19.12.1972
Efri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

131. mál, vegalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka n. fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli. Það gat ekki gengið greiðar en varð. Málið var hér til umr. í gær. Ég tek að öllu leyti undir þau rök, sem fram komu til meðmæla þessu frv. í ræðu hv. frsm. meiri hl. og skal ekki fara út í þau atriði frekar.

Hér hefur verið dregið inn í umr., að það sé rétt stefna, að ríkissjóður leggi fram meira fé beint úr sameiginlegum sjóði þegnanna til samgöngumála. Ég held, að ykkur sé það öllum ljóst, hv. alþm., að það hefur orðið mikil aukning á fjárframlögum ríkissjóðs til vegamálanna ein mitt núna á síðustu tveímur árum. Það var svo ár eftir ár, að það var í raun og veru engin sérstök fjárveiting á fjárl. til vegamálanna, hafði verið lofað 45 millj. kr. og stóð á endum á því, en að síðustu var undan að láta. En síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, hefur ríkissjóður tekið á sig mjög þungar byrðar vegna erlendra lána í sambandi við samgöngumálin, og eru það jafngóðar og gildar upphæðir og til beinna framkvæmda, því að þær létta á um verkefnið sjálft. Það munu vera nú beinar greiðslur af hendi ríkissjóðs, ekki neinar 45, heldur 250 millj. kr. til vegamálanna. Þessum óskum hefur þannig verið fullnægt og stefnt í þá átt, sem hv. alþm, hafa talið rétta stefnu.

Ég tek fyllilega undir það, að bíllinn er orðinn nauðsynjatæki almennings. En þrátt fyrir það er ekki hægt að undanþiggja hann öllum sköttum. Við getum það ekki með nein nauðsynjafyrirtæki okkar yfirleitt. Við hirðum skatta af þeim flestum, hversu almenn sem notkunin er, og ég og fleiri erum nú þannig, að við ofnotum þessi tæki meira að segja. Það er margur maðurinn á Íslandi, sem ofnotar þessi tæki, og ég tel mig vera einn í þeirra hópi og hefði haft betra af því að nota bílinn minna. En hér var upplýst af hv. frsm. minni hl., að síðast hefðu þessi gjöld, sem hér er lagt til að hækka, verið hækkuð í des. 1970, þ.e. fyrir tveimur árum. Í flestum tilfellum er það svo, að það er um verulegar verðbreytingar að ræða á tveggja ára tímabili og í mörgum lögum er ákveðið, að þau skuli endurskoðuð á ekki lengri fresti en tveggja ára. Ég tel því nokkuð við hæfi, að nú séu endurskoðuð og færð til núverandi verðlags nokkurn veginn þau gjöld, sem hvíla á rekstri bifreiða. Ég held líka, að það sé réttari stefna að skattleggja fremur notkunina þarna, neyzluna, eins og menn hafa nú lýst yfir sem sinni stefnu ýmsir, heldur en sjálfan tilkostnaðinn. (Gripið fram í: Heldur en tækið.) Tækið sjálft, já, stofnkostnaðurinn. (Gripið fram í: En er ekki hvort tveggja gott?) Jú, það er afskaplega gott að geta gert hvort tveggja.

Ef ég legg það niður fyrir mér, hvort réttara sé að taka fé til þessara mála sérstaklega úr sameiginlegum sjóði þegnanna, þá finnst mér það ekki fullnægja öllu réttlæti. Hitt finnst mér nær réttlætinu að leggja nokkra sérskatta á okkur, sem bíla eigum og notum bíla mikið, og það verði þannig að nota þá aðferð að skattleggja bíleigendur með því að skattleggja reksturinn á bílnum og þá, sem mikið eiga undir því að nota bíla, heldur en taka það úr sameiginlegum sjóði. Mér finnst þetta vera nær því rétta. Öll skattlagning er auðvitað ill. en hún er höfuðnauðsyn framfaraþjóðfélagsins.

Hér var minnzt á þungaskattinn, og hann er vafalaust tilfinnanlegur, ekki sízt gagnvart þeim, sem annast þungavöruflutningana út um landið, og með þeim hef ég fulla samúð. Um það mál hefur verið margsinnis rætt við mig, og það hefur verið rætt við fjmrh., og við nákvæma athugun á því hefur ekki verið talið fært að hverfa frá þeirri skattlagningu. Menn hafa líka krafizt þess, að það væri gerð athugun á því, hvað væri þjóðhagslega hagkvæmt í samgöngunum, samgöngurnar í lofti, samgöngurnar á landi eða samgöngurnar á sjó, að því er varðar þungavöruflutninga. Ríkið hefur ekki komizt hjá því að gera út skip til þess að annast flutningana á sjónum, og þau skip eru gerð út með miklum tilkostnaði af hálfu ríkisins. Ég held, að öll reynsla okkar sýni, að með þeim byrðum, sem þó eru lagðar á þungavöruflutninga á landi, hefur þó æðimikið magn af vöruflutningunum sótt einmitt í þann farveg, og sýnist þess vegna síður vera hallað á þá heldur en á vöruflutningana á sjó. Athugun á því, hvort sé hagkvæmara að beina flutningunum til bílaflutninga á landi eða beina þeim meira að sjónum, sú athugun er, eins og öllum hv. dm. er kunnugt, í gangi, og á meðan tel ég ekki rétt að gera ráðstafanir einum þættinum í vil fremur en öðrum. Ég tel því, að þangað til athugun á þessu máli skæri úr um það, að þungavöruflutningar á landi væru þjóðhagslega hagstæðastir, eigi að halda sér við það kerfi, sem fyrir löngu var upp tekið, að leggja þungaskatt á þessa flutninga. Það mál er í athugun, en um það var einmitt spurt hér áðan. Það er alveg rétt, að allir flutningar á vörum, hvort sem þeir fara fram á landi, á sjó eða í lofti, eru þungur skattur á fólkinu í dreifbýlinu. Þess vegna er það einmitt þýðingarmikið, að við fáum með rannsókn úr því skorið, hver þátturinn sé þjóðhagslega hagstæðastur. Ég held því, að nú í skyndi getum við ekki a.m.k. farið í það að gera upp á milli þessara fyrirkomulagsþátta varðandi vöruflutninga með því að fella niður t.d. þungaskatt af vöruflutningum á landi.

Ég hygg, að þó að þetta frv. sé seint á ferðinni, sé það ekki svo flókið, að þm. eigi erfitt með að átta sig á innihaldi þess á skömmum tíma. Hefði ég þó gjarnan viljað, að það hefði verið fyrr á ferðinni. En svo mikið er víst, eins og ég sagði hér í gær, að það er ekki nýlunda, að frv.- flóð komi í fang þm. fyrir jólin og fyrir páska, rétt fyrir þinglok. Má vera, að það væri full ástæða til að reyna að bæta þar úr. En þetta er svo sem það hefur verið enn þá a.m.k. En ég er afar hræddur um, því miður, að þetta verði löngum svo, hverjir stjórna, að það komi þessir hápunktar í starfsemi þingsins undir hlé á störfum þess og undir þinglok.

Um eitt verðum við alveg áreiðanlega sammála varðandi þetta mál, að við viljum sízt af öllu una því, að samdráttur verði í vegagerð og samgöngubótum í okkar landi. Þar er nauðsynin svo brýn, að um það viljum við allir sameinast. Og þá verðum við líka að bíta í það súra epli að vinna það til að leggja á þegnana byrðar, til þess að slíkt geti orðið. Hik í þessu er einna verst. Það er bein afturför að standa í stað.