19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Við 2. umr. málsins beindi ég þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvort í ætlun hæstv. ríkisstj. væri nokkuð það, sem benti til, að hafa ætti af launþegum, í einu eða öðru formi þau 2.5 vísitölustig, sem þeim ber að fá 1. jan. n.k. Ég vil líka gjarnan koma að annarri spurningu til hæstv. forsrh., áður en mál þetta fer héðan úr d.: Er það rétt, að þeir aðilar, sem hafa með útreikning vísitölunnar að gera, telji sig ekki geta lögum samkv. ákveðið eða reiknað út vísitölu kaupgjalds fyrir þá tvo mánuði, sem á vantar tímabilið, sem er á milli þeirra tímabilsákvæða, sem fram er tekið í brbl. annars vegar og í l. um útreikning þeirra hins vegar, en þá er miðað við 1. des. og 1. marz? Getur verið, að þessir aðilar hafi ekki heimild til þess að segja sitt álit þar um? Er það þess vegna, sem núv. hæstv. ríkisstj. tók út á síðustu stundu úr brbl. um þær bráðabirgðaráðstafanir, sem gerðar voru og ég ræddi hér stuttlega áðan, — er það þess vegna, sem hæstv. ríkisstj. tók út úr lögunum ákvæði þess efnis, að þessum lögformlegu aðilum væri heimilt að reikna út kaupgjaldsvísitöluna fyrir jan. og febr. eða frá 1. jan. til 28. febr., þrátt fyrir bein eldri lagaákvæði þar um? Allt ber þetta að sama brunni, og mín spurning stendur enn: Hefur nokkuð það komið upp, sem bendir til þess, að launþegar eða launafólk á Íslandi verði afskipt þeim 21/2 vísitölustigi, sem reiknað var með um áramót, og þau verði höfð af þeim?