18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði vænzt þess, að þeir hæstv. ráðh., sem hér hafa í dag verið í fyrirsvari fyrir því frv., sem fyrir liggur, mundu mæta á kvöldfundi. Ég sé, að aðeins einn ráðh., hæstv. forsrh., er mættur, og nú gengur einnig hæstv. viðskrh. í salinn.

Eins og þeir, sem hafa hlustað á umr. í dag, hafa veitt athygli, eru margs konar skýringar frá einstökum ráðh. á ástæðunum fyrir því, að nú er farið í gengisbreytingu. Hæstv. félmrh. skýrði frá því hér í dag, að fyrir ríkisstj.- fundi hefðu legið þrjár mismunandi till., það hefði verið það, sem þeir hefðu haft úr að moða, og árangurinn af umr. um þær þrjár till., sem fyrir lágu, hefði orðið sú ákvörðun, sem ríkisstj tók, að lækka gengi ísl. krónunnar um 10.7%.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, hlaut það að vekja athygli, að ráðh. hefðu hver fyrir sig, allir, sem töluðu, sinn hverja skýringu á því, hvers vegna þessi ákvörðun var tekin.

Hæstv. forsrh. sagði, að gengisbreyting væri ekki réttlætanleg, nema neyðarástand ríkti í þjóðfélaginu, og verður að telja, að það sé hans mat í dag, að slíkt ástand ríki nú í efnahagsmálum þjóðarinnar. (Forsrh.: Ég sagði, að gengisfelling væri alltaf neyðarúrræði) Hæstv. forsrh. segir, að gengisfelling sé alltaf neyðarúrræði, og ég sé ekki nokkurn mun á þessu tvennu, og það hlýtur að leiða af orðum hæstv. ráðh., að neyðarástand sé í efnahagsmálunum. Þetta var hans skýring á málunum, og hef ég ekki neitt sérstakt um það að segja. Þetta er mat hæstv. forsrh., að gengisfelling sé neyðarúrræði, sem ég legg þannig út, að neyðarástand sé í þessum málum, fyrst til neyðarúrræða þarf að grípa.

Hæstv. félmrh. taldi, að gengisfelling væri alveg jafnréttlætanleg, þó að góðæri væri, eins og hann orðaði það, og vildi halda því fram, að mér skildist, að almennt væri talið, að góðæri væri nú ríkjandi hjá okkur, þó að þannig aðstaða væri, að hann hefði fallizt á, að ríkisstj. tæki ákvörðun um gengisfellingu.

En skýring hæstv. viðskrh. og sjútvrh. var hin gamalkunna kenning hans og rök hans fyrir gengisbreytinguna, að aflabrestur hefði orðið hér mikill og það væri aðalástæðan fyrir þeim erfiðleikum, sem sjávarútvegurinn ætti við að stríða, þó að hann tilgreindi þar réttilega fleiri atriði. En það, sem almennt hlýtur að vekja athygli, er það, sem hér hefur komið fram, að þrátt fyrir það, að ríkisstj. hefur mjög viljað halda því fram, að henni hafi vel tekizt til með stjórn landsins, þá skuli nú þurfa að fella gengið, þegar það liggur alveg ljóst fyrir, að verð útflutningsvara okkar í sambandi við sjávarútveginn hefur aldrei verið hagstæðara en einmitt nú. Það er það, sem hlýtur að vekja athygli meðal alls almennings, að á slíkum tíma þurfi að grípa til gengisbreytingar. Ég hygg, að þetta hljóti að teljast mjög óvenjulegt og sennilega mjög sjaldgæft fyrirbæri hjá nokkurri þjóð, að þegar hagstætt ástand er í sambandi við höfuðatvinnuvegina, þá skuli þurfa að grípa til þess úrræðis að breyta genginu, sem vissulega hefur mikla röskun með sér í öllu efnahagslífi þjóðarinnar, eins og hér hefur verið margsagt.

Hæstv. forsrh. rakti réttilega ástæðurnar fyrir gengisbreytingunum 1960, 1967 og 1968, og það hafði einnig verið gert af öðrum hv. ræðumönnum, og skal ég ekki fara frekar út í það. En það er almennt viðurkennt, að þá hafi vegna óviðráðanlegra aðstæðna skapazt það ástand, að til róttækra gengisbreytinga varð að grípa, til þess að atvinnuvegirnir gætu haldið áfram með nokkurn veginn eðlilegum hætti. Það, sem ég vildi þó aðallega koma að, er skýring hæstv. sjútvrh. á því fyrirbæri, sem hann kallar hinn mikla aflabrest, sem sé bölvaldur eiginlega alls þess, sem miður hefur farið í þjóðfélaginu að undanförnu. Menn hafa orðið þess greinilega varir, að þetta hugtak er verulega farið að grafa um sig. Hæstv. forsrh. og einnig hæstv. félmrh. komu einnig inn á þetta, og virðast þeir taka þessar fullyrðingar hæstv. sjútvrh. góðar og gildar án frekari athugunar. Þegar fundur Landssambands ísl. útvegsmanna var haldinn í fyrra mánuði, var fulltrúum þar afhent skýrsla frá Fiskifélagi Íslands um heildarafla á tímabilinu 1. jan. til 30. okt. bæði árin, 1971 og 1972, og hygg ég, að þetta sé það, sem allir verða að byggja á, að séu þær réttu tölur, sem þar koma fram, því að tölur og upplýsingar frá Fiskifélaginu eru grundvöllurinn að öllum opinberum skýrslum um þetta mál. Samkv. þessari skýrslu var heildarþorskafli, sem Fiskifélagið telur, og ég hygg, að þar sé innifalinn bæði ýsu- og ufsaafli, — þá var hann árið 1971 323 þús. tonn á þessu tímabili, en árið 1972 var hann 305 þús. tonn. Togaraaflinn var á þessu sama tímabili árið 1971 63 þús. tonn, en 56 þús. tonn árið 1972. Samanlagt gerir þetta aflamagn bátaflotans og togaraflotans árið 1971 386 þús. tonn á móti 361 þús. tonnum árið 1972. Það þýðir, að þarna er um aflaminnkun á milli ára að ræða um 25 þús. tonn eða aðeins rúmlega 6%. Ég hygg, að ef skoðaðar eru skýrslur Fiskifélags Íslands undanfarin ár og jafnvel áratugi, sé þetta með minni aflasveiflum, sem er að finna í skýrslum Fiskifélagsins. Aflasveiflur hafa oft og tíðum verið miklu stærri á milli ára, bæði upp á við og niður á við. Þannig að ég tel, að fullyrðingar hæstv. ráðh. um, að þetta sé aðalástæðan fyrir, hvernig farið hefur í efnahagsmálunum og hvernig aðstaðan er hjá útflutningsatvinnuvegunum, fái ekki staðizt. Það hlýtur að vera allt annað, sem liggur þar á bak við eða a.m.k. jafnhliða verkar á þetta mál og kannske öllu frekar en að um miklar aflasveiflur hafi verið að ræða á þessum tímabili. Og lítum til heildaraflans, sem er venjan að miða við, þegar talað er um afla einhvers tiltekins tímabils, hvort sem það er heilt ár eða hluti úr ári, þá er ávallt talað um heildaraflann, því að vissulega er annar afli en þorskur og ýsa verðmæti fyrir atvinnuvegina og þjóðarbúið. En samkv. þessari skýrslu Fiskifélagsins var heildaraflinn frá 1. jan. 1971 627 þús. tonn 495 kg. Árið 1972 er hann samkv. þessari skýrslu 695 þús. tonn 656 kg. Heildaraflinn á þessu tímabili er því 58 þús. tonnum hærri á árinu 1972 heldur en hann var á árinu 1971, þannig að það er að mínum dómi ekki hægt að réttlæta aðstöðu atvinnuveganna með því, að mikil aflarýrnun hafi orðið á milli þessara tveggja ára, á þeim tímabilum þessara tveggja ára, sem hér um ræðir. Hæstv. forsrh. gat þess hér í dag í ræðu sinni, að ástandið hefði þó batnað að þessu leyti frá því, sem það var talið 1. okt. s.l., þannig að mismunurinn minnkar og aflaminnkunin verður minni en þó skýrslur Fiskifélagsins greina frá. Mér finnst eðlilegt að láta þetta koma fram hér, því að það hefur vissulega verið reynt að blekkja bæði hv. Alþ. og þjóðina alla með því að halda því fram, að þetta væri grundvallaratriðið fyrir erfiðri aðstöðu atvinnuveganna.

Hæstv. ráðh. hefur einnig talað um, að skipting milli fisktegunda væri óhagstæð. En ég hygg, að ef hann skoðar skýrslu Fiskifélags Íslands frá fyrri árum, þá muni það sýna sig nákvæmlega eins og nú, að skiptingin er misjöfn. Annað árið veiðist meira af einni tegund heldur en annarri, og þetta hefur alltaf svo til gengið, og ég hef aldrei heyrt því haldið fram hér á Alþ. áður, að jafnlítil aflasveifla og á sér stað milli þessara tveggja ára raski grundvelli að rekstri fiskiðnaðarins eða sjávarútvegsins. Ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, að það eru allt aðrar ástæður, sem þar eru að verki. Það er sú einfalda staðreynd, að ríkisstj. hefur mistekizt að hafa hemil á efnahagsmálunum, og það, sem mest er áberandi, að hún hefur með ýmsum aðgerðum sínum verið þess beint valdandi, að efnahagsmálin hafa farið úr skorðum. Þetta er afsakað með því, að hæstv. ríkisstj. hafi verið að bæta launakjörin í landinu, kaupmátt launa og annað slíkt. En ég hygg, að það hljóti alltaf að vera matsatriði, hvort það er hagkvæmara fyrir launastéttirnar, að um háar krónutölur sé að ræða í sambandi við kaup eða hvort um sé að ræða jafnvægi í efnahagsmálum, sem hægt er treysta, og kaupmáttur launþeganna skili betri aðstöðu. Það er þetta, sem hlýtur alltaf að vega meira hjá launþegum, hvort aðstaðan er slík, að kaupmáttur launa sé betri en kannske krónutalan segir til um. Nú er því haldið fram, að kaupmáttur launa hafi batnað. Um það skal ég ekki fjölyrða. Ég hef ekki nægilega góðar skýrslur í höndunum um það, en ég hygg, að það sé hin almenna skoðun launþega, að ef afkoma þeirra í dag er miðuð við fyrri tíma, sé hún síður en svo hagkvæmari. Grípa þar inn í bæði skattahækkun og annað, sem til kemur og ekki er tekið, að ég hygg, til greina, a.m.k. ekki við vísitöluútreikning, nema þá að takmörkuðu leyti.

Ég sé, að hæstv. iðnrh. er hér ekki mættur, en það hefði þó verið mjög gott, að hann hefði verið hér mættur við þessar umr., því að hann hefur auk þeirra þriggja ráðh., sem hér hafa gert grein fyrir ástæðunum fyrir gengisbreytingunum, gefið sína skýringu á gengisfellingu. Hann sagði hér við umr., eins og hv. þm. sennilega flestir muna, fyrir nokkrum dögum, þegar verið var að ræða það ástand, sem skapazt hefði hjá þjóðinni í sambandi við afbrot unglinga, þá kom hann með þá óvæntu skýringu hjá þjóðinni, á meðan viðreisnarstjórnin sat, og tilgreindi alveg sérstaklega, að gengisbreyting væri að vissu marki undirrót að því ástandi, sem þá var verið að ræða, og hann sagði, að gengisfellingar væru siðspillandi fyrir þjóðfélagið. Nú hefði verið ákaflega gaman að spyrja hæstv. iðnrh. að því, ef hann hefði verið hér mættur, hvernig hann telji sig geta afsakað það að standa nú að því, að gengi krónunnar verði fellt, þegar hann er fyrir fáum dögum búinn að lýsa því yfir hér úr þessum ræðustól, að hann telji, að gengisbreytingar hafi siðspillandi áhrif á blóðfélagið í heild. Ég hygg, að það sé. a.m.k. ákaflega erfitt fyrir hann að komast fram hjá því, að hann verður að horfast í augu við þá staðreynd, að hann er þá að standa fyrir samþykkt hér á Alþ., sem hann hefur sjálfur talið, að væri m.a. auk annarra ókosta, sem hann þá greindi frá, beinlínis siðspillandi og að nokkru leyti orsakavaldur að því ástandi, sem hér var rætt um fyrir nokkrum dögum, að skapazt hefði vegna aukinna afbrota unglinga. Það getur vel verið, að hann komi þessu öllu heim og saman. En einhvern veginn á ég ákaflega erfitt með að skilja það, að hann geti sloppið frá því að verða að viðurkenna, að ef þetta hefur áður verið siðspillandi, þ.e. gengisbreytingar, þá séu þær jafnsiðspillandi enn í dag, — og það er einmitt gengisbreyting, sem hann er nú að leggja til.

En aðalástæða mín fyrir því að fara hér í ræðustól var þetta, að ég tel, að það þurfi að liggja nokkuð skýrt fyrir, hvort er meira að marka opinbera skýrslu frá Fiskifélagi Íslands um aflabrögð og heildarafla á því tímabili, sem hér um ræðir, frá 1. jan. til 31. okt. árin 1971 eða 1972, eða fullyrðingar hæstv. sjútvrh. Ef það er svo, að maður getur ekki lengur treyst skýrslu Fiskifélagsins, þá þarf vissulega hæstv. ráðh., sem þessi stofnun heyrir undir, að gera þær ráðstafanir, að þm. sé óhætt að treysta þeim skýrslum, sem það sendir frá sér. En ég hygg, að hann þurfi engar áhyggjur að hafa af þessu, því að skýrslur Fiskifélagsins hafa alltaf verið það plagg, sem þjóðin öll hefur getað treyst, að hefði inni að halda þær réttustu upplýsingar, sem fyrir hendi væru á hverjum tíma um öll mál varðandi sjávarútveginn. Ég hygg, að það sé sanni nær, að hæstv. ráðh. hafi lagt þetta ofurkapp á að telja Alþ. og þjóðinni trú um, að minnkandi aflamagn væri aðalorsökin fyrir efnahagsvandanum, vegna þess að hann telji sig þurfa að hafa einhverja afsökun sem einn af ábyrgum aðilum innan ríkisstj. fyrir því, hvernig á að gera grein fyrir hinu breytta og versnandi efnahagsástandi, síðan núv. hæstv. ríkisstj tók við.