19.12.1972
Efri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

32. mál, loðna til bræðslu

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. þetta um skipulag á löndun á loðnu til bræðslu hefur verið afgreitt með nokkrum breytingum frá Nd. Við meðferð málsins þar var það sent til umsagnar Sjómannasambands Íslands, Síldarverksmiðja ríkisins, Landssambands ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags ísl. fiskimjölsverksmiðja. Umsagnir þessara aðila voru allar á þá lund efnislega, að samþykkja beri frv.

Á síðasta sumri skipaði sjútvrn. n. til að gera till. um fyrirkomulag á löndun á loðnu. Þessi n. kynnti sér reynslu og sjónarmið íslenzkra aðila með hliðsjón af reynslu á fyrri loðnuvertíðum. Einnig kynnti n. sér tilhögun á þessum málum í Noregi og aflaði upplýsinga þaðan, og í þessu frv. er lagt til, að svipuðu fyrirkomulagi verði komið á hér og haft er á í Noregi.

Sjútvn. þessarar hv. d. taldi ekki ástæðu til að leita frekari umsagna en þegar lágu fyrir. N. ræddi frv. eins og það var afgreitt frá hv. Nd. og athugaði þær breytingar, sem á því höfðu verið gerðar. 6 af 7 nm. sjútvn. Nd. stóðu að þeim breytingum, sem gerðar höfðu verið, en allir nm. vildu þó samþykkja frv., en ganga misjafnlega langt í breytingum. Þær breytingar, sem gerðar voru á frv., eru, að í stað þess, að í upphaflega frv. er gert ráð fyrir, að einn nm. í loðnunefndinni sé skipaður samkv. tilnefningu samtaka fiskseljenda, komi: „til skiptis frá samtökum sjómanna og frá samtökum útgerðarmanna.“ Þá bætist ný mgr. við í 2. gr. á eftir orðunum „Í einstakar verksmiðjur.“ Nýja mgr. hljóðar svo: „Eigi er heimilt að stöðva löndun í verksmiðju, meðan móttökuskilyrði eru fyrir hendi.“

Þá fellur burt úr upphaflega frv. síðari hluti 2. gr., mgr., sem byrjar á orðunum „Fiskiskipum skulu veittar....“ o.s.frv., en í staðinn kemur ein mgr., þar sem er kveðið á um, að veita skuli fiskiskipum upplýsingar um móttökuskilyrði einstakra verksmiðja og að fiskiskipi sé óheimilt að leita löndunar í verksmiðju, þar sem loðnunefndin hefur stöðvað löndun, en að öðru leyti skuli skipstjóri hvers skips ákveða og tilkynna n., hvar hann muni leita löndunar. Þetta kemur m.a. í stað þess, sem segir í upphafi frv., að fiskiskipum skuli skylt að hlíta fyrirmælum loðnunefndar um ákveðna löndunarhöfn. Með þessum breytingum, sem allar horfa til bóta, liggur frv. fyrir í þessari hv. deild.

Í 3. gr. frv. er kveðið á um, að sjútvrn. geti sett reglur um framkvæmd þessara laga að fengnu áliti samtaka sjómanna, útvegsmanna og Félags ísl. fiskimjölsframleiðenda, enn fremur um, að kostnaður af framkvæmd laga þessara greiðist af fiskseljendum og fiskkaupendum eftir reglum, sem rn. setur. Verði í árslok afgangur af því gjaldi, sem innheimt hefur verið, skal heimilt að ákveða, að hann renni í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, deildar fyrir loðnuafurðir.

Þá er gert ráð fyrir því, að lög þessi gildi í eitt ár eða til ársloka 1973, enda kom það fram í umsögnum ýmissa aðila, að þeir töldu eðlilegt, að þetta gilti ekki nema í eitt ár. Þar sem augljóst er, að brýn þörf er á að skipuleggja þessar veiðar betur en verið hefur, og vitað er, að mikill fjöldi skipa, — sennilega miklu fleiri en nokkurn tíma fyrr, — muni leita á loðnuveiðar, liggur ljóst fyrir, að nauðsyn er á lagasetningu í þessu efni til að tryggja, að skipulag á löndun fari ekki út um þúfur.

Sjútvn. þessarar d. leggur shlj. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Einu nm. var fjarstaddur úr bænum, þegar afgreiðsla frv. fór fram.