07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. eyddi sannarlega engu óþarfa orðskrúði í það að útskýra þetta frv., enda vil ég heldur ekki segja, að það sé háttur hans. En mér finnst málið vera þess eðlis, að ástæða sé til þess að fá á því nokkrar frekari skýringar.

Þegar samþykkt voru á sínum tíma kaup fyrst sex togara, sem síðan var fjölgað í átta, á vegum ríkisins, þá var það tekið fram, að hér væri um sérstæða fyrirgreiðslu að ræða, þar sem þar var byrjað að byggja mjög stóra togara á okkar mælikvarða, 1100 tonna skip, sem kostuðu miklar fjárhæðir, og var gert ráð fyrir því, að ríkið sjálft hefði um það milligöngu, og veitt var sérstök fyrirgreiðsla af ríkisins hálfu með tilteknum skilyrðum, sem ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja hér sérstaklega um. þar sem það allt er hv. þdm. mjög kunnugt mal. Það var hins vegar tekið þá fram, að það þyrfti að taka til sérstakrar athugunar, þegar þar að kæmi, hvernig ætti að leysa vandamál þeirra staða, sem sjáanlegt væri, að þyrftu á togurum að halda af minni gerð, þar sem hinir stóru togarar hentuðu ekki nema á fáum stöðum, enda ekki nema mjög fáir fúsir kaupendur þeirra stóru skipa. Síðan þetta gerðist hafa átt sér stað nokkur kaup á erlendum togurum, og auk þess hefur verið samið um smíði a.m.k. eins togara hér innanlands, og viss fyrirgreiðsla hefur verið veitt í þessu sambandi varðandi þann togarann, sem innanlands er smíðaður, og var enda alltaf gert ráð fyrir því, að það mundi koma til sérstök fyrirgreiðsla og aukin varðandi þá togara, sem innanlands eru smíðaðir, svo sem á sér stað um önnur fiskiskip, sem smíðuð eru í hinum innlendu skipasmiðastöðvum.

Hinir togararnir, sem fluttir voru til landsins, sem eru að vísu ekki margir, en þó nokkrir, voru fluttir inn með þeim hætti, að heimilað var af hálfu ríkisstj. að taka 80% erlent lán, og síðan mun með ýmiss konar fyrirgreiðslu og þá fyrst og fremst bankaábyrgðum hafa verið þannig frá málum gengið, að það tókst að kaupa þessi skip. Síðan þessi skip voru keypt hefur ekkert sérstakt verið gert af ríkisins hálfu til fyrirgreiðslu í sambandi við hin erlendu togarakaup, fyrr en það var ákveðið í fjárlögum, svo sem hæstv. fjmrh. gat um. að veita ríkisábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði slíkra skipa. Þetta var gert samkv. hinum almennu ákvæðum ríkisábyrgðalaga, þ.e.a.s. hér var um einfalda ábyrgð að ræða, sem er hin almenna regla, sem gildir í dag um ríkisábyrgðir, og er regla, sem ég hef oft lýst sjálfur, að væri mín skoðun, — og sú skoðun er ekkert breytt, þótt ég fari ekki lengur með stjórn fjármála ríkisins, — að sé mjög mikilsvert að hægt sé að halda við í sem allra flestum tilfellum. Enda hefur reyndin orðið sú, að síðan hætt var að veita sjálfskuldarábyrgðir hafa fallið á ríkissjóðinn miklum mun minni upphæðir í ábyrgðargreiðslum heldur en áður var. Það er því vissulega eitt út af fyrir sig mikið atriði, þegar að því er horfið, svo sem hér er gert, að veita sjálfskuldarábyrgð til kaupa á togurum.

Nú er það út af fyrir sig ekki nýtt mál, þannig að ég ætla ekki að fara að deila á það sérstaklega, að fara inn á þessa braut varðandi þessa fyrirgreiðslu. Það kann að vera, að hún sé óumflýjanleg. Það skal ég ekki um dæma. Og á sínum tíma voru nýsköpunartogararnir keyptir af ríkinu sjálfu, og einnig var sjálfskuldarábyrgð veitt í sambandi við togara, sem síðar voru keyptir. Því er hins vegar ekki að leyna, að í þessum tilfellum hafa fallið á ríkið mjög þungar kvaðir, þannig að það er jafnvel svo varðandi einstaka togara, sérstaklega þá, sem síðar voru keyptir til landsins, að milljónatugir hafa fallið á ríkissjóð að greiða af þeim lánum, sem tekin voru til kaupa á þeim togurum. Ég tel því það hafa mjög veigamikla þýðingu, þar sem hér er nú aftur farið inn á þá braut að veita þá fyrirgreiðslu, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði skuttogara, að hér sé farið með mikilli varfærni og reynt að tryggja það með sem öruggustum hætti, að ekki komi hér til nýjar stórkostlegar byrðar, sem falli á ríkissjóð. Ég tek það skýrt fram. að í þessum orðum mínum felst ekki nein gagnrýni á það, nema síður sé, að ríkið komi til og veiti fyrirgreiðslu til kaupa á togurum. Það hefur áður verið tekið fram. að það yrði að meta á sínum tíma, hvaða fyrirgreiðsla væri nauðsynleg í þessu sambandi, og er ég því ekki að átelja það, heldur aðeins leggja áherzlu á, hvað hér er vissulega um stórt mál að ræða, og að hér er verið að hverfa frá þeirri aðalreglu, að um sjálfskuldarábyrgð sé ekki að ræða.

Nú hygg ég, — þó veit ég ekki, hvernig þetta verður framkvæmt, — en ég hygg þó, að hér verði í rauninni ekki nema um 13% ábyrgð að ræða á kaupverði skips, ef ég skil þetta rétt, það sé gert ráð fyrir því, að kaupendur leggi fram 15% af andvirði skipsins og 5% verði fengið að láni í gegnum Byggðasjóð með sérstakri fyrirgreiðslu ríkisstj., þannig að til viðbótar komi svo lán úr Fiskveiðasjóði, — það er a.m.k. mjög æskilegt að vita, hvort ekki er gengið út frá því sem meginreglu, að þessar ábyrgðir verði miðaðar við skip, sem fá fyrirgreiðslu úr Fiskveiðasjóði, — þá yrðu það 67%, þannig að hér yrði um 13% ábyrgðarupphæð að ræða af kaupverði hvers skips.

Hér er að vísu ekkert sagt um það í frv., — það er eins snubbótt og hugsazt getur, — hvort þetta er svo sem ég hér er að segja eða ekki. Og það er ekkert um það sagt, hvort ætlunin sé, að þetta eigi við nýja togara, þ.e. þá togara, sem Fiskveiðasjóður metur sem nýja togara. Ég álít, að það væri mjög æskilegt að fá vitneskju um þessi atriði.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir eftir frv., að hér er eingöngu átt við togara. En því er ekki að leyna, að það hafa komið fram raddir um það, og væri einnig fróðlegt að vita, hvort slíkt kemur hér til álita, þannig að það fari ekkert á milli mála, að það væri jafnmikil ástæða að veita ríkisábyrgð eða hliðstæða fyrirgreiðslu til kaupa á öðrum skipum, sem smíðuð væru erlendis. Hingað til hefur ekki verið leyft að taka 80% lán nema til skuttogarakaupa, en við vitum, að skuttogarar geta verið af þeirri stærðargráðu eða það litlir, að það eru til almenn togskip, sem eru jafnstór og skuttogarar. Og spurningin er þá þessi: Kemur til álita, að slík fyrirgreiðsla fáist til kaupa á slíkum skipum, eða verður þetta við það miðað, að hér verði eingöngu um skuttogara að ræða? Og þá spyr ég enn fremur í þessu sambandi: Er nokkur breyting á þeirri reglu, sem gilt hefur, að þessi 80% erlenda lántaka sé eingöngu miðuð við skuttogara eða þau skip, sem flokkast undir togara?

Það er eitt mjög óvenjulegt í þessu frv., og það er, að það er engin tala um það, hversu marga togara hér gæti orðið um að ræða. Það er, eins og ég segi, ekki heldur neitt um það getið, hvaða skilyrði viðkomandi þurfi að uppfylla í sambandi við greiðslu á þessum 13%, sem hér koma sem áhættufé á ríkisins herðar sem sjálfskuldarábyrgð. Held ég, að væri mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu. Ég veit ekki, hvort það eru t.d. sett ákveðin skilyrði um, hvað hin erlendu lán þurfi að vera til langs tíma og hvort er þá miðað við það langan tíma, að líklegt sé, að eigendur skipanna geti staðið undir þessum greiðslum, eða hvort hér er fyrir fram með því reiknað, að svo og svo stórar fjárhæðir af þessum lánum lendi á ríkissjóði í lengri eða skemmri tíma. Ég tel, að það út af fyrir sig sé töluvert varhugavert að hafa þessa ábyrgð svo opna eins og hér er raunin á, að það er ekki minnzt á neina tölu skipa. Þetta kann að vísu að vera erfitt, því að nú er þannig málum háttað, að það hefur skollið flóðbylgja yfir ríkisstj., að ég hygg óhætt að segja, varðandi kaup á skuttogurum. Nú er ég síður en svo að lasta það, að endurnýjaður sé skipafloti landsmanna, en ég hygg, að hér sé um að ræða flóðbylgju, sem er harla ískyggileg, og væri fróðlegt út af fyrir sig að fá vitneskju um, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að mæta þessum vanda, hvort það er t.d. ætlunin, að hin nýja Framkvæmdastofnun ríkisins eigi að koma hér til og flokka það, hverjir eigi að fá þessi skip og hverjir ekki. Ég veit ekki betur en þegar þetta dæmi var siðast gert upp, þá hafi verið fyrirhuguð kaup á nálægt 40 togurum, sem munu kosta um 4.3 milljarða kr., þannig að hér er vítanlega um að ræða geysilega fjárfestingu. Að vísu verður þetta ekki allt á sama árinu, en næstu 2–3 árin eftir þeim óskum, sem fyrir liggja, þannig að það er alveg ljóst, að hér er við feiknamikinn vanda að glíma.

Nú er ég enginn skömmtunarmaður eða sérstakur talsmaður þess að taka upp skömmtun á þessu fremur en öðru. En að sjálfsögðu verður þó að íhuga það, og ég hygg, að allir geti verið sammála um það, hvar í flokki sem þeir annars eru, að hér sé um mjög varasama þróun að ræða, að svona bylgja skuli skella yfir í einu. Það kann vel að vera, að það þurfi að taka nú nokkurt stökk til endurnýjunar á togaraflotanum. En hér rís auðvitað í fyrsta lagi það vandamál, hvað það stökk má vera stórt, hvað er viðráðanlegt og hvað er skynsamlegt. Það þarf auðvitað að gera sér grein fyrir ýmsum atriðum í þessu sambandi. Fjárreiðurnar skipta auðvitað ekki minnstu máli og hvaða skilyrði á að setja, til þess að menn geti eignazt þessi skip. Nú er það að vísu svo, að vel getur verið, að það sé nauðsynlegt að tryggja skip til einhverra tiltekinna staða, án þess að hægt sé að leggja fram umrædd 15%, sem mér skilst, að sé ætlunin að gera kröfu um, án þess að til komi sérstök opinber aðstoð. Hér þarf auðvitað að meta það, hvort það kunni að vera staðir, sem atvinnulega séð. þurfi að fá skip, en hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess. Slíkt þarf að meta út af fyrir sig, og verður auðvitað að fara í það með mikilli varfærni og gætni, því að eigi allir kost á því að fá að kaupa skip með svo að segja fullri fyrirgreiðslu ríkisvaldsins, þá er það að sjálfsögðu ekki sjáanlegt, í hvaða feni við erum lentir.

Í annan stað þarf auðvitað að gera sér grein fyrir því, hvert verður verkefni skipasmíðastöðvanna í landinu. Það hefur verið talað um nauðsyn þess, sem rétt er, að dreifa verkefnum í skipasmíðum þannig, að skipasmíðaiðnaðurinn geti alltaf verið fullnýttur, starfskraftar hans. Þá þarf enn fremur að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því, að mér skilst, að flestir, sem eru að kaupa þessa togara, hugsi sér að selja skip í staðinn til að fjármagna með því þessi 15%. Og þessi skip, sem verið er að selja, eru í langflestum tilfellum hin betri skip flotans, þannig að það má vera, að þau séu tiltölulega vel söluhæf. En þá rís sú spurning, hvort auðið reynist, ef á að taka þessa flóðbylgju alla saman, 35–40 togara, að koma þessum skipum í verð. Þetta er eitt vandamálið enn, sem þarf að íhuga.

Síðast, en ekki sízt þarf auðvitað að gera sér grein fyrir því, hvernig á að manna þessi nýju skip, eða kostar það það, að þau verði keypt, að það verði að leggja eða sé hætta á, að það verði að leggja svo og svo stórum hluta af öðrum skipaflota landsmanna.

Ekkert af þessu er ég að segja í gagnrýnistón, heldur aðeins til þess að benda á, að hér stöndum við andspænis einu stærsta fjárfestingarvandamáli okkar og einu þeirra tilfella, sem því miður vilja oft henda okkur Íslendinga, að þegar ráðizt er í einhverjar framkvæmdir, þá ætla helzt allir að gera þær samtímis. En það, sem auðvitað liggur fyrir hér, er að gera sér grein fyrir því fyrst og fremst, eins og ég áðan sagði, hvaða fjárhagsáhættu ríkið er á sig að taka með því frv., sem hér liggur fyrir, og vildi ég leyfa mér að vænta þess, að hæstv. fjmrh. sæi sér fært að gera hv. þd. nokkru nánari grein fyrir því, hvernig hann hyggst tryggja það, að hér verði ekki um að ræða stórfelld útgjöld af hálfu Ríkisábyrgðasjóðs með töku þeirra sjálfskuldarábyrgða, sem hér er um að ræða, og jafnframt væri að sjálfsögðu fróðlegt ef þess er kostur á þessu stigi, að fá vitneskju um það, hvort hér er ekki ætlunin að miða við einhverja ákveðna tölu skipa, og yfir höfuð, hver ætlunin er eða hver er stefna ríkisstj. í sambandi við þessi miklu togarakaup, sem nú eru augsýnilega fram undan, og hvaða mörk stjórnin hugsar sér að setja í þeim efnum og hver á endanlega að taka ákvarðanir um það, hvort ríkisstj. ætlar að gera það sjálf eða fela hinni miklu stofnun að skera úr um, hver eigi að vera hinn heppni eða ekki. Þetta vonast ég til, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært eða sjútvrh. að upplýsa okkur nánar um.