24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

26. mál, áætlun um hafrannsóknir o.fl.

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það kemur glöggt fram af svari hæstv. ráðh., að það hefur ekki verið unnið eins og átti að vinna, eftir því sem þál. mælir fyrir um, þar sem forstöðumaður Hafrannsóknastofnunarinnar segir, að það sé ekki hægt að gera áætlanir um þessi mál 3 ár fram í tímann. Svar af þessu tagi hlýtur að teljast alger markleysa. Sér hver maður í hendi sé, að það er hægt að gera áætlanir um þessi efni, sem þál. gerir ráð fyrir, fram í tímann, ekki síður en um fjöldamargt annað, sem áætlað hefur verið, bæði um rannsóknir í orkumálum og fjöldamarga aðra rannsóknarþætti. Ég skora því á hæstv. ráðh. að láta verða af því, sem hann ráðgerði hér áðan í svari sínu, að taka þessi mál úr höndum Hafrannsóknastofnunarinnar, ef hún treystir sér ekki til að gera þetta sjálf, og láta vinna þetta verk eins og Alþ. hefur lagt fyrir; setja þá t.d. sérstaka n., þar sem væru fulltrúar frá Hafrannsóknastofnuninni og samtökum sjómanna og útvegsmanna, eins og Alþ. ætlaðist til. Ég vil eindregið skora á hæstv. ráðh. að láta gera það. Ég trúi ekki öðru, ef slík samstarfsnefnd væri sett á fót af hálfu rn., en þá mætti fá góða samvinnu og árangur af því verki.