19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því, þó að ég telji, að það komi ekki þessu máli við, að vekja athygli hv. þm. á þeim misskilningi, sem virðist vera að koma upp hjá hinum róttækari armi Alþb., flokks hæstv. sjútvrh., á störfum Alþingis. Við minnumst þess, að fyrir nokkrum dögum stóð hæstv. iðnrh. hér í þessum stól og gaf þá yfirlýsingu, að hann teldi það ekki skyldu sína að standa hér á Alþ. og vera að láta þm. yfirheyra sig eða svara spurningum þeirra, ef hann teldi ekki ástæðu til þess. Ég hygg, að ráðh. almennt hafi ekki áður gefið slíka yfirlýsingu. Þeir hafa yfirleitt verið mjög greiðir á það að svara spurningum frá þm., jafnvel þó að þeir hafi ekki þurft að gera það. Hv. frsm. sjútvn., sem mælti fyrir nál. hér áðan, hv. 5. þm. Sunnl., lét það í ljós sem sína skoðun, að menn væru ekki með öllum mjalla ef þeir leyfðu sér á Alþ. að flytja brtt. við þau mál. sem hér eru til umr. Ég verð að segja það, að ég veit ekki, í hvaða sálarástandi eða ásigkomulagi menn eru, þegar þeir gefa slíkar yfirlýsingar eins og hér var gefin áðan. Hann vildi rökstyðja þetta með því, að ég væri eini aðilinn, sem hefði viljað opna landhelgi fyrir togveiðum upp í landssteina, eins og hann orðaði það. Hann á þar sennilega við svæðin við Grindavík og Vestmannaeyjar. Ég vil benda á það, að þetta ákvæði er í lögum frá 1969 og það var samþ. hér á Alþ. með shlj. atkv. allra þm., sem þá greiddu atkv. það var ekkert mótatkv. greitt gegn þeim lögum. Ég skal ekki tefja störf d. meira með umr. um þetta atriði, vildi aðeins vekja athygli á þessu nýja viðhorfi, sem hér virðist vera að koma upp á Alþ., að einstaka ráðh. og einstaka þm. telja, að raunar varði aðra þm. ekkert um störf Alþ. eða þeir eigi bara að haga sér eins og þessum hæstv. ráðh. og hv. þm. sýnist og telja bezt fyrir sig. (Gripið fram í: það væri nú bezt.) Sem betur fer, er þetta sjónarmið ekki enn þá orðið ríkjandi hér á Alþ., og ég er sannfærður um, að það á langt í land, að það verði, því að þótt kommúnistar í ríkisstj. núna, róttækari armur Alþb., telji sig hafa komið sínum málum vel fyrir í ríkisstj., þá hygg ég, að þeim eins og öðrum sé ljóst, að þar er aðeins um tímabundið ástand að ræða.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta atriði, en snúa mér að því máli, sem hér liggur fyrir. Eins og fram kom í framsöguræðu frsm. n., er sjútvn. sammála um þær brtt., sem fram koma á þskj. 184. Þetta benti hann réttilega á og einnig hæstv. sjútvrh. Einnig kom fram hjá frsm. n. og kemur fram í nál., að till. þessar eru fluttar samkv. tilmælum hinnar svokölluðu fiskveiðilaganefndar, og einnig þar var samstaða um þessi atriði, sem tekin eru upp í nál. sem brtt. Ég vil í þessu sambandi láta þess getið, að þegar fiskveiðilaganefnd, sem starfað hefur að því nú í haust að undirbúa till. um nýtingu veiðisvæðanna innan fiskveiðilandhelginnar, sá fram á, að henni mundi ekki takast að ljúka störfum tímanlega fyrir áramót, var hún sammála um að fara fram á við sjútvn. þessarar hv. d. að flytja þær till., sem hér liggja fyrir á þskj. 184 í sambandi við það frv. um breyt. á lögum um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu, sem vísað hafði verið til n., og einnig lagði n. til, að lögin yrðu að öðru leyti framlengd til 15. maí n.k., en gildistímabil þeirra rennur út, eins og hér hefur verið fram tekið, um n.k. áramót. Eins og hér kom fram hjá formanni fiskveiðilaganefndar, er það ætlun n. að ljúka störfum það tímanlega, að hægt verði að lögfesta heildarlöggjöf um þessi mál síðar í vetur. Þetta er það sjónarmið, sem upp kom í fiskveiðilaganefndinni, eins og hér var gerð grein fyrir, og var alger samstaða um þessi atriði. Tvö önnur atriði er koma fram í brtt. sjútvn. voru rædd í fiskveiðilaganefndinni, sem n. í heild eða einstakir nm. töldu nauðsynlegt að breyta og láta koma til framkvæmda um næstu áramót, en það voru gildandi ákvæði um bolfiskveiðar í nót og frekari friðunarákvæði, er fram koma í reglugerð frá 14. júlí s.l., varðandi friðun uppeldisstöðva ungfisks og hrygningarsvæða. Um fyrra atriðið var n. sammála, og í grg., sem send var hæstv. sjútvrh. og sjútvn. d., segir, með leyfi forseta:

„Að síðustu ber að greina frá því, að n. varð samdóma um, að nú þegar bæri að gera ráðstafanir varðandi bolfiskveiðar í hringnót. Var samþ. í n. að beina þeim tilmælum til sjútvrh., að reglugerð um þorsk-, ýsu- og ufsaveiðar með nót o.fl. verði breytt hið allra fyrsta þannig, að bolfiskveiðar í hringnót verði bannaðar. Þó skuli sjútvrn. heimilt að veita sérstakt leyfi til þorskveiða með hringnót bátum undir 50 smálestum, sem stundað hafa þessar veiðar að marki s.l. 1 ár. Gildi sú heimild til ársloka 1973.“

Þetta er orðrétt tekið upp úr grg. fiskveiðilaganefndar, eins og fyrr segir, og áréttað sérstaklega í bréfi til sjútvrh. Í bréfi n. til sjútvrh. segir orðrétt:

„Fiskveiðilaganefnd beinir einnig þeim eindregnu tilmælum til yðar, herra ráðh., að reglugerð um þorsk-, ýsu- og ufsaveiðar með nót o.fl. verði breytt hið allra fyrsta, sbr. niðurlagsorð meðfylgjandi grg.

Hæstv. sjútvrh. mætti á fundi hjá fiskveiðilaganefndinni og tjáði sig, að því mér skildist, fylgjandi hugmyndum n. varðandi þetta atriði, og vænti ég því, að hann sjái sér fært að verða við þessum eindregnu tilmælum n. um bann gegn bolfiskveiðum með nót og geri ráðstafanir til, að það komi til framkvæmda þegar um næstu áramót. Ég tel, að þetta sé eitt af þeim ákvæðum, sem nauðsynlegt sé, að breytt verði þegar um næstu áramót, og vænti ég þess og treysti því, að hæstv. ráðh. hafi það sjónarmið í þessu máli, að hann geti á þetta fallizt.

Um hitt atriðið, þ.e. að gera nú þegar ráðstafanir til aukinnar friðunar uppeldisstöðva ungfisks og tiltekinna hrygningarsvæða, greindi n. á um. Ég vil þó taka það skýrt fram, að nm. allir lýstu sig fylgjandi friðunarráðstöfunum, en ágreiningur var um, hvort tímabært væri að breyta gildandi ákvæðum um þetta atriði nú fyrir áramót eða láta það bíða. Ég hélt því mjög ákveðið fram í n., að nauðsyn bæri til að lögfesta nú þegar víðtækari friðunarákvæði en 3. gr. reglugerðarinnar frá 14. júli s.l. .gerir ráð fyrir. En þegar ekki fékkst samstaða um þetta tjáði ég nm. í fiskveiðilaganefndinni, að ég mundi beita mér fyrir í sjútvn. þessarar hv. d., að lögfest yrðu víðtækari friðunarákvæði en umrædd reglugerð gerir ráð fyrir.

Till. okkar hv. 10. þm. Reykv. á þskj. 185 ber að skoða sem nauðsynlegar ráðstafanir að okkar dómi, sem ekki beri að draga og eigi að koma til framkvæmda nú þegar. Við erum sammála um, að þegar málið liggur ljóst fyrir í heild, hvernig nýta beri veiðisvæðin innan fiskveiðilandhelginnar, verði að gera enn frekari friðunarráðstafanir en till. okkar gerir ráð fyrir, og mér hefur skilizt, að fiskveiðilaganefndin í heild væri einnig nokkuð sammála um þetta. En áður en ég geri frekari grein fyrir till. okkar hv. 10 þm. Reykv. á þskj. 185, þykir mér rétt að ræða friðunarmálin almennt nokkru nánar.

Í till. til þál., sem 10 þm. Sjálfstfl. fluttu haustið 1971, segir m. a. í 2. og 3. lið till., með leyfi hæstv. forseta, — 2. liður þessarar till. hljóðar þannig:

„Ákveðin skulu friðunarsvæði á mikilvægum uppeldisstöðvum ungfisks á landgrunninu út að ytri mörkum þess. Heimilt er að miða aðgerðir þessar við tiltekinn tíma árs, við ákveðin veiðisvæði og veiðiaðferðir og við stærð fiskiskipa. Friðunaraðgerðir þessar skulu ganga í gildi 1. marz 1972.“

Þetta var í till. 10 þm. Sjálfstfl., sem flutt var hér haustið 1971. Og 3. liður þessarar till. hljóðar þannig:

„Settar skulu reglur um tímabundna friðun ákveðinna veiðisvæða innan núgildandi fiskveiðimarka, m.a. hluta af Selvogsbanka og tiltekinna svæða við Vestmannaeyjar. Reglur þessar skulu gilda frá 1. marz 1972.“

Engin slík ákvæði var að finna í till. núv. hæstv. ríkisstj. um landhelgismál, sem lögð var fram í byrjun siðasta þings. En eins og kunnugt er var till. ríkisstj. og till. þm. Sjálfstfl. send utanrmn. til athugunar. Utanrmn. skilaði sameiginlegu áliti á þskj. 336. Nál. er í 5 liðum, og hljóðar 4. liðurinn svo:

„Að unnið verði áfram í samráði við fiskifræðinga að ströngu eftirliti með fiskistofnum við landið og settar, eftir því sem nauðsynlegt reynist, reglur um friðun þeirra og einstakra fiskimiða til þess að koma í veg fyrir ofveiði.“

Þetta var 4. liður í till. utanrmn., sem hér var lögð fram á s.l. vetri. Þannig m.a. var till. utanrmn. um landhelgismálið samþykkt með atkv. allra 60 þm., eins og þingheimi er kunnugt. En þegar till. þm. Sjálfstfl. var til umr. hér á Alþ., hélt hæstv. sjútvrh. því mjög ákveðið fram, að engar friðunarráðstafanir bæri að gera, nema fyrir lægju umsagnir fiskifræðinga okkar. Sagði hæstv. ráðh. við þetta tækifæri orðrétt, með leyfi forseta:

„Að því leyti til. sem hér er um friðun innan núverandi fiskveiðitakmarka að ræða, sem aðallega mundi verða um að ræða, þá vitanlega höfum við lög og reglur til þess að fara eftir í þessum efnum. En okkar lög og reglur eru þannig, að við eigum varðandi slíka fiskfriðun að fara eftir till. okkar fræðimanna.“ Og enn fremur sagði hæstv. sjútvrh. síðar í ræðu sinni, orðrétt: „En það er næstum að segja einkennilegt að flytja till. um það á Alþ., að 1. marz n.k. skuli ákveðin svæði friðuð, án þess að farið sé að eðlilegum lögum og reglum um þetta, þ.e.a.s. umsagnir okkar fiskifræðinga liggi fyrir og þeirra till., sem eiga síðan að fá staðfestingu stjórnarvalda.“

Þetta var sem sagt afstaða hæstv. ráðh., þegar till. þm. Sjálfstfl. um verndun fiskistofna var rædd hér á Alþ. á s.l. vetri, að engar friðunarráðstafanir bæri að gera, fyrr en fyrir lægi umsögn fiskifræðinga, og getur hún út af fyrir sig talizt eðlileg. Þess vegna tel ég, að það hljóti að vekja nokkra furðu, að alveg virðist augljóst, hvað sem hæstv. ráðh. nú kann að segja, að þegar hann gaf út hina umræddu reglugerð 14. júli s.l. hafi hann engin — ég endurtek: engin samráð haft við fiskifræðinga um ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar, þar sem tilgreind eru tvö friðunarsvæði, annað fyrir Norðausturlandi og hitt fyrir Suðurlandi. Ég marka þetta af því, sem fram kemur í till. Hafrannsóknastofnunarinnar til fiskveiðilaganefndarinnar um nýtingu veiðisvæðanna. En m.a. segir orðrétt í lok kaflans nm friðun svæða í skýrslu Hafrannsóknastofnunar:

„Stofnunin lýsir furðu sinni á þeirri ákvörðun að friðlýsa ákveðin hrygningarsvæði suðvestanlands fyrir togveiðum, en ekki öðrum veiðarfærum, svo sem þorskanetum. Reynt er að benda á, að slík friðun nær því aðeins tilgangi sínum, að fiskur gangi á svæðin til hrygningar, en um það er ekki hægt að segja fyrirfram. Friðun svæðisins er þó ekkert nema sýndarmennska,“ segir í till. Hafrannsóknastofnunarinnar,“ ef hún nær ekki til allra veiðarfæra, einkum þegar takmarkanir eru settar á stórtækustu veiðarfærin, þ.e. þorskanetin.“ hví er lagt til, að friðun nái til allra veiðarfæra.“

Ég held, að þetta hljóti að sýna alveg tvímælalaust, að þegar hæstv. ráðh. ákvað friðunarsvæðin í reglugerðinni frá 14. júlí s.l., hafi hann alls engin samráð haft við fiskifræðinga eða fyrirsvarsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar. Og ég segi: Ef þetta er rétt, sem Hafrannsóknastofnunin segir í sínu áliti, má heita næsta furðuleg afstaða hans nú, ef tekið er tillit til fullyrðinga hæstv. ráðh. frá því í vetur, að ekkert mætti gera í friðunarmálunum nema að fenginni umsögn þessara aðila. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. sjútvrh. áðan, að hann endurtók þar og ítrekaði afstöðu sína frá því í fyrravetur, þegar verið var að ræða till. okkar 10 þm. Sjálfstfl., að ráðh. eða rn. hefði raunverulega ekki leyfi til að gefa út neinar reglugerðir um friðun nema að fengnum till. þessarar stofnunar, Hafrannsóknastofnunar. En ég hlýt þá að spyrja: Hvernig má það vera, að stofnunin skuli í skýrslu sinni til fiskveiðilaganefndar lýsa því yfir, að hún telji, að friðunarákvæðin í reglugerðinni frá 14. júlí, a.m.k. að því er varðar hrygningarsvæðin fyrir Suðurlandi, séu að hennar dómi hrein sýndarmennska, eins og þan ákvæði eru. Ég fæ þetta ekki til að samrýmast, að hæstv. ráðh. hafi haft um þetta samráð við Hafrannsóknastofnunina og síðan lýsi hún því yfir við fiskveiðilaganefnd, að þetta sé sýndarmennska, eins og ákvæðin eru í 3. gr. reglugerðarinnar frá 14. júlí (Forseti: Þess hefur verið óskað, að gert yrði hlé á fundi á milli kl. 4 og 5. Ef hv. ræðumaður á mjög mikið eftir af ræðu sinni, vil ég fara þess á leit við hann, að hann fresti henni) Ja, ég á allnokkuð eftir af ræðunni. (Forseti: Fundinum verður þá frestað til kl. 5).