18.12.1972
Neðri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

114. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það ákvæði, sem hv. þm. spurði hér um, hefur verið þannig orðað í lögum um verðlagsmál til þessa, eins og hér er lagt til. Hins vegar er það, að þau lög, sem í gildi hafa verið um verðstöðvun og gilda aðeins til áramóta, breyttu þessu í framkvæmd. Þau lög ganga úr gildi nú um áramótin, nema þau verði framlengd með einhverjum sérstökum hætti. Mér er ekki kunnugt um, að uppi séu óskir um að taka upp það ákvæði, sem er um stöðvunarvald í þeim lögum, og því tel ég rétt að halda sig við orðalagið eins og það er í þessu frv. og eins og það hefur verið, af því að mér er ekki kunnugt um, að neinir óski eftir framlengingu á því ákvæði, sem er í verðstöðvunarlögunum.