18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Engri ríkisstj. á Íslandi hefur mistekizt jafnherfilega og þeirri, sem setið hefur að völdum undanfarið hálft annað ár. Hún tók við í mesta góðæri, sem yfir þessa þjóð hefur gengið. Að hálfu öðru ári liðnu steðja nú að svo hrikalegir efnahagserfiðleikar, að a.m.k. tveir af stjórnarflokkunum hafa orðið að kyngja 12 ára gömlum fullyrðingum um skaðsemi gengislækkunar og sýnt í því sambandi, að kokið á þeim er býsna vítt.

Hvað var það, sem hæstv. ríkisstj. hafði lofað, þegar hún tók við völdum fyrir hálfu öðru ári?

Hún gaf þrjú meginloforð. Hún lofaði, að grundvöllur útflutningsatvinnuveganna skyldi haldast traustur, að hér skyldi ekki vera meiri dýrtíð en í nálægum löndum og að kaupmáttur launa skyldi hækka um 20% á tveim árum. Hverjar hafa orðið efndirnar á þessum loforðum? Er rekstrargrundvöllur útflutningsatvinnuveganna traustur? Hver veit ekki, að bátaflotinn er í dag rekinn með miklu tapi? Hver veit ekki, að togaraflotinn er rekinn með tapi? Hver veit ekki, að frystiiðnaðurinn, mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga, er rekin með tapi? Allar þessar aðalgreinar útflutningsatvinnuveganna njóta nú þegar styrks úr ríkissjóði, og halli þeirra mun fara stórvaxandi á næsta ári. Hver hefur ekki heyrt þann boðskap iðnrekenda, bæði einkaiðnrekenda og samvinnuiðnrekenda, að fyrirsjáanlegt sé, að á næsta ári muni verða stórkostlegur halli á rekstri iðnaðar á Íslandi? Er þetta að efna loforðið um traustan grundvöll útflutningsatvinnuveganna? Og hvernig er með dýrtíðina? Hefur dýrtíðin verið stöðvuð? Nei, dýrtíðarvöxturinn hefur haldið áfram, og enginn hefur borið á móti því, að dýrtíð hér hafi undanfarið hálft annað ár vaxið meira en hún hefur gert í nálægum löndum. Þetta loforð hefur ekki heldur verið efnt. Hvernig er með 20% kaupmáttaraukninguna, sem lofað var á tveimur árum? Í kjarasamningunum í des. 1971 var samið um verulegar kauphækkanir, sem hefðu aukið kanpmátt launa, ef þær hefðu fengið að haldast, því sem næst 15%. En ríkisstj. hefur smám saman verið að taka dálítið af þessu aftur. Hún svipti launþega hluta af þessari kauphækkun í sambandi við skattalagabreytinguna, þegar hún breytti nefsköttunum í venjulega tekjuskatta. Nefsköttunum, sem voru í vísitölugrunninum, breytti hún í tekjuskatta, sem voru ekki í vísitölugrunninum, og hækkaði þess vegna verð á landbúnaðarvörum sem nam um 4–5 vísitölustigum, án þess að launþegar fengju þetta bætt í 9 mán., og þá loks ekki nema að nokkrum hluta. Enn gekk hún á hlut launþeganna með brbl. í júlí s.l., þegar frestað var framkvæmd á 2.5 vísitölustigum, sem launþegar hafa orðið að bera bótalaust síðari hluta þessa árs. Í dag er ekki greitt kaupgjald samkv. rétt reiknaðri vísitölu. Það er haldið fyrir launþegunum vísitölustigum, u.þ.b. 4–5 stigum, sem launþegar fá nú ekki bætt. Ríkisstj. hefur í tvígang, að ég nú ekki tali um skattalagabreytinguna, skattaþynginguna, verið að taka aftur hluta af kjarabótinni, sem launþegar sömdu um í des. 1971. Nú er þetta allt saman kórónað með 11% gengislækkun, sem auðvitað kemur til með að valda kjaraskerðingu, jafnvel þó að vísitölukerfið haldi áfram að vera í gangi. Mér skilst, að þessi gengislækkun, sem nú hefur verið ákveðin, muni hækka framfærsluvísitöluna um u.þ.b. 7 stig og kaupgjaldsvísitöluna um u.þ.b. 5 stig, þegar hún er komin til framkvæmda að fullu. En mergur málsins er sá, að ríkisstj. gaf stór loforð, en hefur verið að svíkja þau.

Þetta minnir mig á sögu af bandarískum kaupsýslumanni og syni hans. Kaupsýslumaðurinn lá á banabeði. Hann hafði náð miklum árangri í lífi sínu, komizt til mikilla áhrifa og safnað miklum auði. Sonur hans kemur til hans að banabeðinum og segir, að sig langi til að feta í fótspor hans, og biður hann að gefa sér góð ráð um það, hvernig hann eigi að ná jafnlangt og honum hafi tekizt. Gamli maðurinn segir við son sinn: „Vertu heiðarlegur og vertu hygginn: Sonurinn spyr: „Hvað er að vera heiðarlegur?“ Faðirinn segir: „Það er að efna alltaf loforð sín: Sonurinn spyr: „En hvað er að vera hygginn?“ Þá segir faðirinn: „Það er að gefa aldrei nein loforð.“ Um þessa ríkisstj. er það að segja, að hún gaf mörg loforð, en hefur svikið þau öll. Um hana má segja með sanni, að hún er hvorki heiðarleg né hyggin.

Þegar rætt er um frv., sem til umræðu er, og ákvörðun ríkisstj. og Seðlabankans um 11% gengislækkun, verður að vekja sérstaka athygli á því, sem ekki hefur verið undirstrikað rækilega í umr, fram að þessu, að úrræði ríkisstj. eru ekki nein af till. valkostan. Hún benti á þrjár leiðir, eins og allir vita, á uppbótaleið, niðurfærsluleið og gengisbreytingarleið, ásamt ýmsum hliðarráðstöfunum. Þær ráðstafanir, sem valkostan. benti á, var hún sammála um, að mundu ná tilætluðum árangri og leysa vandann. Enga þessara leiða hefur hæstv. ríkisstj. valið. Ef valkostan. yrði spurð um það, hvort þær ráðstafanir, sem ríkisstj. er nú að gera, muni leysa þann vanda, sem við er að etja í efnahagsmálum, er enginn vafi á því, að hún muni svara neitandi. Það er ekki nokkur vafi á því, að dómur valkostan. um þessar ráðstafanir ríkisstj. yrði neikvæður. Vandinn er m.ö.o. óleystur, þrátt fyrir þessar ráðstafanir, þetta er auðvitað mergur málsins. Ríkisstj. hefur ekki tekizt að ná samkomulagi um að beita sér fyrir þeim ráðstöfunum, sem hún veit, ef hún tekur mark á sínum eigin sérfræðingum, að einar mundu leysa vandann. Verðbólgan mun halda áfram, verðbólguvöxturinn mun halda áfram, og rekstur útflutningsatvinnuveganna mun ekki verða tryggður. Þessar ráðstafanir, sem ríkisstj. nú grípur til, munu eflaust duga til þess að fleyta þjóðarskútunni áfram í nokkra mánuði, kannske í 1/2 ár, en lengur verður það ekki. Þá strandar hún. Þá lendir ríkisstj. í nýrri kreppu. Hvort henni tekst að leysa hana, er enn þá óséð mál.

Annars er hið sögulegasta við þessa ákvörðun það, að annaðhvort er hún röng eða þá að allt það, sem núv. stjórnarflokkar hafa verið að segja um efnahagsmál og gengismál í 12 ár, hefur verið rangt. Hið þriðja er ekki til í dæminu. Hafi verið snefill af sannleika í því, sem forustumenn Framsfl., Alþb. og SF hafa haldið fram varðandi grundvallarsjónarmið í efnahagsmálum undanfarin 12 ár, þegar þeir hafa undantekningarlaust fordæmt þær gengisbreytingar, sem þá voru gerðar, áttu þeir auðvitað ekki að lækka gengið. Þá hlýtur líka að vera rangt að lækka gengið núna. Í raun og veru er því fólginn í þessari ráðstöfun þungur áfellisdómur yfir öllum málflutningi höfuðmálgagna stjórnarflokkanna um efnahagsmál í 12 ár. Ég öfunda þá ekki á næstu dögum og vikum að þurfa að gera grein fyrir því, hvers vegna gengislækkun, sem hefur verið mestur skaðvaldur á undanförnum áratug, er nú allt í einu orðin heilbrigt og heppilegt bjargráð. Skýringuna á því eiga menn eftir að fá.

Annars er nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir því, að þær gengisbreytingar, sem gerðar voru á undanförnum áratug, voru allt annars eðlis og gerðar undir allt öðrum kringumstæðum en gengisbreytingin núna. Ég vil minna á það, að gengisbreytingin 1960 var fyrst og fremst kerfisbreyting. Þá var verið að breyta uppbótakerfinu, sem verið hafði í 15 ár og var gersamlega gengið sér til húðar og farið að valda stórtjóni. Það var verið að afnema það og taka upp rétta gengisskráningu í staðinn. Þetta var kjarni gengisbreytingarinnar 1960. Nú er ekki um neina kerfisbreytingu að ræða. Gengisbreytingin 1961, sem var lítil, var afleiðing mjög verulegrar skyndilegrar verðlækkunar erlendis og kostnaðarhækkunar innanlands. Um gengisbreytingarnar 1967–1968 er það að segja, sem raunar öllum ætti að vera kunnugt, að sumpart áttu þær rót sína að rekja til gengislækkunar pundsins, sem auðvitað var óhjákvæmilegt að taka tillit til, og sumpart til þess, að útflutningsverðmæti lækkaði á 2 árum um hvorki meira né minna en 45% í kjölfar þess, að síldarafli brást gersamlega og verðlag lækkaði mjög verulega á erlendum mörkuðum. Allar gengisbreytingar undanfarinn áratug voru annað tveggja kerfisbreyting eða afleiðing af utanaðkomandi orsökum, erfiðleikum, sem áttu sér upptök í öðrum löndum.

Þessi gengisbreyting er ekki kerfisbreyting, og orsakir hennar eru ekki utanaðkomandi erfiðleikar. Það er mikið góðæri í landinu, þó að þjóðartekjur í ár mundu ekki vaxa eins stórkostlega og þær jukust í fyrra. En öllum er ljóst, að það er góðæri í landinu. Það hefur aldrei komið fyrir áður í íslenzkri hagsögu, að gengi hafi verið lækkað, þegar um góðæri og vaxandi þjóðartekjur er að ræða, nema þá að verið sé að framkvæma kerfisbreytingu, sem ekki á sér stað nú. Orsakir þessarar gengisbreytingar eru m.ö.o. heimatilbúnar. Hún á rót sína að rekja til óstj. og einskis annars en óstj. af hálfu ríkisstj.

Nú spyrja menn eflaust, hvað ég telji, hvað minn flokkur telji skynsamlegt að gera í þeim vanda, sem við er að etja og við gerum okkur fullljósan. Ég tel, að undir núverandi kringumstæðum og með hliðsjón af ástandi efnahagsmálanna og horfum í efnahagsmálum, sem að sumu leyti eru mjög góðar, hefði átt að grípa til ráðstafana, sem hefðu verið áþekkar eða svipaðar þeim, sem ríkisstj. Emils Jónssonar greip til sumarið 1959. Þær tókust vel og náðu tilskildum árangri. Meginkosturinn við slíkar ráðstafanir er einmitt sá, að með því væri vöxtur verðbólgunnar heftur. En verðbólgan er auðvitað meginvandinn. Sú stjórnlausa verðbólga, sem hér hefur haldið áfram undir þessari ríkisstj., er auðvitað meginvandinn, sem við er að etja og þessi ríkisstj. hefur síður en svo ráðið við, eins og glöggt sést á afgreiðslu hennar á fjárlögum, eins og glöggt sést á þróun verðlagsmálanna og nú síðast, en ekki sízt í þeirri gengislækkun, sem búið er að taka ákvörðun um.

Það er því mjög athyglisvert í sambandi við þessar ráðstafanir, að hér er í raun og veru ekki um stefnu flokks forsrh. eða flokks viðskrh. að ræða, heldur er hér um að ræða stefnu flokks hæstv. félmrh., það er að segja SF. Auðvitað er það ekki aðeins athyglisvert, heldur beinlínis sögulegt, að ríkisstj. skuli nú grípa til ráðstafana, sem vitað er, að stærstu flokkar ríkisstj. eru í raun og veru andvígir, en láta minnsta flokkinn í ríkisstj. kúska sig til þess að samþ. og framkvæma. Það er komið í ljós, eins og ég hef raunar oft haldið fram á undanförnum áratug, að í hjarta sínu er Framsfl. uppbótaflokkur. Hann er ekki flokkur, sem hefur trú á því, að það sé gott hagstjórnartæki að skrá gengi krónunnar rétt. Framsóknarmenn hafa stundum borið á móti þessu, þegar ég hef borið þeim það á brýn hér í ýmsum umr. á undanförnum áratug, að það, sem þeir í raun og veru vildu, það væru þeirra ær og kýr, að hafa uppbótakerfi, innheimta skatta úr hinum og þessum áttum og dreifa svo út peningum í allar mögulegar áttir, eftir því sem þeim hentaði. Þeir hafa viljað bera á móti því, að þeir væru uppbóta- og haftaflokkur, en slíkt kerfi verður ekki framkvæmt til lengdar nema með því að beita höftum jafnframt. Nú kom það í ljós í umr. í hæstv. ríkisstj., að þeir vildu í raun og veru fara uppbótaleiðina, sem innan skamms hefði leitt til haftabúskapar á Íslandi. Hitt hefur líka verið vitað, að Alþb, hefur verið fylgjandi höftum, enda beittu Alþb.-menn sér mjög eindregið fyrir þeim á sínum tíma, þegar þeir voru síðast aðilar að ríkisstj., á árunum 1956–1958. Það kom í ljós, að þeir voru fylgjandi haftakerfi, uppbótakerfi, þó að þeir vildu afla fjárins svolítið öðruvísi en Framsfl. Framsfl. vildi fyrst og fremst afla þess með gífurlega hækkuðum söluskatti, en Alþb. vildi afla fjárins með minni hækkun á söluskatti, og sérstöku innflutningsgjaldi. M.ö.o. það, sem þá greindi á um, Framsfl. og Alþb., var ekki, að komið skyldi upp uppbótakerfi og þar með haftakerfi, heldur hvernig fjárins til uppbótakerfisins skyldi aflað.

En svo gerðist það, að upp risu miklir spámenn, hæstv. félmrh. og starfsbróðir hans í ríkisstj., ásamt forseta Alþýðusambandsins, og sögðu: Þessi ráð eru varhugaverð. Slíkar ráðstafanir á ekki að gera. Hið eina rétta er gengisbreyting. — Hvað gerðist þá? Þá kom í ljós, að hinir drógu sínar till. til baka. Þeim reyndist þykja svo vænt um ráðherrastólana, að þeir vildu heldur halda þeim, þótt þeir misstu andlitið, en að gera það, sem þeir voru sjálfir búnir að lýsa yfir, að væri hið eina rétta. Sannleikurinn er sá, að ég man ekki eftir, að nokkuð þessu líkt hafi gerzt áður þá áratugi, sem ég hef fylgzt með í íslenzkum stjórnmálum. Sérstaklega hlýtur það að teljast ömurlegt hlutskipti fyrir hæstv. forsrh. og formann stærsta stjórnarflokksins að vera búinn að kunngera ákveðna stefnu í efnahagsmálum og framkvæma svo allt aðra stefnu. Ég er hræddur um, að einhverjir aðrir þurfi að skipta um föt en við í stjórnarandstöðunni. Þeim verður eflaust ekki skotaskuld úr því að skipta um föt, fyrst þeir hafa skipt svona rækilega um skoðun.

Á það verður að minna, að hér er ekki skrípaleikur á ferðinni, heldur harmleikur. Það hlýtur að kallast harmleikur, að ráðh. tveggja stærri stjórnarflokkanna skuli hafa boðað ákveðna stefnu, en síðan verið kúgaðir til þess af minnsta flokknum að gera allt annað. Er enn því óséð, hvernig þeir með góðu móti geta varið þetta fyrir sjálfum sér og fyrir þjóðinni. Vörnin til þessa hefur ekki verið sérlega burðug, þó að langar ræður hafi verið fluttar.

Nei, sannleikurinn er sá, að Framsfl. og Alþb. eru uppbóta- og haftaflokkar, en hafa verið neyddir inn á þá braut, sem þeir nú ganga. Það er því engan veginn óeðlilegt, að í kjölfar alls þessa sé hafin mikil upplausn í stjórnarliðinu. Það er engan veginn undarlegt. Deilurnar innan stjórnarflokkanna, sem háðar hafa verið um þessar ráðstafanir, hafa verið svo hatrammar, að það er útilokað, að um heilsteypt stjórnarsamstarf geti orðið að ræða að loknum þessum deilum. Það hefur ekki nokkur maður trú á því, að menn og flokkar, sem reynslan hefur sýnt núna að hafa jafngerólíkar skoðanir á efnahagsmálum og raun ber vitni, geti haldið áfram að vinna saman af heilindum nema í mjög stuttan tíma.

Síðasta dæmið um þá upplausn, sem þegar er hafin, er sú mikilvæga tilkynning eins af þm. SF hér áðan, hv. 3. landsk. þm., Bjarna Guðnasonar, að hann segi sig úr þingflokki SF. Ég man ekki eftir því, að það hafi gerzt áður, að þm. segi sig úr þingflokki, en sé þó áfram í flokknum, sem um er að ræða, og haldi áfram að styðja ríkisstj., sem hann telur vera að gera rangt. (Gripið fram í.) Já, en bara að það verði betri föt, sem Bjarni Guðnason fer í, en þau, sem hann er í. Það er það, sem ég er ekki algerlega viss um, því miður. En annars óska ég honum alls góðs í þessu sambandi, og hann þarf ábyggilega á góðum óskum að halda. En þetta er aðeins eitt dæmi um þá upplausn, sem þegar er hafin og mun áreiðanlega halda áfram.

Sannleikurinn er sá, að sú deila, sem hefur átt sér stað undanfarinn hálfan mánuð um þessar efnahagsráðstafanir, er upphaf að endalokum þessarar ríkisstj. Enginn glöggskyggn maður getur nú efazt um það, að dagar hennar eru í raun og veru taldir. Það er aðeins spurning um það, hvenær hún gefur upp andann. Henni tekst eflaust að framlengja líf sitt um nokkra mánuði, kannske fram á mitt sumar, en miklu lengra getur það varla orðið. Dauðastríð ríkisstj. er hafið. Það er áreiðanlega rétt, sem Steinn Steinarr sagði á sínum tíma: Það vinnur ekki neinn sitt dauðastríð.