24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

31. mál, rekstur hraðfrystihúsanna

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svar hans. Mér skilst, að sú athugun, sem rætt er um í fsp., hafi ekki farið fram nema að tiltölulega litlu leyti á vegum þeirra heildarsamtaka, sem frystihúsin eru aðilar að, og harma ég, að það skuli ekki hafa gerzt. Hins vegar lýsi ég ánægju minni yfir því svari hæstv. sjútvrh., að hann telji nauðsynlegt, að slík athugun verði gerð, og vænti þess, að nokkur árangur geti af henni hlotizt. En það skiptir að sjálfsögðu þjóðarbúið og náttúrulega sérstaklega útgerðarmenn og sjómenn miklu máli, að rekstri frystihúsanna verði komið í sem bezt horf og t.d., ef gerðar eru sérstakar ráðstafanir til að bæta aðstöðu eða afkomu þessara fyrirtækja, þá sé hægt að miða við sæmilega rekin fyrirtæki, en ekki sé miðað við þau, sem hafa kannske lakasta afkomuna, eins og stundum hefur verið gert, þegar efnahagsráðstafanir hafa verið gerðar hér á landi.

Ég þakka sem sagt hæstv. ráðh. undirtektir hans og vænti þess, að slík athugun sem rætt er um í fsp. verði látin fara fram, þó að til þess þurfi eitthvert fjármagn.