingar, sem í sambandi við þá athugun var gerð.

Við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1971, fyrir rúmu ári, gerði fyrrv. fjmrh., Magnús Jónsson, ítarlega grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1969. Eigi er því þörf að gera nema stutta grein fyrir ríkisreikningi þess árs nú með því frv., sem hér liggur fyrir til samþykktar á honum. Gjöld á rekstrarreikningi, A-hluta ríkisreikningsins fyrir árið 1969, námu 7 milljörðum 589 millj. 629 þús. kr. Þau fóru 589 millj. og 22 þús. kr. fram úr áætlun fjárlaga og skiptast svo á einstakar greinar fjárlaga:

Æðsta stjórn ríkisins var áætluð 54 millj., en reyndist 61. Forsrn. og menntmrn. var áætlað 1 milljarður 151 millj., en reyndist 1 milljarður 232 millj. Utanrrn. var áætlað 117 millj., en reyndist 135 millj., atvmrn. 820 millj., en reyndist 990 millj., dóms- og kirkjumrn. 631 millj., en reyndist 660 millj., félmrn. var áætlað 2 milljarðar 352 millj., en reyndist 2 milljarðar 495 millj., fjmrn. 400 millj., en reyndist 446, samg.- og iðnrn. 870 millj., en reyndist 1 milljarður 47 millj., viðskrn. áætlað 584, en reyndist 501 millj. eða lægri upphæð, Hagstofan 9.5 millj., reyndist 8.7 millj., einnig lægri, ríkisendurskoðunin 8 millj. 958 þús., en reyndist tæpar 10 millj.

Rekstrartekjurnar reyndust á þessu ári eða voru áætlaðar á þessu ári 7 milljarðar 454 millj. kr., og urðu því gjöld umfram tekjur 358 millj. kr. Fjárlögin 1969 gerðu ráð fyrir því, að afgangur yrði á rekstrarreikningi 95.8 millj. kr., en reikningurinn sýndi umframtekjur 134 millj. kr.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að gera frekari grein fyrir reikningnum, en legg til, herra forseti, að honum verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. að þessari umr. lokinni.