19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

95. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka heilbr: og trn. fyrir störf hennar að þessu frv. Að vísu hefur það vafizt dálítið lengur fyrir mönnum en ég bjóst við. Ég hélt, að þetta mál yrði tiltölulega fljótafgreitt, vegna þess að frv. var samið af n., sem fulltrúar allra þingflokka áttu sæti í, og það var lagt fyrir þingið í nákvæmlega þeirri mynd, sem þessi sameiginlega n., sem allir þingflokkar áttu sæti í, skilaði frá sér. Engu að síður hefur komið upp misskilningur í sambandi við þetta mál, sem nú hefur, sem betur fer, verið leiðréttur.

Ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, að þær umboðsskrifstofur, sem talað er um utan Reykjavíkur, séu ákveðnar af tryggingaráði, en ekki af ráðh. að fengnum till. tryggingaráðs. Mér finnst þetta vera alveg eðlilegt fyrirkomulag. Hvar þessar skrifstofur eiga að vera, um það skal ég ekki fara að vekja neinar deilur. Hins vegar gerði ég grein fyrir því við 1. umr., að hugmynd mín væri sú að reyna að stuðla að því, að fólk, sem býr utan Reykjavíkur, viða í strjálbýli, víða allfjarri Reykjavík, ætti þess kost að fá betri og nánari vitneskju um réttindi sín innan almannatryggingakerfisins en það hefur nú. Það vita allir, að á þessu hefur verið misbrestur og úr þessu verður að bæta, og ég vil vænta þess, að tryggingaráð finni til þess skynsamlegar leiðir. Ég hygg, að af því þyrfti ekki að hljótast aukinn tilkostnaður frá því, sem nú er. Það eru að sjálfsögðu greiddir allverulegir fjármunir fyrir það starf, sem sýslumenn vinna á þessu sviði, eins og eðlilegt er, og ég hygg, að breytt skipan, sem einhvers staðar kynni að koma til, t.d. í sambandi við skrifstofur sjúkrasamlaga, sem þarf að starfrækja á sumum stöðum, þyrfti ekki að hafa neinn aukinn kostnað í för með sér, síður en svo.

Ég sé ekkert við það að athuga heldur í tilefni af því, sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði, að hreppstjórar gætu víða orðið þeir sérstöku trúnaðarmenn, sem um er rætt í 3. mgr. Ef þetta eru menn, sem hafa á þessu góða þekkingu og reynslu, fyndist mér mjög eðlilegt, að þeir væru beðnir að halda þeim störfum áfram. En þetta er atriði, sem þróunin sker úr um, og ég geri ráð fyrir því, að íbúar dreifbýlisins muni láta uppi sínar óskir um þau atriði smátt og smátt. Mér hefur virzt vera vaxandi hugur í fólki úti um landið um að hafa aðstöðu til þess að komast í nánari snertingu við ýmiss konar starfsemi, sem hefur verið svo til einvörðungu einskorðuð við Reykjavík hingað til, þannig að mér þykir líklegt, að þróunin verði sú, að fólk úti um landið vilji geta komizt í nánari tengsl við almannatryggingarnar en verið hefur. En sem sagt, þann misskilning, sem þessu máli var tengdur, tel ég vera úr sögunni og vænti þess, að um það þurfi ekki að verða neinn frekari ágreiningur.

Um aðrar breytingar frá heilbr.- og trn. er ég alveg sammála henni.

Nokkru eftir að þetta frv. var lagt fram, flutti ég brtt. á þskj. 154 um slysatryggingu sjómanna. Tilefni þess tillöguflutnings var það, að á síðasta þingi voru samþykkt ákvæði í siglingalög, sem fela í sér ákaflega mikilvæga réttarbót fyrir sjómenn. Hins vegar voru þessi lagafyrirmæli túlkuð af ýmsum sem svo, að þau legðu nánast óbærilega ábyrgð á atvinnurekendur og tryggingafélög, og ég er sammála þeim, sem telja, að þar hafi verið farið með allmiklar ýkjur. Engu að síður er það staðreynd, að Landssamband ísl. útvegsmanna leit þetta mál svo alvarlegum augum, að það beitti sér fyrir því, að bátaflotinn yrði stöðvaður í haust af þessu tilefni, vegna þess að tryggingafélög fengust ekki til þess að fullnægja þeim tryggingaákvæðum, sem fólust í þessari breytingu á siglingal. Ég beitti mér þá fyrir því, að Brunabótafélag Íslands bauð tryggingaform og síðan gerðu önnur tryggingafélög það, þannig að þessi vandi leystist þá, en jafnframt hét ég því að beita mér fyrir því, að ákvæðin um þessa tryggingu yrðu þannig, að Landssamband ísl. útvegsmanna og eigendur farskipa gætu talið þau innan eðlilegra marka, án þess að réttur sá, sem sjómönnum hefur verið tryggður, væri í nokkru skertur. Þessi till. var samin í heilbr.- og trmrn., en síðan var var haft samráð við fulltrúa frá Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna og við eigendur farskipa, og kom í ljós, að þessir aðílar gátu í meginatriðum fallizt á þá hugmynd, sem í till. felst.

Ég lagði svo þessa till. fram og ætlaðist að sjálfsögðu til þess, að hv. n, fjallaði um hana ásamt frv, sjálfu, enda hefur hv. n. gert það. En hún mun ekki vera tilbúin til að gera grein fyrir brtt., sem hún er með við þessa till. mína, fyrr en við 3. umr. Það hafa komið upp alls konar minni háttar og formlegar flækjur í sambandi við þetta mál, þannig að ég tel eðlilegt, að ég dragi þessar brtt. til baka til 3. umr. af þessum ástæðum, þannig að unnt verði að fjalla um hana ásamt þeim brtt., sem hv. n. kemur með.