19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta er að langmestu leyti fylgifiskur gengisbreytingar. Í þessu frv. eru fyrst og fremst ákvæði um tæknileg atriði, varðandi framkvæmd tollmeðferðar, varðandi gjaldeyrisskil fyrir afurðir, sem framleiddar voru, áður en gengisbreyting var ákveðin, og ráðstöfun á gengishagnaði í sambandi við gengisbreytingu. Að svo miklu leyti sem frv. fjallar um þessi atriði, má segja, að það sé eðlileg og nauðsynleg afleiðing þeirrar ákvörðunar Seðlabanka og ríkisstj., sem nú hefur verið tekin, að breyta stofngengi ísl. kr. Það er mjög eðlilegt, að þeir, sem þá ákvörðun hafa tekið, óski eftir því, að Alþingi taki þær ákvarðanir, sem hér er um að ræða, og mun Alþfl. láta afgreiðslu frv. að þessu leyti afskiptalausa. Hann skilur nauðsyn þess, að slík ákvæði séu lögfest.

Þetta, sem ég hef nú sagt, á hins vegar ekki við um eina gr. frv., þ.e.a.s. 3. gr., enda er með henni verið að breyta ákvæðum seðlabankalaga. Hingað til hefur ekki tíðkazt, að aðrar lagabreytingar hafi fylgt í kjölfar gengisbreytingar en þær, sem eru bein afleiðing af gengisbreytingunni sjálfri, beinlínis nauðsynlegar, til þess að gengisbreytingin geti verið framkvæmd með eðlilegum hætti. Hér er hins vegar um það nýmæli að ræða, að seðlabankal. er jafnframt breytt í einu mjög mikilvægu atriði.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í gildandi seðlabankal. hefur verið heimild til handa Seðlabankanum um það að ákveða 1% frávik frá ákveðnu stofngengi hverju sinni í hvora átt um sig, þ.e.a.s. Seðlabankinn hefur getað ákveðið gengið 1% hærra og 1% lægra en stofngengi hverju sinni. Þessari reglu er gert ráð fyrir að breyta með 3. gr. frv. og auka heimild Seðlabankans til gengisbreytinga, án þess að samþykki ríkisstj. þurfi að koma til. Hér er gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn skuli hafa heimild til fráviks frá ákveðnu stofngengi, sem nemur 21/3% í hvora átt, þ.e.a.s. hann geti breytt genginu innan marka, sem nema 41/2%. Til þess að hv. þm. verði ljósara en ella, hvað hér er á ferðinni, er rétt að rifja upp, að það stofngengi, sem nú er í gildi á ísl. kr. skv. hinni nýju ákvörðun, er miðið við Bandaríkjadollar 98.56 kr. Þetta er hið nýja stofngengi, sem Seðlabankinn með samþykki ríkisstj. hefur tilkynnt. Skv. þeim reglum, sem eru í gildi í dag, hefði Seðlabankinn heimild til þess að ákveða í fyrramálið, ef engin lagabreyting hefði verið gerð, gengið lægst kr. 97.65 og hæst kr. 99.40. Ef hins vegar þessi breyting verður samþykkt, hefur Seðlabankinn heimild til þess að ákveða gengið frá kr. 96.34 og upp í kr. 100.78 fyrir Bandaríkjadollar. Nú er gengið á Bandaríkjadollar — eða var, áður en síðasta ákvörðun var tekin, 88.00 Sú breyting sem gerð hefur verið á stofngenginu, nemur 10.7% lækkun á kr., sem jafngildir tæplega 13% hækkun á verði Bandaríkjadollars. Ef þessi breyting yrði samþykkt, hefði Seðlabankinn heimild til þess að hækka verð á Bandaríkjadollar án samþykkis ríkisstj. upp í 100.78 kr., eins og ég sagði áðan, eða hækka verð á Bandaríkjadollar um 14.5%. Ef Seðlabankinn, eins og flestir munu hafa reiknað með, fylgdi breytingu á stofngenginu, mundi dollar, þegar gjaldeyrisviðskiptin hefjast aftur, hafa hækkað um tæplega 13%. En skv. 3. gr. frv. á Seðlabankinn að hafa það einn á valdi sínu að hækka dollarann um 14.5%, um 11/2%–2% meira en gildandi tilkynning um breytingu á stofngengi gefur til kynna.

Það hefur verið upplýst, enda kunnugt þeim, sem fylgjast með þessum málum, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur heimilað löndum, sem eru aðilar að honum, að víkja um þetta bil frá ákveðnu stofngengi, 21/4% í hvora átt um sig, og flestir aðilar að gjaldeyrissjóðnum hafa gert ráðstafanir til þess, að Seðlabankinn geti án þess að þurfa að spyrja gjaldeyrissjóðinn, lækkað eða hækkað sitt gengi innan þessara marka, þ.e. um 41%. Sérstaklega hefur þetta þýðingu fyrir þau lönd, sem hafa svokallað fljótandi gengi, þ.e.a.s. þar sem gengisákvörðunin á erlendum gjaldeyri er látin vera háð framboði og eftirspurn, eins og á sér stað um margar helztu gjaldeyristegundir, sem notaðar eru í heimsviðskiptunum. Það hefur hins vegar aldrei komið til mála, að hér yrði tekið upp kerfi fljótandi gengis, því að það vita allir, að hér kemur ekki til mála að láta framboð og eftirspurn eftir dollurum, pundum eða þýzkum mörkum eða nokkurri annarri mynt ráða því, hvernig gengið yrði skráð. Hér hefur engum dottið annað í hug en að Seðlabankinn skrái gengið og ákveði fast gengi, sem gildi meðan ákvörðun stendur óbreytt. Það, sem hér er um að ræða, er þess vegna, að 3. gr. gerir ráð fyrir því, að seðlabankastjórninni sé fengið vald til gengisbreytingar, sem nemur 41/2% upp og niður, ekki vegna þess, hvernig framboð og eftirspurn eftir gjaldeyri hefur breytzt, heldur vegna mats seðlabankastjórnarinnar á ástandi gjaldeyrismálanna. Það er alger misskilningur að blanda því, sem hér er um að ræða, saman við ákvörðun t.d. brezku stjórnarinnar, sem hefur gengið fljótandi, og ákvarðanir ýmissa annarra stjórna, sem hafa tekið þá ákvörðun að láta gengið fljóta innan vissra marka eftir markaðsaðstæðum. Hér er ekki um það að ræða, heldur er hér verið að fá Seðlabankanum vald, sem hann hingað til hefur ekki haft, til meira en helmingi meiri gengisbreytinga án samráðs við ríkisstj. en hann hefur hingað til haft.

Ef um væri að ræða eðlilegt og venjulegt ástand í gjaldeyrismálum og gengismálum, er það skoðun mín, að vel gæti komið til mála að auka heimild til Seðlabankans frá því, sem verið hefur í þessum efnum. En þá ætti það að bera að með eðlilegum hætti, ræðast og athugast rækilega og bera að með þeim hætti, að seðlabankal. sjálfum væri hreytt. Það má færa ýmis rök fyrir því, að eðlilegt sé, að Seðlabankinn hafi meira svigrúm en hann hefur haft, þótt að vísu megi einnig færa ýmis rök gegn því. Þetta mál hefði Alþingi þurft að athuga með eðlilegum og venjulegum hætti og taka síðan ákvörðun með hugsanlegri breytingu á seðlabankal. Nú er hins vegar ekki venjulegt ástand í gjaldeyris- og gengismálum. Það er nýbúið að taka ákvörðun um 10.7% lækkun á stofngengi ísl. kr., um tæplega 13% hækkun á verðmæti dollars. Það er kunnara en frá þurfi að segja, og ég skal ekki ítreka það hér, að þessi ráðstöfun er mjög umdeild. Það er skoðun mjög margra aðila viðskiptalífsins, að þessi ráðstöfun leysi ekki þann vanda, sem við er að etja, þannig að margir telja miklar og alvarlegar blikur vera á lofti í gjaldeyris- og gengismálum og að mikil óvissa sé fram undan. En allir vita, að í sambandi við gengisbreytingar er enginn hlutur varhugaverðari en óvissa um það, hvað framtíðin beri í skauti sínu. Eitt frumskilyrði þess, að gengisbreyting geti tekizt, er einmitt það, að hún sé þannig og sé framkvæmd þannig, að traust skapist á gjaldmiðlinum. Ástæður gengisbreytinganna eru venjulega þær, að óvissa hefur skapazt um gjaldmiðilinn, hann hefur notið minnkandi trausts með öllum þeim alvarlegu afleiðingum, sem minnkandi traust á gjaldmiðli hlýtur jafnan að hafa í för með sér. Ef gerð er gengisbreyting eins og þessi, sem ekki tekst að skapa traust, þá er það mjög miður farið. En er ekki alveg augljóst mál, að ef Seðlabankinn hefur heimild til gengisbreytingar, sem er verulega umfram þá stofngengisbreytingu, sem þegar er búið að taka ákvörðun um og tilkynna, og menn fara að óttast, að Seðlahankinn muni nota sér þá heimild til viðbótargengislækkunar, sem í ákvæðum 3. gr. felst, þá hlýtur það að auka á óvissu um framtíðina, þá hlýtur það að torvelda, að nauðsynlegt traust skapist á gildi krónunnar, á gengi gjaldmiðilsins, með öllum þeim alvarlegu afleiðingum, sem slíkt hlýtur að hafa í för með sér.

Tíminn til þess að veita Seðlabankanum þessar auknu heimildir er vægast sagt eins óheppilega valinn og hugsazt getur. Er með þessu ekki felldur dómur um það, hvað eðlilegt væri við eðlilegar kringumstæður, heldur er aðeins verið að undirstrika, að á þeim óvissu rímum, sem nú eru, er nauðsynlegt, að sú ákvörðun, sem tekin er, sé til þess fallin að skapa traust, en ekki til þess að auka vantraust, til þess að efla vissu manna um það hvað framtíðin ber í skauti sínu, en ekki til að auka á óvissu manna um það efni. Af þessum sökum teljum við þm. Alþfl. mjög misráðið af Seðlabankanum að fara fram á þessar auknu heimildir. Þess vegna er það afstaða okkar Alþfl: manna að vera andvígir þessari grein, og við munum greiða atkv. gegn henni.

Mig langar í þessu sambandi til þess að bæta við örfáum athugasemdum. Ég skal ekki lengja þessar umræður, en örfáum atriðum langar mig til þess að bæta við í framhaldi af þeim tveim fundum í fjh: og viðskn., sem haldnir hafa verið í dag. Ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á því, og leggja á það áherzlu, að engir útreikningar virðast vera til af hálfu sérfræðinga ríkisvaldsins á því, hvaða áhrif þær ráðstafanir, sem nú er búið að taka ákvörðun um, 13% hækkun á gengi dollarsins, hafi á afkomu sjávarútvegsins né heldur á verðlag innflutnings eða á framfærslukostnaðarvísitölu og kaupgjaldsvísitölu. Þetta ber allt saman vott um það, sem raunar hv. þm. hafa vitað, að þessi ákvörðun er tekin fyrir skömmu og hún er hrein málamiðlun milli gerólíka sjónarmiða í ríkisstj. Sérfræðingar ríkisstj. hafa aldrei reiknað með því, að til slíkrar ráðstöfunar mundi verða gripið, og hafa því alls ekki búið sig undir það að geta svarað því, hvaða áhrif þessi ráðstöfun raunverulega komi til með að hafa. Enda þótt færir séu og vanir reikningsmenn og ábyggilegir, þá gátu sérfræðingarnir ekki upplýst fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. um það, að hversu miklu leyti þessi ráðstöfun bætti hag útflutningsatvinnuveganna, né heldur hvaða áhrif líklegt væri, að hún kæmi til með að hafa á innflutning og þróun kaupgjaldsvísitölu í landinu.

Ég vek athygli á þessu til þess að undirstrika það, sem ég hef raunar haldið fram áður og er sannfærður um, að er rétt, að þessi ákvörðun er tekin sem málamiðlunarákvörðun í skyndingu, í mikillí skyndingu, án þess í raun og veru að nokkur maður viti, hvort þessi ráðstöfun nær tilætluðum árangri eða ekki. Fyrst sérfræðingarnir vita það ekki á þessum drottins degi, þá veit ríkisstj. það ábyggilega ekki heldur.

Það kom fram hjá sérfræðingunum, og það er sjálfsagt að því sé skilað áfram til hins háa Alþingis, að verðlag erlendis er nú nokkru hagstæðara en þeir höfðu sem forsendu, þegar þeir sömdu hið merka álit sitt um hina 3 valkosti, sem öllum þm. er kunnugt. Hins vegar gerðu þeir þá ráð fyrir miklu minni breytingum á kaupgjaldi og framfærslukostnaði en augljóst er, að nú munu eiga sér stað, og vegur þetta miklu meira í neikvæða átt fyrir atvinnuvegina en hitt, að verðlag er nú nokkru hærra, sérstaklega á Bandaríkjamarkaði, heldur en þeir höfðu gert ráð fyrir, þegar þeir sömdu nál. sitt. Þegar þeir voru að því spurðir, hvert mat þeirra væri á því, hvort þessar ráðstafanir dygðu til þess að eyða halla útflutningsatvinnuveganna, svöruðu þeir, eins og við var að búast, með þeirri staðhæfingu, að það hlyti að vera algjörlega komið undir því, hver yrði þróun framleiðslukostnaðar í landinu. Þeir sögðust hafa reiknað með því, þegar nál. var samið, að kaupgjald mundi breytast á næsta ári um sem næst 5 vísitölustig. Það væri sú forsenda, sem þeir hefðu reiknað með, og þess vegna höfðu þeir talið þá gengislækkun, sem þar er um að ræða, — þá millifærslu, sem um er að ræða, geta tryggt hallalausan rekstur atvinnuveganna á næsta ári. En nú vitum við, að engin þessara þriggja leiða var valin. Það er gengið skemmra í tilfærslu til útflutningsatvinnuveganna en þeir gera ráð fyrir í sínum þrem leiðum, þ.e.a.s. útflutningsatvinnuvegirnir fá minna í sinn hlut skv. þessum ráðstöfunum en þeir höfðu gert ráð fyrir, að nauðsynlegt væri. Á móti kemur á hinn bóginn það, að verðlagið er heldur hagstæðara í dag en það var, þegar þeir sömdu skýrsluna. Aftur á móti kemur hitt, sem vegur miklu þyngra, að þróun framleiðslukostnaðarins á næsta ári verður áreiðanlega útflutningsatvinnuvegunum miklu óhagstæðari en þeir höfðu reiknað með, þegar þeir sömdu nál. sitt.

Fjh.- og viðskn. fékk áætlun sérfræðinga ríkisstj. um það, hver muni verða þróun kaupgjaldsvísitölu, þ.e.a.s. þess kaupgjalds á næsta ári, sem útflutningsatvinnuvegirnir verða líklega að standa undir, verða líklega að greiða. Ég held, að það sé rétt, að hv. þd. og þar með þjóðinni allri verði skýrt frá því, hvert er mat sérfræðinganna á breytingum á veigamesta hluta framleiðslukostnaðar, sem sé kaupgjaldinu, á næsta ári, og er miðað við það, að engar breytingar verði gerðar á gildandi kjarasamningum. En það er sú opinbera stefna, sem ríkisstj. hefur lýst yfir, að stjórnin muni fylgja, að raska ekki kjarasamningunum, a.m.k. ekki nema í samráði við launþegasamtökin sjálf. Nú er kaupgjaldsvísitala 117 stig. Sérfræðingarnir reikna með því, að 1. marz n.k. hafi hún hækkað upp í 122 stig, 1. júní n.k. hafi hún hækkað upp í 126 stig, 1. sept. n. k. muni hún hafa hækkað upp í 123 stig og 1. des. n.k., eftir eitt ár, eftir 12 mánuði, muni hún hafa hækkað upp í 131 stig, m.ö.o. að á næstu 12 mánuðum muni kaupgjald í landinu skv. kaupgjaldsvísitölu hækka um 12%.

Hér er auðvitað um að ræða spádóm um mjög alvarlega þróun. Hér er um að ræða meira en helmingi meiri hækkun á framleiðslukostnaði að því er kaupgjald snertir heldur en sérfræðingarnir reikna með í áliti sínu, að útflutningsatvinnuvegirnir muni þola. Þeir reiknuðu með því, að þeir mundu þola 5 stiga hækkun, en nú spá þeir, þegar þeir reikna saman áhrif gengisbreytingarinnar og önnur verðhækkunaráhrif, sem þeir þykjast sjá fyrir, að kaupgjald muni á næsta ári hækka um hvorki meira né mínna en 12%. Ég undirstrika, að þetta er meira en helmingi meiri hækkun en valkostanefndin segir, að útflutningsatvinnuvegirnir geti þolað. M.ö.o.: það verður ekki nema hálft ár liðið, þangað til þeim mörkum er náð, sem valkostan. telur útflutningsatvinnuvegina geta þolað. Það er hægt að komast yfir næstu 6 mánuði, en á 6 mánuðum, sem fylgja þar á eftir, mun framleiðslukostnaðaraukningin vera orðin svo mikil, að það ofbjóði gjaldþoli útflutningsatvinnuveganna. Þetta þýðir í raun og veru, svo að mælt mál sé talað, að sú gengislækkun, sem nú hefur verið tekin ákvörðun um, dugir fram á mitt næsta ár, hún dugir fram á mitt næsta sumar. Þegar sá tími er kominn, dugir hún ekki lengur, þá er útflutningsatvinnuvegirnir aftur komnir í sömu vandræðin og þeir voru staddir í, þegar ákvörðun um gengisbreytinguna var tekin. Hér er um hað að ræða að bjarga þjóðarbúinu áfram í hálft ár, í hæsta lagi í 9 mánuði, þá springur blaðran aftur, og þá þarf aftur að grípa til einhverra ráðstafana, hvort sem það yrði viðbótargengisfelling eða uppbótaleið eða eitthvað annað.

Auðvitað er þetta hörmulegur spádómur um það, sem í vændum er fyrir íslenzka útflutningsatvinnuvegi og fyrir íslenzkt efnahagslíf yfirleitt. En við hverju var í raun og veru að búast? Sú ráðstöfun, sem gripið hefur verið til, var ekki í samræmi við neina ábendingu sérfræðinga ríkisstj. Enginn flokkur í ríkisstj. tók undir neina af þeim 3 leiðum, sem hagfræðingarnir bentu á, að mundu duga til þess að leysa vandann. Hver flokkur kom með sína tillögu: Einn flokkurinn um uppbótakerfi fjármagnað með mikilli hækkun söluskatts auk niðurfellingar vissra vísitölustiga, annar flokkurinn mælti líka með uppbótakerfi, en fjármagnað með lítilli hækkun söluskatts og innflutningsgjaldi auk einhverra breytinga á vísitölugrundvellinum, þriðji flokkurinn um mikla gengisbreytingu, þ.e.a.s. 16% gengisbreytingu. Niðurstaðan er svo eins konar málamiðlun milli þessara leiða með þeim höfuðókosti málamiðlana að ná ekki því markmiði, sem þeim er sett. Gengislækkunin er höfð miklu minni en gengislækkunarflokkurinn hafði lagt til, og auk þess ekki gerðar neinar þær hliðarráðstafanir, sem sérfræðingarnir bentu á, að væru alveg nauðlegar, ef vænta ætti góðs árangurs af þessum ráðstöfunum. Þegar þannig er staðið að málum, þarf í raun og veru enginn að vera hissa á því, að niðurstaðan verði þessi, eins og dómur sérfræðinganna er nú fallinn um, að ráðstöfunin dugi í hálft ár, í hæsta lagi 9 mánuði. Þá verður komið sama öngþveitið og hefur ríkt undanfarnar vikur og undanfarna mánuði.

Þá að hæstv. ríkisstj. hafi komist yfir þá kreppu, sem hún lenti í að þessu sinni, dreg ég mjög í efa, að hún komist yfir aðra kreppu, sem hún kemur til með að standa andspænis eftir 6–9 mánuði. Ástæðan til þess, að hún komst yfir þessa kreppu, hefur einfaldlega verið sú, að gengislækkunarboðskapurinn frá frjálslyndum kom svo skyndilega, hann kom framsóknarmönnum og Alþb.-mönnum í svo opna skjöldu, að þeir töldu sig ekki hafa efni á því að kveðja stólana með jafnlitlum fyrirvara og hefði þurft að eiga sér stað, ef frjálslyndir hefðu farið úr ríkisstj., vegna þess að þeirra hugmyndir hefðu ekki verið samþykktar. En það hef ég fyrir satt, að svo mikill sannfæringarkraftur hafi staðið á bak við 16% gengislækkunartill. SF, að ráðh. þeirra hefðu verið reiðubúnir að kveðja ráðherrastólana og ríkisstj.. ef till. þeirra hefði algerlega verið hafnað. Þetta hef ég fyrir satt, og er það raunar ekkert ólíkt foringja SF að sýna þann kjark að leggja stólinn við, ef hann telur réttan málstað í húfi. Ég trúi því, að ef gengislækkunarleið SF hefði algerlega verið hafnað og Framsfl. og Alþb. ætlaði sér að heita meirihlutavaldi til að knýja fram upphótaleiðina, þá hefðu ráðh. SF kvatt þetta kompaní, sem þeir hafa verið í undanfarið. Þetta er svo mikill sannleikur, að jafnvel Framsfl. og Alþb. fóru að trúa þessu. Og það var auðvitað ástæðan til þess, að þeir kyngdu gengislækkunarleiðinni þrátt fyrir sínar till. um að fara uppbótaleiðina. Þeir voru vissir um það, að Hannibal Valdimarsson meinti það, sem hann sagði, að ef haldið yrði út á þá ófærubraut, sem ég er honum algerlega sammála um, að uppbótaleiðin ar, ef haldið hefði verið út í þá ófæru, sem sú leið er, þá ætlaði hann að kveðja, og ég hefði óskað honum til hamingju með það að kveðja undir þeim kringumstæðum. Þetta skildu meira að segja ráðh. Framsfl. og Alþb., þó að þeim væri það þvert um geð. Þeir þekkja Hannibal Valdimarsson kannske ekki eins vel og ég, en þekkja hann nógu vel til þess að vita, að við þessi orð sín hefði hann áreiðanlega staðið. Þá uppgötvuðu þeir þann augljósa sannleik, að það er ekki þægilegt að láta reka sig úr ráðherrastólunum með 10 daga fyrirvara. Það var eftir að gera ýmislegt. (Gripið fram í.) Ekki með 10 daga fyrirvara. Þeir höfðu ýmsar áætlanir á prjónunum, sem þeir hefðu gjarnan viljað fá tækifæri til þess að koma í framkvæmd. M.ö.o.: fresturinn, sem Hannibal og hans félagi og hans flokkur setti, var of stuttur fyrir hæstv. ráðh. Framsfl. og hæstv. ráðh. Alþb. (Gripið fram í.) Þarna er talað um nokkuð, sem var okkur tveimur sameiginlegt 1958. Ég er ekki búinn að gleyma þeim atvikum öllum saman og skal gjarnan einhvern tíma segja þá sögu, löngu áður en ég kem til með að skrifa mínar endurminningar, sem ég geri líklega aldrei. Ég vil ekki lengja þessar umr. með því að tala um þetta, ég er hræddur um, að það yrði allt of spennandi. (Gripið fram í.) En við höfum nógan tíma til að tala saman um það síðar. Hinn skyndilegi gengislækkunarboðskapur SF var settur fram með þeim alvöruþunga, að ef ekki yrði gengið að honum í meginatriðum, þá væru ráðh. SF farnir og ríkisstj. fallin með lágmarksfresti, og því voru menn ekki tilbúnir til þess að taka. Þess vegna var farið að leita að málamiðlun, og hún fannst í þeim ráðstöfunum, sem hér er um að ræða og hafa, eins og ég sagði áðan, þau einkenni málamiðlunar að koma til með að duga í 6–9 mánuði og lengur ekki.

En síðustu orð mín skulu vera þau að láta í ljós þá skoðun, að á þeirri kreppu, sem kemur upp eftir 6–9 mánuði, muni þessir stjórnarflokkar ekki sigrast, af því að nú er sú vitneskja komin í brjóstið á þeim, að þetta er allt saman byggt á sandi. Nú fara þeir að búa sig undir það að kveðja hver annan. Og ég spái því, að meginatriðið í pólitíkinni næstu 6–9 mánuði verði það, að nú vita þeir, hvar Davíð keypti ölið. Þess vegna munu þeir nú leggja áherzlu á það að vera viðbúnir næst og láta ekki Hannibal Valdimarsson og félaga hans koma sér jafnmikið í opna skjöldu og þeim tókst að gera í þetta skiptið. Ég hef tilhneigingu til að líta þannig á, að þessar ráðstafanir og þetta frv. sé í raun og veru eins konar útfarartilkynning um stjórnarsamstarfið. En hún er tilkynnt með óvenjulega löngum fyrirvara eða 6–9 mánaða fyrirvara. Það er ekki venjan að tilkynna jarðarfarir með svona löngum fyrirvara. En það er margt undarlegt í þessu stjórnarsamstarfi, og hér hefur útförin verið tilkynnt með 6–9 mánaða fyrirvara.