19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

132. mál, siglingalög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það vakti undrun mína, að hæstv. félmrh. skyldi ekki leggja til, að máli þessu yrði vísað til sambands tryggingafélaga hér á landi, en ekki til n. Alþ., sem nú var gert. Má ég aðeins benda á það, að mér finnst vera komið aftan að hlutunum í þessu máli, og er það ekki nema eðlileg afleiðing af stefnu forustuflokks ríkisstj., sem enginn veit, hver er í dag, en ef við reiknum enn þá með, að það sé Framsfl. með opi í báða enda, þá skuli hann fyrst reyna að draga úr hagsmunum laga, sem samþ. voru á síðasta þingi og tóku gildi á þessu ári, þá skuli dregið úr þeim með tilvísun til þess, að máske muni þingið á eftir samþykkja eitthvað annað til hagsbóta sömu aðilum. Við erum ekki farin að ræða neitt um till. hæstv. trmrh., brtt. hans við 75. gr. 1. um almannatryggingar, en í þeirri frvgr., sem hæstv. samgrh var að ræða, er vitnað til þeirra og að efnislega muni þetta frv. mótast af því, hvað verður ákveðið með þeim. Ég skil ekki svona málsmeðferð. Ég var búinn að ákveða að ræða ekki efnislega um málið í sambandi við það frv., sem má til umr., heldur þegar hér koma til umr. till. hæstv. trmrh., en ég vil óska eftir því, að umr. um þetta mál verði frestað, þar til viðhöfum rætt till. frá trmrh. um breyt. á 75. gr. almannatryggingal., sem hefur bein áhrif á þessi lög, og auðvitað hlýtur afstaða þm. að mótast af því, hvernig endalyktir þeirrar till. verða hér. Það er ekki hægt að byrja að skapa sér forsendurnar fyrir fram og segja: Við göngum út frá því, að það verði samþykkt, sem þar er. — Ég er alveg á móti þessu, og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, en efnislega mun ég ræða málið á eftir, eins og ég hef tekið fram. En ég óska eftir því við hæstv. forseta, að málið verði nú tekið út af dagskrá og því frestað, þar til við höfum rætt hitt málið.