07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hér gaf í tilefni af fsp. mínum, svo langt sem þær upplýsingar náðu. Þær voru algerlega fullnægjandi varðandi þau skilyrði, sem sett hafa verið af hálfu fjmrn. vegna ríkisábyrgðanna, og hef ég út af fyrir sig ekkert við það að athuga annað en að nokkuð virtist óljóst, sem hann sagði um það, að 11 mál hefðu þegar hlotið afgreiðslu. Hvernig bar að skilja það? Hafa ríkisábyrgðir þegar verið veittar fyrir kaupum á 11 togurum? Það vil ég hins vegar vona, að ekki sé, vegna þess að til þess er engin lagaheimild, þannig að ég vil mega skilja orð hans svo, að það hafi verið lögð fram fullnægjandi skilríki fyrir því í Ríkisábyrgðasjóði, að þessar ábyrgðir verði veittar, þegar Alþ. hefur veitt umbeðna lagaheimild.

En það eru önnur atriði, og hv. 1. þm. Vestf. kom nokkuð inn á þau og ég einnig í ræðu minni áðan, sem hæstv. fjmrh. lét hjá líða að svara. Það kann vel að vera, að erfitt sé að svara þeim spurningum, en vitanlega væri þó mjög fróðlegt, eins og hv. 1. þm. Vestf. sagði, að mynda sér um það einhverja skoðun, og það er einmitt þetta atriði, að það er vitað, að óskir eru uppi um kaup á 40 togurum. Er það ætlun ríkisstj., ef aðilar geta lagt fram þær tilteknu fjárhæðir, sem krafa er gerð um, að leyfa þá nú þegar að gera samninga um 40 togara?

Hv. 1. þm. Vestf. benti á það, sem ég einnig hygg, að ég hafi minnzt á í ræðu minni í þessu sambandi, að það kann einnig vel að vera, að þannig sé málum háttað, að ekki megi alveg fara eftir því, hvort menn hafa þessi 15% í höndunum, ef svo má segja, eða með aðstoð sinna banka eða séu viðurkenndir af sínum bönkum, það kunni að vera til byggðarlög, þar sem er brýn nauðsyn að fá skuttogara, en þetta fjármagn er ekki fyrir hendi. Ég skal fúslega játa, að það verður að fara í það með mikilli varfærni að veita sérstaka fyrirgreiðslu, þegar þannig stendur á, þegar um slíka flóðbylgju er að ræða sem hér ber raun vitni um, og hætt við, að allur sá fjöldi, sem óskar eftir þessum togurum og vitanlega fjöldamargir hafa ekki þessa peninga í vasanum, heldur kunna að eiga þá í verðbréfum og góðum eignum, muni þá gera einnig kröfu til þess, að ríkisvaldið fari að veita sérstaka aðstoð til að afla þessara 15% umfram það, sem nú er ætlazt til, að menn geri í samráði við sína banka, þannig að það verður auðvitað að fara með mikilli varfærni í þessa sérstöku fyrirgreiðslu, og yrði sennilega að metast af Byggðasjóði, í hvaða tilfellum það yrði talið óumflýjanlegt. En mér finnst það skipta miklu máli til þess að víta, hverju við stöndum hér andspænis, að gera sér grein fyrir því, hvort hæstv. ríkisstj. hugsar sér að fylgja þeirri stefnu, að allir þeir, sem hafa sótt um þau skip, sem nú hefur verið sótt um, og ég veit ekki einu sinni, hvort þeir eru allir komnir á blað, — það kunna að bætast einhverjir við fleiri, sem geta uppfyllt þessi skilyrði, sem ríkisstj. hefur sett, — hvort þeir geti þá gengið að því sem gefnu, að þeir fái að kaupa þessa skuttogara. Enn fremur það, sem ég spurði um áðan og hæstv. fjmrh. svaraði ekki heldur, var sú spurning, sem ég skaut fram í fyrri ræðu minni og mér finnst skipta töluverðu máli varðandi vinnubrögð í þessu sambandi, hún er sú: Er það ætlunin, að ríkisstj. sem slík hafi þetta togaramál í sínum höndum eða þessi mikla nýja stofnun, sem á nú að sjá um. að allt sé skipulega gert í þjóðfélaginu, — á hún að hafa þetta á sínum snærum? Ég hygg, að það sé engin uppljóstrun á neinum leyndarmálum, þó að ég segi, að sú stofnun hefur hafið nokkra athugun á þessu togaramáli í heild, og það skiptir þess vegna töluverðu máli að vita, hvort það sé ástæða til að vera að leggja í það vinnu eða hvort ríkisstj. sem slík ætlar að úthluta þessum togaraleyfum. Í þessum orðum mínum felst engin gagnrýni á það, þó að ríkisstj. ákveði það sjálf eða sjútvrn. og viðskrn. að hafa þetta í sínum höndum eða í samráði við fjmrn., en mér finnst það skipta töluverðu máli fyrir þá menn líka, sem eru að fást við kaup á þessum skipum, að þeir séu ekki eltandi alls konar menn, sem hafa þá e.t.v. ekkert með þetta mál að gera, eins og hefur töluvert borið á til þessa, að menn hafa verið að leita til þeirra framkvæmdaráðsmanna og vafalaust formanns í Framkvæmdastofnuninni um þessi togaramál. Þetta held ég, að væri gott vinnubragðanna vegna og vegna þeirra, sem eru með hugleiðingar um skipakaup, að vita, hvernig í stórum dráttum þetta er hugsað, framkvæmdin á þessu, hvort sem sagt allir geta átt von á að fá þessi skip eða leyfi til að kaupa skip, ef þeir uppfylla þau skilyrði, sem ríkisstj. hefur sett, hvort það verður ríkisstj. sjálf, sem er þá aðili til að snúa sér til um leyfi til kaupa á þessum skipum, eða hvort það er Framkvæmdastofnunin, sem á að fara að taka upp eitthvert skipulag á þessum úthlutunum eða ekki. Og enn fremur langar mig til þess að spyrja um það, þó að það sé auðvitað mál ríkisstj. og megi ganga út frá því, að hún sjái fyrir því, úr því að hún veitir leyfi til kaupa á þessum skipum, hvernig er með fjárreiður Fiskveiðasjóðs.

Það hefur verið getið um það, að hér sé um 40 skip að ræða, sem muni kosta töluvert á 5. milljarð kr., sem er auðvitað geysileg fjárhæð. Nú er þetta ekki svo auðvitað, að þetta falli allt til á sama árinu, heldur er gert ráð fyrir því, að þetta dreifist á lengri tíma, og hæstv. fjmrh. hefur hér gert grein fyrir því, að þau skilyrði séu sett, ef ég hef tekið rétt eftir, að þessi erlendu lán séu til 8 ára. Engu að síður er hér að sjálfsögðu um að ræða geysilega fjárþörf, sem hlýtur að vera hjá Fiskveiðasjóði, bæði í sambandi við þessa miklu togaraöldu og svo almenn skipakaup önnur, sem munu vera töluvert mikið í gangi, og ég bygg, að það sé reiknað með því, að skipasmiðastöðvarnar í landinu geti haldið þrotlaust áfram og hafi verkefni nú næstu árin einnig, sem að sjálfsögðu leggur þá þungar kvaðir á Fiskveiðasjóð. Ég veit ekki, hvort á þessu stigi eru tiltækar hjá hæstv. ríkisstj. eða t.d. hjá hæstv. sjútvrh. nokkrar upplýsingar um það, hvað gera má ráð fyrir, að þetta dæmi allt verði stórt, og hvernig hugsað sé að fjármagna Fiskveiðasjóð til þess að geta leyst hans hluta af þessu dæmi. En það eru sem sagt aðallega þessi atriði, sem mig langaði til í framhaldi af því, sem hæstv. fjmrh. hefur þegar upplýst, að fá að vita, hvort menn geta vænzt þess, ef þeir uppfylla tiltekin skilyrði. að þeir geti þá nokkurn veginn afdráttarlaust fengið leyfi til þess að kaupa togara, eða hvort á það verði settar einhverjar hömlur, hvort sérstök fyrirgreiðsla og þá með hverjum hætti verði veitt til byggðarlaga, sem þurfa á skipum að halda, en hafa ekki þessi 15%, og hvort það verði ríkisstj. eða hvort það verði að einhverju leyti Framkvæmdastofnun ríkisins, sem endanlega taki ákvörðun um það, hver fær að kaupa skuttogara með hliðsjón af þessum ráðagerðum, sem nú eru uppi.