19.12.1972
Efri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

131. mál, vegalög

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að gera ágreining um meginstefnu þessa frv. Ég er þvert á móti samþykkur þeirri stefnu, sem þarna er mörkuð, að greiða kostnað við vegaframkvæmdir sem mest af gjaldi af umferðinni, og ég fagna því, að þetta hefur færzt í það horfið í stöðugt ríkara mæli hjá hæstv. núv. ríkisstj. Ég vil hins vegar leyfa mér að gera nokkra aths. við þann kafla frv., sem fjallar um þungaskattinn.

Ég hef við fyrri umr. um þessi mál vakið athygli á því, að þungaskatturinn hækkar verulega það vöruverð, sem verður til þeirra, sem í dreifbýlinu búa, og ég tel það ekki í samræmi við þá meginstefnu hæstv. ríkissj. í þessum málum að jafna bilið á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Ég tel vafasamt að leggja þungaskatt á vörubifreiðaeigendur á flutningaleiðum eftir km-tölu og vil í því sambandi vísa til þess, sem hæstv. samgrh. sagði á síðasta Alþ. í umr. um vegskattinn, að þeir greiddu hæsta vegskattinn, sem erfiðustu vegina aka. Ég hygg, að það hafi verið nokkurn veginn á þennan veg, sem hann mælti alveg réttilega. Það er að mínu viti ekki réttlátt að leggja sams konar skatt á þá, sem eru að brjótast erfiða vegi, oft í torfæru og við erfiðustu skilyrði, til þess að koma vörum á endastað. Því miður sýnist mér, að í þessu frv. sé þetta sjónarmið ekki tekið til greina, heldur lagður um það bil 25% hærri þungaskattur á alla flutninga, allan akstur, hverju nafni sem hann nefnist. Ég hef undir höndum bréf frá Landfara, landsfélagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, sem er skrifað 19. þ.m., og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa kafla úr því bréfi. Þar segir svo:

„S.l. eitt og hálft ár hefur stjórn Landfara unnið að því að fá innheimtufyrirkomulagi þungaskatts breytt. Sendar hafa verið greinargerðir um málið til samgrh. og fjmrh., og stjórn félagsins hefur átt viðtöl við nefnda ráðh., en allt án sjáanlegs árangurs enn sem komið er.“ Enn segir svo: „Stjfrv. það, sem nú liggur fyrir Alþ. um breyt. á vegal., gerir m. a. ráð fyrir 25% hækkun þungaskatts og gúmmígjalds og jafnframt því nýmæli, að þungaskatt skuli greiða af festi- og tengivögnum. Ef þetta frv. er svar hæstv. ráðh. við beiðni Landfara um endurskoðun þungaskattsinnheimtunnar, þá er auðsætt, að þeir vilja þá veigamiklu þjónustu, sem félagsmenn veita landsbyggðinni, feiga. Því er svo til orða tekið, að flm. frv. er fullkunnugt um þá erfiðleika, sem atvinnuvegur félagsmanna á nú við að etja. Rekstrarkostnaður vöruflutningabifreiða á langleiðum hefur hækkað gífurlega á undanförnum tveimur árum. Verðlagsyfirvöld hafa ekki sinnt kröfum bifreiðaeigendanna um sanngjarna hækkun flutningstaxta, og er því svo komið, að ef ekki verður skjótt gripið til þeirra úrræða að minnka opinberar álögur (þungaskatt, gúmmígjald, aðflutningsgjöld o.fl.) á þessa aðila eða heimila sanngjarna taxtahækkun, þá mun ekki unnt að halda útgerð bifreiðanna lengur áfram.“

Með þessu bréfi fylgja ýmis skjöl, ljósrit af bréfum, sem hafa verið send bæði hæstv. fjmrh. og hæstv, samgrh. allt frá því haustið 1971, þar sem gerð er ítarleg grein fyrir þeim málefnum, sem ég hef gert hér að umræðuefni. Nú eru það spurningar mínar til hæstv. ráðh., hvaða afgreiðslu þessi erindi hafi fengið, hvort í athugun séu einhverjar leiðréttingar á þessum málum í samræmi við óskir Landfara, hvort þau sjónarmið, sem ég hef nú minnzt á, um hækkun vöruverðs í dreifbýli vegna þungaskattsins séu í athugun eða verði könnuð.

Ég vil að lokum taka það fram, að mér sýnist að sjálfsögðu ljóst, að þeir, sem aka þessum bifreiðum hljóta að taka einhvern þátt og hann ekki lítinn í kostnaði við vegaframkvæmdir, en legg á það ríka áherzlu, að í því sambandi ber að taka mjög mikið tillit til þeirra meginsjónarmiða tveggja, sem ég nefndi hér áðan, hækkunar vöruverðs í dreifbýlinu og hins vegar þeirrar staðreyndar, að þeir aka nú hina erfiðustu og lélegustu vegi.