19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég heyrði fyrir nokkrum mínútum síðan þau orð höfð eftir hæstv. forsrh., að nú skipuðu þm. Sjálfstfl. sér á bekk mælenda til þess að tala fyrir Morgunblaðið. Nú veit ég, að það á enginn hv. þm. betri aðgang að Morgunblaðinu en einmitt hæstv. forsrh., enda er óspart vitnað í hann þar dag eftir dag, hans ummæli og reyndar gerðir líka, sem ekki er nema eðlilegt, þegar þess er gætt, að hann er forystumaður í þeirri sveit, sem telst gera ríkisstj. Íslands í dag.

Hér hefur verið mikið rætt um einstaka liði þessi frv., sem hér er til umr., og að sjálfsögðu kom inn í þær umr. gengisfellingin sú hin síðasta, sem núv. ríkisstj. hefur látið frá sér fara. En á því tímabili, sem hún hefur setið við völd, hefur gengið verið fellt, eins og kom hér fram í ræðu í gærkvöld, yfir 20%, og hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. Þýðir í því sambandi ekkert fyrir stuðningsmenn ríkisstj. eða hæstv. ráðh. að benda á ákveðnar gengisfellingar í tíð fyrrv. ríkisstj., hvorki þá hina fyrstu, þegar verið var að staðfesta það, sem þegar var skeð í tíð fyrrv. vinstri stjórnar, eða það, sem varð að ske vegna stórkostlegra erfiðleika íslenzku þjóðarinnar bæði í sambandi við aflabrest og í sambandi við stórkostlegt verðfall afurða okkar á erlendum mörkuðum. Því er ekki til að dreifa núna, og má til sanns vegar færa, að það séu ekki ósvipuð viðhorf nú og voru á sínum tíma í tíð fyrrv. vinstri stjórnar þann stutta skammartíma, sem hún stóð og réð hér á landi til óþurftar íslenzku þjóðinni og hrökklaðist auðvitað frá með þeim „heiðri“, sem henni bar. En í hennar stjórnartíð var einmitt eitt mesta góðæri, sem hefur komið í okkar sögu, eins og einmitt hefur verið í tíð þessarar ríkisstj. nú. Það hefur komið fram hjá hæstv. forsrh. í sambandi við furðuleg ummæli frá honum um fyrri gengisfellingaryfirlýsingar hans og hæstv. ráðh. reyndar líka, að það hefði ekki þurft neina gengisfellingu til vegna þeirra ráðstafana, sem þurfti að gera um haustið, eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, vegna vissulega nokkurs vanda, sem þá var við að glíma. Þess vegna þurfti enga gengisfellingu, en hins vegar þarf núna stórkostlega gengisfellingu til viðbótar ofan á það fall íslenzku krónunnar, sem hefur orðið í stjórnartið þessarar ríkisstj. Og þar eru eingöngu verk ríkisstj. sjálfrar og stuðningsflokka hennar. Það er verið að reyna að bjarga sér frá þeim vandamálum, sem hafa skapazt vegna þeirrar stjórnunar, sem hún hefur sýnt á þessum tíma.

Eins og ég tók fram áðan, hefur nokkuð verið rætt um frv. sjálft og einstakar gr. þess. Og sannleikurinn er auðvitað sá, að þeir, sem hafa setið hér á Alþingi um nokkurra ára skeið, munu kannast við orðalag margra þessara gr., enda gæti ekki farið hjá því. Hins vegar er eins og hér hefur verið bent á, nýtt ákvæði í þessu frv., en það er 3. gr. frv., sem er þess efnis, að til viðbótar þeirri gengisfellingu, sem hæstv. ríkisstj. hefur þegar framkvæmt, á hún að fá til viðbótar heimild til þess að auka við hana. Og enginn skal láta sig dreyma um annað en að áður en þinghléi lýkur, verði hæstv. ríkisstj. búin að teygja það, sem togað verður út úr þessari heimild ef samþykkt verður.

Í núgildandi lögum um Seðlabankann er heimild til 1% fráviks til hvorrar áttar frá stofngengi. En í 3. gr. þessa frv. á að gefa heimild til þess, að þetta frávik verði aukið í 2.25%. Eins og segir í nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn,, sem hv. 7. þm. Reykv. mælti hér fyrir áðan, kemur fram, með leyfi hæstv. forseta, að það hafi verið tilkynnt, „að nýtt stofngengi krónunnar verði 98.56 kr. miðað við einn Bandaríkjadollar. Samkv. gildandi ákvæðum seðlabankal. gæti Seðlabankinn ákveðið gengið frá 97.60 kr. til 99.40 kr. Ef þessi nýju ákvæði verða samþykkt, getur Seðlabankinu ákveðið gengið frá 96.34 kr. til 100.78 kr.“ Það felst sem sagt í 3. gr. þessa frv. heimild til þess að hækka gengi Bandaríkjadollars um 14–15% í staðinn fyrir hækkunina tæp 13%, sem er afleiðing 10.7% gengislækkunar á krónunni. Á þetta hefur verið bent af öðrum ræðumönnum hér á undan, og ég skal ekki fara að teygja lopann við að fara ítarlega út í það.

En það, sem ekki hefur komið fram að neinu marki í þessum umr., að mér finnst, er það, sem koma skal. Hér hafa komið yfirlýsingar frá hæstv. ráðh. um, að þessar aðgerðir hafi ekki nein áhrif á kaup- og kjarasamninga íslenzkra launþega. Þetta er auðvitað eins og margt annað, sem þessir hv. herrar hafa sagt, alrangt. Á miðstjórnarfundi í Alþýðusambandi Íslands í gær benti ég á það, sem auðvitað öllum má vera ljóst, en það er, að ákaflega stórir hópar einstaklinga í okkar þjóðfélagi taka laun að stórum hluta í erlendum gjaldeyri. Og meðan ég sé ekki koma fram frv. frá hæstv. ríkisstj. þess efnis, að þessum aðilum verði þar um bætt, þá er auðvitað verið að skerða laun þessara aðila. Að vísu er í þeirra samningum ákvæði um, að þeir geti sagt þeim upp, þegar gengið er fellt. Þegar það er haft í huga, að stærsti hópur þessara aðila verður fyrir því nú í annað sinn á tveimur missirum að verða fyrir höggi frá þessari hæstv. ríkisstj., „ármönnum alþýðunnar“ á Íslandi, sem áttu að hlífa alþýðumanninum, en þeir hjuggu í fyrsta skipti nokkrum vikum eftir að gengið hafði verið til samninga við farmenn eða undirmenn á farskipum. Þá voru þeir sviptir fríðindum, sem þeir höfðu öðlazt á mörgum árum við sína samninga og tilheyrðu þeirra kjörum. Þeir voru sviptir þessu, þegar hin illa umtöluðu, margumræddu lög, skattlög ríkisstj., voru afgreidd héðan frá Alþ. Nú er aftur vegið í þennan sama knérunn. Það er vegið aftur að þessum mönnum, og ég efast um, hafandi í huga þær undirtektir, sem tveir af hæstv. ráðh. fengu hjá fulltrúum þessara manna, þegar þeir voru kallaðir til þeirra, þegar þeir áttu í sínu verkfalli, og átti að reyna að pynta þá til samninga með hótunum, að þeir verði mjög blíðir á manninn nú, þegar á að sýna þeim slíkt aftur. Auðvitað er þetta undir þeim sjálfum komið, og það eru þeir sjálfir og þeirra stéttarfélög, sem taka ákvörðun um aðgerðir vegna þessa. Og það eru auðvitað fleiri aðilar en sjómenn, sem hlut eiga að máli. Það er flugfólkið, sem þarna á í hlut, og margir aðrir aðilar, sem allir verða auðvitað að segja sína skoðun á þessari árás. Það er auðvitað útilokað, bæði fyrir þá og aðra launþega, að játa og viðurkenna þá skoðun hæstv. ráðh., að það sé ekki um neina kjaraskerðingu að ræða samfara þessu frv. Það er auðvitað alveg út í hött, eins og svo margt annað, sem hefur komið bæði frá hæstv. forsrh. og öðrum ráðh. Þar fyrir utan verður auðvitað að draga enn fram þá staðreynd, að hvorki íslenzkir launþegar né íslenzka þjóðin í heild hefur nokkra trú á því, að með þessari gengisfellingu sé verið að styrkja grundvöll íslenzku krónunnar. Það vita allir, að það, sem hér er verið að gera, er til að skapa undirbúningstíma fyrir hæstv. ráðh. að hlaupa af hólminum á miðju ári, eins og hv. 7. þm. Reykv. benti réttilega á. Þeir hafa þetta frá 6 til 9 mánaða meðgöngutíma til að búa sig undir þetta, og það er sá frestur, sem þeir eru að skapa sér.

Hér var talað um á sínum tíma guðföður þessarar ríkisstj. Það væri gaman að vita, hver teldist barnsfaðir þessa frv. og þessara aðgerða. Það hefur komið á daginn, að það mun ekki vera efnahagssérfræðingurinn úr Selárdal, hæstv. félmrh. Ráðh. Alþb. sverja það af sér, að þeir eigi þennan króga, þeir hafi verið með allt öðrum aðgerðum. Við vitum náttúrlega með hæstv. ráðh. flokksins, sem opinn er í báða enda, þeir hljóta auðvitað að hafa verið með þeim, sem betur bauð hverju sinni, enda sér maður útkomuna. Það er þessi óskapnaður, sem hefur enga tiltrú hjá þjóðinni, ekkert fylgir með, engar upplýsingar til þjóðarinnar, launþeganna, hvernig eigi að mæta sýnilegum vandamálum, sem upp hljóta að koma í sambandi við lækkun krónunnar. Við vitum, að 31. des. falla úr gildi lög um tímabundnar efnahagsráðstafanir. Það kom aðeins hér upp í umr. í gær, að þá munu og falla í burtu ákvæði, sem höfðu áhrif á lög um verðlagsnefnd. Það voru ákvæði um neitunarvald einstakra nm. í þeirri n. þegar þessi lög voru til umr. á sínum tíma, voru það einmitt þm. Sjálfstfl., sem bentu á og aðvöruðu, eins og endurtekið var í umr. í gær, að þetta ákvæði væri algerlega óraunhæft og gæti ekki staðizt til lengdar. Það kom fram í svari hæstv. viðskrh. hér í gær, að það hafa engar óskir komið fram frá hlutaðeigandi aðilum um, að þessi ákvæði yrðu framlengd, sem eðlilegt er, hafandi t.d. í huga, hvernig einstakir aðilar, hvort sem það er vegna óvildar ríkisstj. í garð ákveðinna stétta, hópa, framleiðenda eða annarra, að þeir í n. skuli bara með því að setja á sig hundshaus og ekki svara, hvorki jái né nei, geta fellt sanngjörn og góð mál þessara aðila. Bendi ég þar m.a. á það furðulega, sem skeð hefur í sambandi við leigubifreiðastjórastéttina hér í borg og þeirra félagsskap, sem að vísu nær víðar um land, hvernig með þá hefur verið farið af þessari n. nú undanfarna mánuði, og er það náttúrlega sérstök saga út af fyrir sig, sem hæstv. ráðh. Framsfl. þekkja betur en nokkrir aðrir, a.m.k. í framhaldi af úrsögnum úr Framsfl., sem þeir hafa orðið varir við frá mönnum í þessari stétt vegna þessa máls.

En það er vissulega meira, sem þessi lög kváðu á um. Það eru ákvæði um auknar fjölskyldubætur og stórkostlegar niðurgreiðslur, og það var líka kveðið þar á um önnur atriði. M.a. var frestað ákvörðun um nýjan útreikning á grundvelli búvöruverðs. Nú liggur ekkert fyrir um það í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um gengisfellinguna, hvort ríkisstj. hyggst framlengja enn um sinn þann frest, sem hún hefur verið að gefa sér allt til þessa. En allt hennar starf, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, hefur til þessa verið að framlengja fresti, bæta fresti ofan á frest. Þetta eru sömu mennirnir og ætluðu í eitt skipti fyrir öll að ráða bót á öllum efnahagsvandamálum íslendinga, og því lofuðu þeir kjósendum. En það auðvitað er eins og annað, sem þeir lofuðu, tóm svik. Þeir lofuðu fleiru. Þeir lofuðu því að fara aldrei gengisfellingaleiðina. Þeir hafa svikið það, eins og berlega sést nú. Þeir lofuðu líka íslenzkum fiskimönnum því, að allur vandi væri leystur, ef bara landhelgin yrði færð út í 50 mílur 1. sept. s.l. Hvað hefur skeð? Nákvæmlega ekki neitt. Við stöndum í nákvæmlega sömu sporum og við stóðum áður hér innanlands. Landhelgin er jafnóvarin, útlendingar eiga jafngreiðan aðgang að henni, engin teljandi friðun hefur orðið á okkar veiðisvæðum. Það hefur ekkert skeð. Jú, vissulega skeði í gegnum þessi tvö aðalkosningaloforð núv. stjórnarflokka, að þeir komust í stjórnarstólana. Þeir komust það með loforðum, sem þeir hafa þegar verið staðnir að því að hafa svikið.

Það eru líka ákvæði í þessum lögum, sem ég var að minnast á, um tímabundnar efnahagsráðstafanir, — ákvæði um það samkv. skilningi íslenzkrar verkalýðshreyfingar, að kaupgreiðsluvísitala eigi að hækka um 21/2 stig 1. jan. n.k. Nú langar mig til þess að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvort nokkrir tilburðir séu til þess hjá hæstv. ráðh., að þessi greiðsla komi ekki til framkvæmda á þeim degi, sem skilningur er fyrir um hjá allri verkalýðshreyfingunni. Eru nokkrir tilburðir um, að það verði farið í einhver verzlunarviðskipti við framleiðendur eða aðra, kannske ríkisstj. sjálfa sem þriðja aðila, til þess að þetta komi ekki til framkvæmdar Persónulega tel ég og hef reyndar sagt á fundi fyrir skömmu, og það viðurkenna auðvitað allir, sem vilja réttsýnt horfa á, að það eru vandamál í okkar efnahagsbúskap. Ég held, að svo sé, þótt okkur greini á við stjórnarflokkana sjálfa um það, af hvers völdum eða hvernig standi á þessum vandamálum. Ég held, að við í stjórnarandstöðunni, báðir flokkar þar, séum sammála um, að það er af heimatilbúnum völdum. Okkur getur svo greint lengi á um það, hvort það sé af þessari ástæðunni eða hinni, en við vitum það og viðurkennum, að það þurfi að ráða bót á þessu. Sú leið hefur verið valin, sem valin hefur verið, en það vantar það, sem við á að etja, eins og ég tók fram áðan. Og þar í liggur meinið hjá núv. hæstv. ríkisstj., að það er ekki komið fram hjá henni enn þá og þeir hafa ekki gefið neinar yfirlýsingar um það eða neina lýsingu á því, hvað eigi að fylgja gengislækkuninni, sem þeir hafa valið. Þess vegna hlýtur auðvitað að vera þýðingarmikið fyrir launþega íslenzka að fá að vita nú þegar: Koma þessi 21/2 stig ekki til greiðslu, eins og þeir reikna með, þann 1. jan.? Hefur máske þegar verið samið um, að þau falli niður vegna einhverra ráðstafana, sem hæstv. ríkisstj. hyggst gera, væntanlega í samráði við stuðningsmenn sína innan verkalýðshreyfingarinnar, og þá fyrst, ef svo væri, hvort Alþ. bæri ekki að fá að vita þar um? Ég er ekki með þessu að segja, að það geti ekki komið til greina samkomulag um eitt og annað til þess að leysa vandann, og ég hef ekki vitað það nú um langt árabil. að forustumenn íslenzkrar verkalýðshreyfingar væru ekki reiðubúnir til þess að ræða um lausn á vanda, sem væri fyrir hendi, og þá ekki farið eftir pólitískum línum, heldur fyrst og fremst eftir hagsmunum þeirra umbjóðenda, sem þeir fara með mál fyrir. Þetta þekkjum við t.d. frá erfiðleikaárunum 1967 og 1968. En ég held hins vegar, að íslenzk alþýða hafi þá vel skilið erfiðleikana, sem steðjuðu að, og það hafi þess vegna gengið öllu betur að ná samkomulagi við forustumenn þeirrar sveitar heldur en kannske mundi gerast nú, vegna þess að íslenzk alþýða veit, að hér er um heimatilbúinn vanda að ræða, — heimatilbúinn vanda, sem kannske fyrst og fremst er vegna óstjórnar, vanstjórnar, vanþekkingar og vegna þess að þeir menn, sem hafa verið valdir til að fara með málin, eru ekki menn til þess að standa undir þeim.