24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

261. mál, málefni geðsjúkra

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm., Ragnhildi Helgadóttur fyrir þau almennu sjónarmið, sem hún gerði grein fyrir í ræðu sinni hér áðan um málefni geðsjúkra. Ég er henni algerlega sammála um þau sjónarmið. Um fsp. hennar hef ég þetta að segja.

Eins og hún gat um, var það tekið fram í málefnasamningi núv, ríkisstj., að ráðin skyldi bót á ófremdarástandi í málefnum geðsjúkra. í samræmi við það ákvæði skipaði ég 12. nóv. í fyrra nefnd til þess að annast undirbúning að byggingu geðdeildar við Landsspítalann. Formaður nefndarinnar er Tómas Helgason, prófessor í geðsjúkdómafræði við Háskóla Íslands, en hann er jafnframt yfirlæknir við sjúkrahúsið á Kleppi. Með honum starfa í n. Ásgeir Bjarnason, framkvæmdastjóri Geðverndarfélags Íslands, Guðrún Guðnadóttir, aðstoðarforstöðukona við Landsspítalann og Adda Bára Sigfúsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra. Ritari nefndarinnar er Jón Ingimarsson skrifstofustjóri. Fjárveiting til undirbúningsstarfa, að upphæð 4á millj., var veitt á fjárlögum þessa árs, og hafa störfin gengið mjög greiðlega. Ég sé raunar ástæðu til þess að þakka þessari n, fyrir mjög myndarlegt starf á þessu sviði.

Í greinargerð undirbúningsnefndar fyrir þeirri till., sem hún hefur gert um byggingu geðdeildar við Landsspítalann, er bent á, að hér á landi vanti 210-290 sjúkrarúm fyrir geðsjúklinga og eðlilegt og hagkvæmt sé að gera ráð fyrir, að 120 þessara rúma verði í geðdeild Landsspítalans. Í geðdeildarbyggingunni þarf einnig að gera ráð fyrir göngudeild og þjónustu í þágu sjúklinga við félagsmálastofnanir og dómstóla. Jafnframt hefur n. gert ráð fyrir aðstöðu til kennslu þeirra heilbrigðisstétta, sem þurfa að fá fræðslu um geðsjúkdóma, eðli þeirra og meðferð. Heildarkostnaður við þessa byggingu er áætlaður 275 millj. kr. Byggingunni hefur verið valinn staður á norðausturhorni landsspítalalóðar, og var sú ákvörðun tekin í samráði við þá, sem vinna að heildarskipulagningu landsspítalalóðarinnar. N. leggur áherzlu á, að byggingin rísi á landsspítalalóðinni, svo að geðdeildin geti starfað í eðlilegum og nánum tengslum við aðrar deildir spítalans. Það staðarval á líka að geta rutt burtu leifum af þeirri skoðun, sem fyrirspyrjandi vék hér að áðan, að geðsjúkdómar séu fyrirbrigði, sem taka þurfi öðrum tökum en aðra sjúkdóma, þeir séu allt að því feimnismál. og bezt sé fyrir sjúklinginn að dveljast á afviknum stað. Eins og fyrirspyrjandi gat um, er þessi skoðun alls staðar á undanhaldi og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur markað þá stefnu, að geðsjúkradeildir fyrir sjúkdóma á hvaða stigi, sem er, skuli tengdar almennum sjúkrastofnunum.

Byggingarnefnd geðdeildarinnar leggur til, að byggt verði í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga er gert ráð fyrir helmingi sjúkrarúmanna og allri annarri þjónustu, sem deildin á að veita. Í síðari áfanga verði svo 60 sjúkrarúm. Fyrir liggur nú þegar útlits- og skipulagsteikning að byggingunni, og arkitektar og verkfræðingar vinna að nánari undirbúningi verksins í einstökum atriðum. Gerð hefur verið nákvæm tímaáætlun fyrir þá undirbúningsvinnu, sem eftir er, og samkvæmt henni á útboð fyrri áfanga að geta farið fram í ágúst 1973. Verklegar framkvæmdir ættu þannig að geta hafizt í september á næsta ári, en til þess að svo megi verða, þarf að veita nægilegt fé á fjárlögum. Það mál er nú í höndum okkar alþm., og vænti ég þess, að okkur sé öllum ljóst, að hér er um framkvæmd að ræða, sem allt of lengi hefur dregizt að ráðast í.

Það hefur lengi verið ljóst, að mjög hefur skort á, að geðsjúkir fengju þjónustu, sem væri sambærileg við þá þjónustu, sem aðrir sjúklingar fá. Í því samhandi vil ég vitna til þess mats Tómasar Helgasonar prófessors, að 30–50% þeirra sjúklinga, sem leiti almennra lækna, þjáist fyrst og fremst af geðrænum kvillum, og verulegur hluti annarra sjúklinga hafi jafnframt geðræn vandamál, annaðhvort samhliða líkamlegum sjúkdómum eða sem afleiðingu af þeim. Hitt hefur e.t.v. ekki verið jafnmikið á almannavitorði, að aðstöðuleysi hefur jafnan háð svo geðlækningum, að hvorki hefur verið hægt að rækja kennslu læknastúdenta né lækningar á viðunandi hátt. Með bættri kennslu í geðlæknisfræði og samhæfingu hennar við kennslu í öðrum megingreinum læknisfræðinnar, sem eingöngu fæst með því, að kennslan fari fram á sameiginlegu sjúkrahúsi, ætti skilningur lækna á andlegum, líkamlegum og félagslegum þörfum fólksins að aukast. Þetta ætti að stuðla að því, að auðveldara ætti að vera að fá lækna til að gegna heimilislæknastörfum og héraðslæknastörfum í framtíðinni. Það hlýtur að vera meginmarkmið lækniskennslu á Íslandi að reyna að sjá íslendingum fyrir góðri læknisþjónustu, hvar á landinu sem þeir búa. því er nauðsynlegt að koma nú þegar upp geðdeild við Landsspítalann, en það er sú deild, sem enn vantar við Landsspítalann, til þess að þar sé hægt að veita þjónustu og kennslu í helztu greinum læknisfræðinnar.

Auk þessa stórverkefnis, sem ég hef nú rætt um, hefur verið unnið að umbótum á málefnum geðsjúkra með eftirtöldum aðgerðum:

Verið er að taka í notkun húsið að Laugarásvegi 71, þar sem verða munu 17 sjúklingar. Einnig er verið að taka í notkun 1. hæð hússins að Hátúni 10, sem ríkisspítalarnir hafa tekið á leigu af Öryrkjabandalagi Íslands, en þar munu rúmast 14 sjúklingar. Búið er að ganga frá samningi um leigu á 1. hæð hússins að Hátúni 10 A, þar sem einnig munu rúmast 14 sjúklingar, og verður sú hæð væntanlega tekin í notkun næsta vor. Með þessu móti verður hægt að tæma gamla spítalann á Kleppi, sem fyrir löngu er orðinn ónothæfur sem íveruhús, hvað þá sem sjúkrahús og hefur raunar lengi verið blettur á heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga. Á þessu ári hefur verið tekið í notkun bráðabirgðahús, sem byggt hefur verið á Kleppi yfir lækningastofur, göngudeild, rannsóknarstofur og vegna kennslu starfsfólks. Alla þessa aðstöðu vantaði áður á spítalann. En sérstaklega var bagalegt aðstöðuleysi lækningastofa og göngudeildar, þar sem yfir 6000 viðtöl fara fram árlega. Með tilkomu þessa bráðabirgðahúss hefur nýting göngudeildarinnar aukizt og aðstaða til meðferðar batnað til verulegra muna. Þessi aðstaða verður að teljast forsenda þess, að hægt sé að reka Kleppsspítalann enn í nokkur ár. Hér má og geta þess, að aðkoma að spítalanum hefur verið stórbætt. Læknum og öðru starfsfólki hefur fjölgað nokkuð, en ekki alveg í samræmi við áætlun, sem lögð var fyrir fjvn. á síðasta Alþingi, þar sem þingið ákvað að fresta nokkuð framkvæmd áætlunarinnar til ársins 1973. Þá hefur og verið komið upp til bráðabirgða fleiri verkstæðum til iðjuþjálfunar.

Ætlunin er að fjölga starfsfólki við Kleppsspítalann í samræmi við ofangreinda áætlun á árunum 1972 og 1973, til að ná þeim fjölda, sem nauðsynlegur er. Jafnframt þarf enn að framkvæma ýmsar frekari lagfæringar á búsakosti spítalans, en þrátt fyrir það, sem gert hefur verið og áætlað er að gera við Kleppsspítalann, vantar mikið til þess, að ráðin verði bót á hinum mikla sjúkrahússkorti geðsjúkra og til þess að gera kennslu heilbrigðisstétta í geðlæknisfræði og skyldum greinum nægilega góða.

Þessi atriði, sem ég hef nefnt nú í síðari hluta ræðunnar, eru þannig aðeins brot og brotabrot af mjög stórum og alvarlegum vanda og þar er langmikilvægasta verkefnið, sem ég vék að í upphafi, að hefja byggingu geðdeildar við Landsspítalann. Þar er að mínu mati um að ræða eitt mikilvægasta framtak, sem við getum nú unnið í heilbrigðismálum þjóðarinnar.