19.04.1972
Efri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Jón Árnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði, að það væri enn þá nægur áhugi hjá fleiri aðilum, sem vildu kaupa togara, og efast ég ekki um, að það sé rétt út af fyrir sig. Hitt er annað mál, hvort það er rétt, sem hér hefur verið haldið fram, að orsökin fyrir því, að nú er í jafnstórum stíl ráðizt í togarasmiði eins og raun ber vitni um, sé sú, sem hæstv. forsrh. hélt hér fram„ að endurnýjun togaraflotans hafi legið svo lengi niðri. Það er ábyggilegt, að það eru fleiri ástæður til þess, að sú mikla alda hefur risið í sambandi við togarakaup og togarasmíði nú, en sú, hvað þetta hefur lengi legið niðri, endurnýjun togaraflotans.

Það er búið að benda á það auðvitað við þessa umr. og oft við aðrar umr. hér að undanförnu á Alþ., að orsakanna er að leita til fleiri atriða í sambandi við þetta. Og eitt af því er m.a. það, sem hv. síðasti ræðumaður benti réttilega á. Um langan tíma var það svo, að það var ekki nokkur fjárhagslegur grundvöllur fyrir hendi hér í þessu landi til að reka togaraútgerð. Og þó að nú hafi bætzt við ýmsir staðir úti á landi, sem ekki hafa rekið togaraútgerð áður og ætla að byggja upp sitt atvinnulíf í framtíðinni með rekstri og nýtingu afla af togurum, þá erum við ekki búnir að sjá það neitt í sambandi við framtíðina, hvaða afleiðingar það hefur og hvað affarasælt það verður. Ég minnist þess, þegar við réðumst í þetta á Akranesi á sínum tíma að hefja bæjarútgerð og rákum um þó nokkurt tímabil tvo togara. Útkoman varð svo sú hjá bæjarfélaginu, þegar það gafst upp við þennan rekstur, að það sat uppi með stórtap, sem hafði verið dekkað á mörgum árum, en skuldir upp á 40 millj. kr., sem bæjarbúar hafa á undanförnum árum jafnað niður á sig í útsvörum til þess að greiða þær, hvorki meira né minna en 40 millj. Og við sjáum væntanlega allir, að hvað einstaklingum viðkemur má það vera augljóst mál, að það er á fárra manna færi að taka á sig jafnstórar fjárbyrðar eins og átti sér stað og mörg sveitarfélög og einstaklingar urðu að taka á sig á þeim tíma, þegar grundvöllur var ekki fyrir hendi. Við skulum bara vona, að slíkt eigi ekki eftir að endurtaka sig í þessum efnum í okkar landi fyrir togaraútgerð, því að ef svo verður, þá er það vissulega mikið áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga með þann glæsilega skipastól, sem á eftir að koma í náinni framtið í okkar landi.

Nei, það er vissulega ánægjulegt, að svo mikil bjartsýni skuli vera fyrir hendi í sambandi við útgerðina, og vonandi er, að sú bjartsýni eigi við rök að styðjast og að framtíðin beri það í skauti sér, að togarasmíðin og þessi stóraukna skipasmiði yfirleitt eigi framtíð fyrir sér, og því vil ég treysta.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir það, sem hann sagði í sambandi við annað, sem ég vék að í minni fyrri ræðu, varðandi aðstöðuna í frystihúsunum, sem hann tók undir, að væri mjög nauðsynlegt að vinna að og ráða bót á sem fyrst. Og hæstv. ráðh. sagði: Það er unnið að og verður unnið að því að afla fjár til endurbóta á frystihúsunum, og þm. þarf ekki að hafa áhyggjur af því, að ekki verði séð fyrir fjármagni til þeirra framkvæmda. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þessa yfirlýsingu og ég vænti þess bara, að það þurfi ekki að bíða langan tíma, að efndir verði á, að slík yfirlýsing komi til framkvæmda.