19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

110. mál, Lífeyrissjóður barnakennara

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 143 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 85 30. des. 1963, um Lífeyrissjóð barnakennara, og l. nr. 50 22. apríl 1967, um breyt. á þeim l. Það, sem hér er um að ræða, er það, eins og segir í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta, að „upphæð makalífeyris er hundraðshluti af launum þeim, sem á hverjum tíma fylgja starfi því, er hinn látni gegndi síðast.“ Hér er ekki verið að gera aðra breytingu en þá, að í framkvæmdinni hefur þetta verið þannig, að ellilaun hafa verið dregin frá þessum launum, sem ekkjur hafa fengið eftir maka sinn í sambandi við hækkun þeirra. Þetta hefur þótt afskaplega óeðlilegt, og í lögunum, sem breytt var hér á síðasta þingi og taka gildi 1. jan. n.k. um opinbera starfsmenu, var þetta ákvæði fellt niður. Hér er því um það eitt að ræða að samræma þetta milli Lífeyrissjóðs barnakennara og lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, þannig að eftir þessa breytingu halda ekkjurnar fullum lífeyri úr lífeyrissjóðnum og auk þess fullum elli- eða örorkubótum.

Þetta mál fékk góðan byr í hv. Ed., og ég vona, að svo verði einnig hér, því að nauðsyn ber til, að breytingin á barnakennarasjóðnum fylgi breytingunni á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.

Ég legg til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.