07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki níðast á velvild forseta. En mér kom nokkuð á óvart tónninn í ræðu hæstv. sjútvrh. út af þeim orðum, sem ég hafði látið hér falla, þar sem hann var að tala um eða finna að því, að það hefði verið hrollvekjutónn. Ég vissi ekki, hvort hann átti við okkur báða, mig og hv. 1. þm. Vestf., þó sennilega frekar við mig. Ég býst við, að hann hlífi honum nú frekar við átölum. En ekkert af því, sem ég sagði, var í neinu gagnrýnisskyni sagt, og það held ég, að allir hv. þdm. geti vottað. Ég var aðeins að spyrja hér um margvísleg atriði, sem máli skipta í sambandi við það, þegar á að auka togaraflota landsmanna, ja, um hvort heldur er 20, 30 eða 40 skip. Honum ofbauð nú ekkert og var að tala jafnvel um, að héðan hyrfu 200–300 togarar, og yrðum við að hafa það í huga. Allt þetta erum við sammála um, að efla togaraflota landsmanna, og það var siður en svo, svo að ég endurtaki það aftur, að í mínum orðum fælist nokkur gagnrýni á því, sem hæstv. ríkisstj. væri að gera í þessum efnum, heldur aðeins hitt, að hér er um stórmál að ræða, og að segja það, að þetta litla frv. gefi ekki tilefni til umr. um málið. Ég sé ekki, að málið beri að Alþ. í nokkru öðru formi en með þessu litla frv., og að eini grundvöllurinn til að ræða um málið verði einmitt þetta frv., sem er hvorki meira né minna en um það, að ríkið veiti 80% ábyrgð til kaupa á ótakmarkaðri tölu skuttogara. Og ég verð að segja, að mér finnst það væri undarlegt kæruleysi hjá hv. þdm., ef þeir spyrðu ekki að ýmsum atriðum, eins og ég hef hér spurt og hv. 1. þm. Vestf. hefur einnig hér spurt að og upp í hugann hljóta að koma í sambandi við þetta mál, án þess að um nokkra sérstaka gagnrýni sé að ræða. Ég tel það svo síður en svo neitt álösunarefni í garð hæstv, ríkisstj., þó að því sé lýst yfir af sjútvrh„ að Framkvæmdastofnunin hafi ekki með þetta mál að gera og það sé eðlilegra, að það sé í höndum sjútvrh. eða ríkisstj. Þá veit maður það, og það eru út af fyrir sig þarfar upplýsingar um það og nokkur staðfesting á því, að það hafi ekki verið svo ákaflega þarft að setja þessa stofnun á laggirnar.