19.04.1972
Efri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með meðmælum varðandi þetta frv., og þau orð, sem ég segi hér, eru því ekki til að gagnrýna það mál, heldur til að víkja að nokkuð öðru atriði, sem snertir þetta viðfangsefni, sem hér er verið að fást við.

Við 1. umr. málsins vék ég nokkrum orðum að þessu vandamáli í heild, sem við stöndum hér andspænis, og gerði þá nokkrar fsp. varðandi þær ríkisábyrgðir, sem ætlunin er að veita, og hæstv. fjmrh. svaraði þeim þá efnislega, þannig að ég sé enga ástæðu til þess að endurtaka þær fsp. Það er að vísu nokkuð óvenjulegt í sambandi við ríkisábyrgðir, sem hér um ræðir, jafnmiklar og hér er um að tefla, að það skuli ekki vera sett ákveðin takmörk varðandi fjölda þeirra skipa, sem við er miðað eins og t.d. var gert varðandi stóru togarana, — var á sínum tíma gert, þegar 10 togararnir voru keyptir og nýsköpunartogararnir á sínum tíma. En þetta er vitanlega ekki höfuðatriði. Ef hæstv. fjmrh. sér ekki ástæðu til þess að setja um það ákveðin takmörk í lögunum sjálfum, þá verður það að sjálfsögðu á hans valdi, hvernig hann framkvæmir þessar ábyrgðir, og ég hef ekkert við að athuga, hvernig hann hugsaði sér að tryggja það, að ekki kæmi til áfalla fyrir ríkið í sambandi við ábyrgðirnar.

Hinu er auðvitað ekki að leyna, sem hv. 4. þm. Norðurl. v., frsm., kom hér að og reyndar einnig hv. 2. þm. Vesturl., að það er nokkurt vandamál, hvernig uppbyggingu togaraflotans ber að og hversu miklar sveiflur er um að ræða, þar sem nú er fyrirhugað að smiða 30 og jafnvel fleiri togara, ef svo má segja, í einu, þ.e. á 2–3 árum. Þetta er ekki nýtt, að svona skriða hafi gengið yfir. Það gerðist á nýsköpunarárunum, þegar 30 togarar voru smíðaðir, og gerðist síðar, þegar samið var um 10 togara. Það hefur einnig gerzt á fleiri sviðum í sjávarútvegi. Það gerðist á árunum 1960–1965, þegar allur bátafloti landsmanna var í rauninni endurbyggður, og það er sá floti, sem hefur hvað mest fært af verðmætum að landi, en þetta var á þeim tíma, þegar síldin lét aftur til sín taka, og þessi endurbygging bátaflotans hefur gert mögulegt að sækja síldina mjög fjarri ströndum landsins. Og þess vegna hefur það haft sína miklu þýðingu.

Það varð svipuð skriða á öðru sviði einmitt á þessum árum, þegar síldarverksmiðjurnar mörgu voru byggðar, sem nú því miður standa auðar og ekki eru líkur til, að verði notaðar í náinni framtið. En þetta er eitt af því, sem við Íslendingar verðum að horfast í augu við varðandi sjávarútveginn og erfiðleikana á að gera áætlanir fram í tímann eða vita, hvernig hann þróast. Hann getur gersamlega breytzt frá einu ári til annars eða a.m.k. frá einum áratug til annars, þannig að dýrar framkvæmdir verði í rauninni verðlitlar eða verðlausar, og ástæðan til þess, að ekki var ásókn í það að endurnýja togaraflotann, vitum við allir, að var sú, að ekki var grundvöllur undir rekstri togaranna, og meðan hið siðasta síldarævintýri stóð yfir, þá einbeittu menn öllum kröftum sínum að því og hér er auðvitað mjög erfitt að koma við skipulagningu. Það verður að haga sér eftir því, hvernig ástatt er hverju sinni eða hvaða verðmæti sjávarins það eru, sem gjöfulust eru, og hvaða leiðir eru færastar til þess að ná þeim verðmætum. En óneitanlega veldur það lítilli þjóð eins og Íslendingum miklum erfiðleikum að leggja í stórkostlegar fjárfestingar, sem svo síðar kannske eftir stuttan tíma standa verðlitlar. Það skulum við vona, að ekki hendi varðandi skuttogarana. Það er engum efa bundið, að þar er um að ræða endurnýjun á skipastólnum, sem eins og ástæður eru nú er fullkomlega eðlileg, og líkur eru til þess, að þessir togarar skili betri árangri og verði hagkvæmari í rekstri heldur en hinir eldri togarar.

En það, sem var eiginlega kjarni þess, að ég taldi rétt að segja nokkur orð um málið, er það, að ég tel, að á því sé mikil nauðsyn nú, að í framhaldi af þeirri skriðu, sem nú hefur orðið að ganga yfir með skjótum hætti í sambandi við endurnýjun togaraflotans og ekki er ágreiningur um. þá verði leitazt við að vinna skipulega á næstu árum að endurnýjun togara- og bátaflotans, þannig að þetta verði ekki með þeim skriðuföllum eins og ég hef áður vikið að og við stöndum nú andspænis, sem sagt síðustu og nýjustu skriðunni af þessu tagi, endurnýjun skuttogaranna nú. Og þá kemur til annar vandi, sem ekki hefur verið hægt að mæta í sambandi við endurnýjunina nú, en það er að hafa hliðsjón af verkefnum skipasmiðaiðnaðarins. Þetta er nýr iðnaður hér á landi, en getur átt fyrir sér og við hljótum að stefna að því, að eigi fyrir sér að verða stóriðnaður á okkar mælikvarða, og það er fullkomlega eðlilegt, að við Íslendingar stefnum að því, eftir því sem við getum, að smiða okkar fiskiskip sjálfir. Það er þegar komin sú reynsla af skipasmíðum hér á landi, að ljóst er, að við erum þess megnugir að smíða skip, sem henta mjög vel okkar aðstæðum og eru fullkomlega samkeppnisfær við erlend skip.

Vitanlega gátu íslenzkar skipasmiðastöðvar ekki leyst þann mikla vanda, sem nú var fyrir dyrum, að fullnægja óskum manna um kaup á skuttogurum. En ég held, að eftir að þessi skriða er nú afstaðin, þá sé mjög mikilvægt, að skipulega verði að því unnið, að á næstu árum verði skipasmíðaiðnaðurinn byggður upp með þeim hætti og unnið þannig að endurnýjun skipastólsins að leitazt verði við, að íslenzkur skipasmíðaiðnaður verði hagnýttur sem bezt í því sambandi. Nú er að vísu ekki hér við að stríða atvinnuleysi og við vonum, að það verði ekki á næstu árum. En þó vitum við aldrei um það og það er a.m.k. mjög mikilvægt, að þessi iðnaður— að því leyti sem hann hefur verið upp byggður — hafi nægileg verkefni og einnig að hann þróist með eðlilegum hætti, þannig að við stefnum markvisst í þá átt, að eftir því sem þjóðinni fjölgar, gæti skipasmíðaiðnaðurinn einmitt tekið við fleira af hinu nýja, starfandi fólki. Þetta veit ég, að er út af fyrir sig enginn ágreiningur um, og ég geri alveg ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hafi skilning á þessu viðfangsefni, en nú nýlega t.d. gerðist það, sem ég er út af fyrir sig ekkert að deila á, að samkomulag varð um það við Slippstöðina á Akureyri að hætta smíðum hinna stóru togara, sem þar hafði verið samið um smiði á. Það er að vissu leyti eftirsjá að því, að það skyldi verða talið nauðsynlegt að gera þetta, því að það hefði verið mikils virði, ef við hefðum vegna einmitt þeirra togara, sem við erum að eignast, haft reynslu í smíði togara af svipaðri gerð. En eins og ég segi getur vel verið, að hér hafi verið um óumflýjanlegt mál að ræða, þar sem ljóst var, að þessir togarar yrðu ekki viðráðanlegir hvað kostnað snertir, en að sjálfsögðu er nauðsynlegt um leið og þetta gerist að sjá til þess, að þessi langstærsta skipasmíðastöð landsins hafi nægileg verkefni og geti byggt sig upp með eðlilegum hætti á næstu árum. Ríkið sjálft er orðið stór aðili að þessari stöð, og við heyrum, að aðrar stöðvar hafa fengið verkefni. Slippstöðin á Akureyri hefur einnig verkefni í bili, en eins og við öll þekkjum, þá eru skipasmiðar með þeim hætti, að það er nauðsynlegt, að vitað sé um verkefni nokkuð löngu fyrir fram, og þetta á sinn aðdraganda að undirbúa verkefni í skipasmíðum, þannig að það þarf að vinna að því nokkuð kerfisbundið með 2–3 ára fyrirvara, að stöðvarnar hafi sín viðfangsefni og geti treyst á, hvaða verkefni þær hafa.

Þessa vildi ég aðeins geta. Í þessum orðum mínum felst ekki nein gagnrýni á það frv., sem hér er um að ræða, nema síður sé, né heldur á þau togarakaup, sem hafa átt sér stað og sem einstaklingar og byggðarlög hafa ráðizt í af mikilli nauðsyn, heldur aðeins hitt, að við reynum á næstu árum að vinna skipulega að þessum málum, að halda áfram hóflegri uppbyggingu og hafa þá einnig hliðsjón af nauðsyn þess að efla íslenzkan skipasmíðaiðnað og búa honum nægilega sterka aðstöðu í landinu.