24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

261. mál, málefni geðsjúkra

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú að ég hef nokkuð gaman af því að heyra, þegar hv. alþm. tala eins og hv. 12. þm. Reykv. talaði hér áðan. Það er svo með fjárveitingar, að allar greiðslur úr ríkissjóði eru góðar, þegar þær eru metnar einar út af fyrir sig. En þegar farið er að leggja saman, geta þær orðið anzi slæmar, því að þá þarf að afla tekna á móti.

Um þetta mál vil ég segja það, að því hefur verið sinnt verulega, síðan núv. ríkisstj. kom til valda, og ég hef mikla ánægju af því að sinna þessu þarfa máli og mun leggja mig fram til þess, þó að ég gefi engin loforð um, hvað hægt verður að gera varðandi fjárveitingu að þessu sinni. Það verður að meta út frá öðru. En ég treysti því, að þessi ríkisstj, beri gæfu til að ýta svo góðu máli sem þessu áfram.