18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það hafa nú lokið máli sínu þrír hæstv. ráðh. og fulltrúar allra stjórnarflokkana, og nú síðast var að ljúka máli sínu einn flokkur, sem styður alla stjórnarflokkana og allt, sem þeim viðkemur, nema þingflokk SF. Hann hefur sagt sig úr sálufélagi við þá, svo að það hafa hækkað aksíurnar í dag í þm. SF um 25% í hverjum, þannig að þeir eru nú um 25% hver, Hannibal, Karvel, Björn og Magnús Torfi, en voru 20% fyrir þingfund í dag. (Gripið fram í.) Já, þar var gengishækkun, en ekki gengislækkun hjá þeim.

Það kemur undarlega fyrir sjónir að heyra þessa hæstv. ráðh. og þingflokkinn, sem var að tala hér áðan, tala eins og þeir gerðu. Við vitum, að hæstv. ráðh. hafa hver um annan þveran lýst því yfir fyrir síðustu kosningar og flestir þm. þessa stjórnarliðs, að gengisbreytingar væru úrelt úrræði, sem kæmu ekki til greina. Þeir hafa lýst því á þann veg, að það væri nokkurs konar glæpur að framkvæma gengislækkun, það væri árás á launþega í landinu, það væri verðbólguaukandi að fara gengislækkunarleiðina, og það kemur fram í málefnasamningi ríkisstj., sem hæstv. forsrh. bað okkur þm. að lesa kvölds og morgna, að ríkisstj. ætlaði ekki að beita gengislækkunarleiðinni. En hæstv. forsrh. er að reyna að snúa sig út úr því núna með því að segja, að þessi ákvörðun hafi aðeins átt við þá, og vitnar þá í ástandið í efnahagsmálunum eins og það var, þegar ríkisstj. tók við í júli 1971. En þá var bara enginn efnahagsvandi fyrir og þurfti því engan efnahagsvanda að leysa, eins og ég skal koma síðar að. Og hvað sagði svo hæstv. forsrh. fyrir hönd allra þessara ráðh. sinna í umr. hér á hv. Alþ. 18. okt. í fyrrahaust, þegar hann flutti sína stefnuræðu eða stefnuræðu ríkisstj.? Þá segir hann orðrétt:

„Ég hygg, að ein mikilvægasta grundvallarstefnubreytingin sé sú, að núv. ríkisstj. er og vill vera ríkisstj. hins vinnandi fólks í landinu, launþega og framleiðenda til sjávar og sveita. Hún vill stjórna í þeirra þágu og hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og framleiðenda. Fyrrv. ríkisstj. beitti hins vegar ríkisvaldinu hvað eftir annað gegn verkalýðshreyfingu og launafólki, bæði með setningu brbl. og gerðardómum í kjaradeilum, en einnig með því að beita gengislækkun æ ofan í æ og rýrði þannig kjör launþega, eftir að þeir höfðu háð árangursríka kjarabaráttu.“

Þarna er almennt fordæmd gengislækkun sem leið til úrbóta af hæstv. forsrh. Þegar fyrsti vandinn kemur upp, vildi hann sjálfur ekki fara þessa leið, heldur lætur hann hæstv. félmrh., gamla manninn úr Selárdal, segja sér fyrir verkum, hvaða leið eigi að fara. En ég hef haldið af löngum kynnum mínum af hæstv. félmrh., að honum væri margt annað betur gefið en að fjalla um efnahagsmál. En þegar hann er nú orðinn aðalefnahagsráðunautur þessarar ríkisstj., þá gef ég ekki mikið fyrir hana í framtíðinni. Þá held ég, að orð hv. 7. þm. Reykv. séu að koma fram, að hún sé þegar að byrja sitt dauðastríð.

Ég vil sérstaklega bjóða velkominn til þingstarfa á ný hæstv. viðskrh. og sjútvrh. En hann er eini ráðh. í ríkisstj., sem hefur forsmáð Alþ. ár eftir ár, hefur skrópað, en verið í bænum, og ekki fengizt til þess að taka þátt í þingstörfum og ekki mælt fyrir sínum málum. En nú gerist hann heldur betur vígreifur. Hann kemur hér upp í pontuna og flytur mikla ræðu, ádeiluræðu á stjórnarandstöðuna, og nú er loksins hægt að ná í skottið á honum til þess að tala aðeins við hann, og fagna ég því.

Eitt ætla ég að segja honum, áður en ég held lengra. Þar sem svo oft er, a.m.k. á síðustu tímum, talað um persónulegar skoðanir manna, skal ég segja honum, að ég var ákaflega kvíðinn fyrir því, að þessi stjórn geispaði golunni núna fyrir nokkrum dögum, svo að ég fagna því innilega, að Ólafía, sem hefur liðið illa núna undanfarinn hálfan mánuð, með slæman hita þrátt fyrir fúkkalyf til þess að halda honum niðri, er nú loks að hressast. Ég verð að segja, að það gladdi mig mikið, ekki vegna þess að ég byggist við miklum og jákvæðum eða skynsamlegum aðgerðum þessarar stjórnar, heldur taldi ég nauðsynlegt gagnvart þjóðinni, að ráðh. og þessir flokkar, sem að henni standa, fái að sýna sitt rétta andlit, fái að éta ofan í sig fyrri fullyrðingar, fái að éta ofan í sig, að gengisbreytingar séu aldrei nema til ills, eins og hæstv. viðskrh. hefur haldið fram s.l. 12 ár og þá ekki síður hæstv. forsrh. Svo koma þessir herrar og fara að tala um það, að gengisbreytingar hafi átt sér stað áður, 4 gengisbreytingar á tímabili viðreisnarstjórnarinnar. Hvað hafði skeð á undan? Voru ekki Lúðvík Jósepsson og Hannibal Valdimarsson í ríkisstj. á undan, sem tók upp gengisbreytingu, en þorði ekki að kalla hana gengislækkun? Þeir kölluðu það yfirfærslugjald, 55% yfirfærslugjald. Það var auðvitað ekkert annað en gengislækkun. Það var afleiðing þeirra starfa, að gengisbreytingu varð að gera á árinu 1960. Þeir hafa lítið talað um, af hverju gengisbreyting var gerð á árunum 1967 og 1968. Ég hef ekki heyrt einn einasta þeirra þriggja minnast á fall sterlingspundsins eða að framleiðsluútflutningsverðmæti þjóðarinnar hrundu á þessum tveimur árum og þau voru 1/3 minni að krónutölu árið 1968 en þau voru 1966. Það hefur enginn þeirra minnzt á það. En svo koma þessir herrar hér fram fyrir Alþ. og einn þeirra, nýi efnahagssérfræðingurinn, félmrh., segir: Þessi gengisbreyting er of lítil. — Svo kemur annar, sem einu sinni var efnahagssérfræðingur, hann var sérfræðingur í skattamálum í fyrra, viðskrh. Hann segir: Þetta er ekki nokkur vandi. — En þá spyr ég: Til hvers er hann þá að breyta gengi krónunnar, ef þetta er enginn vandi, ef þetta er svona lítið? Þá tel ég það ástæðulaust. Ég hef verið þeirrar skoðunar, og það eina, sem ég get tekið undir í sambandi við ræðu nýja þingflokksins, er, að gengisbreytingu á ekki að beita, nema í neyð sé, en ekki að gamni sínu. Og henni hefur aldrei verið beitt fyrr, nema nauður hafi til þess rekið.

Hæstv. viðskrh. var að venju með margar fullyrðingar. Það má nú segja, að í fyrra, þegar hann flutti ræðuna um skattamálin, rétt eftir að frv. voru lögð hér fram, þá fullyrti hann og var ekki lengi að reikna, að með skattalagafrv. yrði stórfelld lækkun skatta á Íslandi á árinu 1972. Þeir voru aftur hinir að burðast með að láta tölvuna í háskólanum reikna fyrir sig, bæði hæstv. fjmrh. og formaður þingsflokks Alþb. En þessi hæstv. ráðh. þurfti ekki á tölvu að halda. Hann á sína eigin tölvu, og hann reiknaði út, að skattarnir mundu lækka, ef þessi frv. yrði að lögum. Nú höfum við fyrir okkur, hvernig þetta varð í reynd, og þá kemur í ljós, að álagðir skattar hækkuðu, en lækkuðu ekki, úr 1525 millj. kr. á árinu 1971 í 4429 millj. kr. á árinu 1972. Það sést á þessu, hve mikið er að marka þessa ágætu tölvu, sem er innbyggð í höfði hæstv. viðskrh. Svo kemur þessi hæstv. ráðh. og segir: Við hverju tókum við, þegar við tókum við? Þeir eru að segja, stjórnarandstæðingar, Sjálfstfl.-menn og Alþfl.-menn, að við höfum tekið við blómlegu búi. Við hverju tókum við? Hvað þurftum við að gera, þegar við tókum við? — En honum varð ekki úr vegi að segja frá því. Fjárlög ársins 1971, sem voru síðustu fjárl., sem fyrrv. ríkisstj. afgreiddi, voru upp á 11 milljarða 23 millj., en tekjur umfram fjárlög 1971 fóru fram úr áætlun upp á hvorki meira né minna en 1723 millj. kr. Þá skulum við líka koma að því, sem hæstv. ráðh. talaði um. Hann sagði: Við þurftum að mæta launahækkununum, sem skullu yfir, rétt eftir að fjárl. voru afgreidd, en þær námu 577 millj. kr. Til þess að mæta þessum launahækkunum skildi fyrrv. ríkisstj. eftir 270 millj. kr. af greiðsluafgangi við afgreiðslu fjárl., og þá voru eftir 307 millj. kr., sem einhver hefði talið auðvelt að borga af 1723 millj. kr. tekjum umfram fjárlög, þó að við bættust framlög til Tryggingastofnunarinnar vegna útborgunar ellilífeyris og örorkubóta, sem fyrrv. ríkisstj. setti lög um, en reiknaði ekki með fyrir kosningar, að tækju gildi fyrr en um áramótin þar á eftir. Núv. ríkisstj. lét þessi lög koma til framkvæmda 4 mánuðum fyrr, og til þess notaði hún það fé, sem hún hafði umfram vegna þess, hve fjárlagafrv. fyrrv. ríkisstj. var varlega áætlað hvað tekjuhlið snertir. Það var því efnt til veizlu, strax eftir að ríkisstj. tók við völdum 14. júlí 1971. Það var ausið á báða bóga, eins og áður hefur verið lýst hér og það margoft. En hæstv. viðskmrh. hefur ekki mátt vera að því að hlusta, hvorki á þetta né annað. Það hefur verið bent á leiðir til þess að draga úr útgjöldum ríkisins, t.d. við umr. um síðustu fjárlög.

Þessir hæstv. ráðh. hafa fordæmt gengisbreytingar hvað eftir annað og aðdáendur þeirra. Það stóð ekki á þeim við gengisbreytinguna 1968 að vera hér með spjöld fyrir utan á götunni. Og ég man alltaf eftir áletruninni á einu spjaldinu: Hengjum ákveðna menn. — Það voru aðdáendur þessara tveggja hæstv. ráðh., sem sögðu það. Ég hef ekki orðið var við þennan hóp núna með spjöldin vegna gengisbreytingarinnar. Þó vil ég biðja hæstv. utanrrh. að passa sig, því að 1968 flaug steinn hérna inn um gluggann. En það er kannske ekki sama, hverjir beita gengislækkun. Það er kannske ekki sama, fyrir hvaða hóp eða fyrir hvaða menn þessi hópur er að vinna í þjóðfélaginu. En þetta er fólk, sem má vera að dáendur þessara manna eftir sem áður fyrir mér. Ég öfunda þá ekkert af því að eiga þetta lið að vinum.

Hæstv. viðskrh. og sjútvrh. fór nokkrum orðum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Ég verð að segja, að það var sagt, þegar ég var að alast upp, að ef einhver sagði ósatt, þá sagði gamla fólkið, að nú væri svartur blettur á tungunni á viðkomandi. Ég held, að eftir þessa ræðu hæstv. viðskrh. og sjútvrh. hafi ekki verið svartur blettur á tungunni á honum, heldur tel ég alveg örugglega, að öll tungan hafi verið orðin svört. Ég furða mig á því, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að fara þeim orðum um þær aðgerðir, sem voru gerðar gagnvart sjávarútvegi á s.l. hausti, að þær hafi verið gerðar fyrir tilstuðlan samtaka útvegsins. Hæstv. ráðh. veit vel, að það alvarlega ástand, sem var ríkjandi í sjávarútvegi á s.l. hausti, var dýrtíðarstefnu ríkisstj. að kenna, og þegar ríkisstj. hefur viðhaft jafnmikið gáleysi og hún hefur gert, frá því að hún tók við völdum, þá á ekki að leggja það á útflutningsatvinnuvegina að standa undir því. Ríkisstj. átti að bæta fyrir sínar syndir, og láta Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í friði. Hann var ekki stofnaður til þess að standa undir dýrtíðarhítinni hér innanlands heldur til þess að standa undir, ef áföll verða á erlendum mörkuðum í verði útflutningsafurða okkar, þannig að það þyrfti ekki að grípa til gengislækkunar. En hæstv. sjútvrh. stillti samtökum útvegsins upp við vegg og sagði: Það verður ekkert gert annað en greiða úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til áramóta. — Hvað segir í bréfi Landssambands Ísl. útvegsmanna, sem lagt var fyrir hv. sjútvn. þessarar d.? Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir verðlagsráði sjávarútvegsins lá mat á afkomu bátaflotans á þessu ári, sem unnið hefur verið af hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Niðurstöður þess bentu til, að halli á rekstri bátaflotans mundi verða um 330 millj. kr. á þessu ári og halli á rekstri togaranna um 110 millj., eftir að tekið hafði verið tillit til beinna og óbeinna styrkja til togaranna. Líkur benda til, að halli á rekstri bátaflotans muni verða mun meiri en áætlað var, því að fyrri niðurstaða grundvallaðist á reikningnum frá árinu 1970, sem voru framreiknaðir til ársins 1972 með kostnaðar- og tekjubreytingum. Nú er verið að endurskoða þetta afkomumat fyrir bátaflotann og fá grundvallarreikninga frá árinu 1971. Virðast kostnaðarhækkanir hafa orðið mun meiri en reiknað var með, og nema þær hækkanir t.d. á viðhaldslið bátaflotans um 150 millj. kr.

Í ljósi þessara staðreynda var augljóst, að fiskverð varð að hækka frá 1. okt., ef ekki átti að koma til algerrar rekstrarstöðvunar. Fulltrúar L.Í.Ú. í verðlagsráði sjávarútvegsins áttu viðræður við sjútvrh. 22. sept. að hans beiðni um þau vandamál, sem við blöstu við ákvörðun fiskverðs. Hann lýsti þar þeirri skoðun ríkisstj., að fiskverð þyrfti að hækka, án þess þó að tilgreina hvað mikið. Hins vegar taldi hann, að fiskkaupendur gætu ekki staðið undir þeirri hækkun vegna erfiðrar rekstraraðstöðu og þyrftu jafnvel á aðstoð að halda, þar sem ekki voru fyrirhugaðar neinar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. fyrir n.k. áramót til lausnar á þessu máli. Taldi hann, að það fjármagn, sem til þyrfti að koma til að gera fiskverðshækkun mögulega, yrði að taka úr verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Fulltrúar L.Í.Ú. mótmæltu þessu og bentu á, að ekki væri ástæða til að taka fé úr verðjöfnunarsjóði, því að ekki væri um neitt verðfall að ræða á fiskafurðum. Þetta er sannleikur málsins, en ekki það, sem hæstv. ráðh. fór með hér áðan. Þetta er sannleikur málsins. Þegar við lítum á það, hver þessi upphæð var á s.l. hausti, þá var gengið út frá, að meðalfiskverðshækkunin væri 15%. Ársaflinn upp úr sjó er um 4000 millj. kr. að verðmæti, en 15% um 600 millj. á ársgrundvelli. Auk þess var fyrirgreiðsla til frystihúsanna, svo að af þessu má því sjá, að vandinn var ekki lítill. Þegar við lítum á þær ófullkomnu upplýsingar, sem þegar liggja fyrir frá hæstv. ríkisstj. í sambandi við gengisbreytinguna, sjáum við auðvitað fram á gífurlega hækkun á útgjaldaliðum útgerðarinnar á árinu 1973.

Þegar ég kom á þennan fund í dag, var ég alveg sannfærður um, að það væri nauðsynlegt að gera þessa gengisbreytingu, og var ég sannfærður um, að það hefði þurft að ganga eins langt og efnahagssérfræðingur ríkisstj., sá nýi, hæstv. félmrh., hefur lagt til. En eftir að hafa hlustað á hæstv. sjútvrh. og viðskrh., — ef ég ætti að trúa því, sem hann sagði, — þá sé ég ekki nokkra ástæðu til að breyta gengi krónunnar, því að vandinn er svo lítill, sagði hann. Þegar um svo lítinn vanda að ræða, þá er engin ástæða til þess að hlaupa í gengisbreytingu. Ég held, að menn verði að líta á staðreyndir í réttu ljósi, og þá verður að fara fram á það, að þeir sem sitja í ráðherrastólum, verði a.m.k. að gera það til jafns við aðra, en ekki síður. Það þýðir ekki að horfa á hlutina frá því sjónarmiði, sem hæstv. ráðh. gerði í ræðu sinni hér áðan.

Hæstv. ráðh. sagði, að það ætti að lækka útgjöld fjárl. um 10–15%. Það skiptir tölverðu máli hvort það eru 10 eða 15%, finnst mér, eða um 500 millj. kr. Nú er allt á huldu, á hvern hátt hæstv. ríkisstj. hugsar sér að lækka útgjöldin. Á að taka verklegar framkvæmdir, eins og þær eru nú í fjárlagafrv. eftir 2. umr., og skera þær enn niður um 10–15%. Það er fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvað ríkisstj. hefur hugsað sér í því efni. Þá minni ég á það, sem þessir hæstv. ráðh. hafa sagt á undanförnum árum, að fyrrv. ríkisstj. hafi aldrei veitt nógu mikið fé eða nógu háar fjárhæðir til verklegra framkvæmda. Og einn af talsmönnum ríkisstj. nú viðhafði oft þau ummæli, að framlög til verklegra framkvæmda yrðu að fylgja byggingarvísitölunni á hverjum tíma, og meira en það, einnig hlutfallslegri hækkun fjárlaga. Nú þykir mér vera farið að rifa í seglin. Byggingarvísitalan hefur hækkað á valdatímabili þessarar ríkisstj. úr 535 vísitölustigum í 689 vísitölustig, eða um 28.79% hækkun byggingarkostnaðar. Framlög til verklegra framkvæmda hækkuðu verulega á síðasta ári, sem viðreisnarstjórnin var við völd. Langstærsti liðurinn er framlag til skólabygginga skyldunámsins, sem hækkaði um 39%. Á fyrsta ári þessarar ríkisstj., í fjárlögum ársins 1972, hækkaði þessi liður um 37%, og það voru stórfelldar fyrirsagnir í stjórnarblöðum, málgagni sjútvrh. og málgagni forsrh., um stóraukin framlög til verklegra framkvæmda. En á þessu ári gaf ríkisstj. út brbl. um tímabundnar aðgerðir í efnahagsmálum, þar sem enn var heimilað að skera niður verklegar framkvæmdir og fleiri liði í fjárlögum um allt að 400 millj. Loksins við 2. umr. fjárl. lá fyrir, að skornar höfðu verið niður verklegar framkvæmdir um nálega 175 millj. kr., sem sýndar voru við 2. umr. fjárlaga. Í till. kemur fram endurveiting á þessu fé, næsta ár, sem skorið er niður á þessu ári. Þegar tillit er tekið til þess, hækkar stærsti framkvæmdaliðurinn, skólabyggingar, um 7.5%. Breytingin er þá á þessum árum: síðasta ár viðreisnarstjórnarinnar 39%, fyrsta ár þessrar ríkisstj. 37%,annað ár þessarar ríkisstj. við 2. umr. fjárlaga, þ.e. 2. útgáfu, um 7.5%. Og nú segir hæstv. viðskmrh., og við skulum ætla, að hann hafi sagt þetta satt, að þeir ætli enn að lækka framlög til verklegra framkvæmda um 10–15%. Þá fara menn nú að spyrja: Hvar eru nú öll loforðin, sem mest var gumað af, á meðan þessir herrar voru í stjórnarandstöðu? Það er heldur betur farið að breyta um stefnu.

Mér þykir leitt, að það skuli enginn vera inni fyrir nýja þingflokkinn, því að mig langaði til að tala til hans nokkur orð. Ég vona, af því að hann er svo góður stuðningsmaður ríkisstj., nema þingflokks samtakanna, að stjórnarsinnar komi orðum mínum til hans eða haldi uppi vörnum fyrir hann. Ég furða mig á því, að þm. skuli leyfa sér að tala eins og hann gerði um íslenzkan sjávarútveg. Þvílíkur hugsunarháttur og umtal um undirstöðuatvinnuveg landsmanna. Ég hef ekki heyrt þetta lengi og bjóst ekki við, að það mundi heyrast frá nokkrum þm. Hann talar um, að verið sé að moka milljónum í sjávarútveginn, undirstöðuatvinnuveg landsm., sem hefur staðið undir öðrum framkvæmdum og allri uppbyggingu í þessu þjóðfélagi. Hann leyfir sér, þessi hv. þm., að láta að því liggja, að undirstöðuatvinnuvegur landsmanna sé styrkþegi eða eitthvað sníkjudýr á þjóðfélaginu. Ég held, að þm. samtakanna megi bara vera fegnir að vera lausir við þennan grip. Heldur hann kannske, að heimspekideild háskólans standi undir þessu öllu? Ég furða mig á því, að jafnklókur maður og hæstv. viðskmrh. er, skyldi gefa yfirlýsingu áðan, bara til þess að hafa þennan karl góðan, þess efnis að hann ætli að sameina banka í landinu, en hann svaraði þessum þm. fyrir nokkrum dögum með hortugheitum einum saman. Nú er ráðh. bognaður fyrir Bjarna Guðnasyni og segir: Ég ætla að sameina banka í landinu. — Ég spyr hæstv. viðskrh.: Ætlar hann að láta n., sem er að endurskoða bankakerfið, leggja það til? Hann sagði um daginn, þegar hann svaraði Bjarna Guðnasyni, að hann hefði skipað þessa n. og valið menn í hana, af því að þetta hefðu verið beztu mennirnir, sem voru með mesta þekkingu á bankamálum. Eða ætlar hann kannske að skipa nýja n. með Bjarna Guðnason í forsæti til þess að sameina banka í landinu? Mér finnst vera keypt nokkuð dýru verði atkvæði þessa hv. þm. eftir þessa lélegu frammistöðu, sem hann hefur sýnt hér í dag, ef hæstv, viðskrh, ætlar að steypa saman í eitt nokkrum bönkum í landinu og gleypa allt ofan í sig, sem hann sagði fyrir nokkrum dögum.

Hæstv. viðskrh. fór mjög á kostum í sinni ræðu, eins og ég hef þegar lítillega getið um, en gæti haldið lengi áfram, ef ég ætti að elta ólar við allt, sem hann sagði. Þegar hann talaði um viðskiptajöfnuðinn, sagði hann, að innflutningur skipa flugvéla hefði verið 2 500 millj. kr. á þessu ári. En í bókinni frá fjmrh., sem við eigum hérna, segir: Áætlað er, á árinu 1972, þessu ári, að innflutningur skipa og flugvéla nemi á árinu 1973 2 500 millj. ltr., sem er með mesta móti, og aukning frá fyrra ári nemur 66%. Til þess að festa í minni hæstv. ráðh. skal ég benda honum á, að þetta er á bls. 9 í áliti valkostanefndarinnar svokölluðu. En það eru sem sagt kringum 1500 millj. á þessu ári, en ekki 2 500 millj. En hvað munar þennan hæstv. ráðh. um þús. milljónir? Ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég spurði hæstv. félmrh. að því, hver hefði lagt fram till. í ríkisstj. um gengisbreytinguna. Og hann svaraði: Það gerði ég, og hann bætti því við, að hann gæti vel endurtekið þetta, ef einhverjir fleiri hefðu blundað. Þar með átti hann við, að ég hefði sofnað og spurt þess vegna, hver hefði lagt till. fram. En ég held, að það mætti vera ákaflega syfjaður maður, sem sofnaði undir ræðu hæstv. félmrh., sem talaði jafnítarlega um efnahagsmál, og sérstaklega þeir, sem hafa einhvern áhuga á efnahagsmálum, sofna ekki undir jafnfróðlegri ræðu og hann flutti hér áðan f.h. ríkisstj. En mig langaði til að heyra það einu sinni enn, að þessi hæstv. ráðh. hefði verið upphafsmaður að gengislækkun, því að ég er búinn að heyra svo oft í honum vestur á fjörðum og eins hér suður í Reykjavík, bæði á Alþ. og annars staðar, þar sem hann hefur fordæmt gengisbreytingu og talið þá menn, sem hana gerðu óalandi og óferjandi. En hann verður eftir sem áður alandi og ferjandi.

Ég lofaði hæstv. forseta því að stytta mál mitt og skal verða við því. Það er auðvitað eftir að ræða miklu ýtarlegar um efnahagsmálin síðar, þó að við höfum reiknað með því, sjálfstæðismenn, að þetta frv. færi umræðulítið til nefndar og til afgreiðslu. En þegar við sjáum, að ríkisstj. raðar sér á mælendaskrá, þá sé ég ekki ástæðu til, að við stjórnarandstæðingar þegjum þunnu hljóði. Eitt er víst, að ríkisstj. hefur nú étið ofan í sig allar fyrri fullyrðingar sínar í þessum efnum. Það er ekkert vandamál fram undan — eða hefði ekkert vandamál verið fram undan, ef það hefði verið gætt hófsemi í meðferð fjármála. En hún hefur sjálf unnið að því, að svo er komið. Þess vegna neyðist hún til að leggja fram þessi úrræði í efnahagsmálunum. Okkur gefst kostur á því að ræða þetta frv. ítarlegar, þegar það kemur frá nefnd.