19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

111. mál, samningur um aðstoð í skattamálum

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur athugað þetta frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum. N. ræddi þetta frv. á fundum sínum, hafði samband við ríkísskattstjóra og kynnti sér nokkuð undirbúning málsins. Þrjú Norðurlandanna, Danmörk, Finnland og Svíþjóð, hafa þegar fullgilt þennan samning fyrir sitt leyti. Noregur er á næsta leiti með sína fullgildingu og Ísland verður þá síðast í röðinni.

Þetta er ákaflega einfalt mál. Þarna er um að ræða gagnkvæma aðstoð í sambandi við rannsóknir, gagnkvæmar upplýsingar og að eyðublöð liggi fyrir hjá aðilum á víxl. Það getur auðveldað framtöl þeirra, sem ekki eru staddir í heimalandi sínu, þegar ganga þarf frá framtölum. Síðast, en ekki sízt, og það er raunar mikilvægast, er um að ræða gagnkvæma aðstoð við innheimtu skatta.

Það er nauðsynlegt að fá þetta mál afgreitt fyrir áramót, því að ef það verður ekki gert, þýðir það ársfrestun fullgildingar á aðild Íslands.

Fjh.- og viðskn, varð sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.