19.12.1972
Efri deild: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og hefur nú gengið í gegnum hv. Nd., er um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabankans um nýtt gengi íslenzkrar krónu og er afleiðing af og fylgifiskur gengisbreytingarinnar. Ég hygg, að það megi segja, að það sé að heita má samhljóða sams konar frv. í hliðstæðum tilvikum áður, með einni undantekningu þó. Sú undanteking er í 3. gr., þar sem segir, að kaup- og sölugengi megi vera 21/4% undir eða 21/4% yfir stofngengi, í stað þess, sem er í núgildandi lögum, að svigrúmið er 1% í hvora áttina. Um ástæðuna fyrir þessari breytingu, — og ég skal játa, að allt eins hefði verið formlegt að hafa hana í sérstökum lögum um breyt. á Seðlabankalögunum, leyfi ég mér að vísa til athugasemda við 3. gr., þar sem segir:

„Flestar þjóðir heims hafa nú með leyfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekið upp 2.25% frávik til hvorrar áttar frá stofngengi. Er ákvæði um þetta tekið upp að beiðni bankastjórnar Seðlabankans til breytingar á lögum bankans, en hafa byggt á 1% fráviki til hvorrar áttar.“

Nánari grg. fyrir þessari ósk Seðlabankans kom fram í fréttatilkynningu, sem Seðlabankinn lét fara frá sér um gengisákvörðunina og birt hefur verið í blöðum, útvarpi og e.t.v. sjónvarpi, þannig að ég ætla, að mönnum séu ljósar þær röksemdir, sem Seðlabankinn hefur fært fram fyrir þessari ósk, og ég skal ekki þreyta hv. dm. á að lesa hana upp.

Ég geri ráð fyrir því, að um þetta frv. út af fyrir sig sé ekki heildarágreiningur, nema þá að það kynni að vera þetta eina nýja ákvæði, — eða svo virtist vera í hv. Nd., að menn væru ekki öldungis ásáttir um það. Ég þarf þess vegna ekki að fara neinum sérstökum orðum í sjálfu sér um þetta frv. Hins vegar er eðlilegt, að skoðanir séu skiptar og að einhverjar deilur eigi sér stað um sjálfa forsenduna fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir. þ.e.a.s. ákvörðunina um breytingu á gengi íslenzku krónunnar. Ég flutti um það efni allrækilega grg. í hv. Nd., og ég vona, að svo hafi staðið á, að hv. þm. Ed. hafi átt þess kost að hlýða á þá grg. Þess vegna vonast ég til, að ég þurfi ekki að endurtaka hana hér. Vegna þeirrar virðingar, sem Ed. ber, vil ég ekki algerlega láta nægja að vísa til hennar, heldur víkja með örfáum orðum að ástæðunni fyrir því, að gripið er nú til þessara gengisfellingar.

Ég sagði í mínum inngangsorðum í gær í Nd., að ég liti svo á, að gengisfelling væri mér ekkert fagnaðarefni. Ég lít á gengisfellingu jafnan sem neyðarúrræði, sem óhjákvæmilegt getur verið að grípa til, hins vegar er ekki rétt, að gengislækkun hafi verið eða sé eitthvert bannorð hjá Framsfl. Eins og allir vita, sem kunnugir eru íslenzkri stjórnmálasögu á síðustu áratugum, hefur Framsfl. oftar en einu sinni staðið að gengisfellingu. Hitt er rétt, sem hefur komið fram í þessum umr., að við deildum á fyrrv. stjórn bæði í síðustu kosningum og endranær fyrir það, sem við köllum gengisfellingarstefnu hennar, þ.e.a.s. þá efnahagsstefnu, sem leiddi til þess, að æ ofan í æ höfum við þurft að grípa til stórra gengisfellinga. En þó að ég segi, að gengisfelling sé jafnan neyðarúrræði, þarf ekki að skilja það svo, að hér í þjóðfélaginu nú sé eitthvert neyðarástand, því fer fjarri. Sem betur fer, líður fólki almennt vel hér á landi nú. Það hafa flestir — eða ég vona nær allir — nægilegt að bíta og brenna. Það er nægileg atvinna, kaupmáttur tekna er góður, og ég held jafnvel, að kaupmáttur sumra sé e.t.v. fullmikill og eigi sinn þátt í þeirri umframeftirspurn, sem er a.m.k. ein undirrót þess vanda, sem við er að tefla. Framkvæmdir hafa aldrei verið meiri hér á landi en á þessu ári, og það er líka svo, að sumum þykir nóg um. E.t.v. er það svo, að þær eigi sinn þátt í þeirri þenslu, sem er í þjóðfélaginu og margir álíta, að sé of mikil. og ég get tekið undir, að svo sé. Samt sem áður eru allir, að ég held, sammála um, að þrátt fyrir það að velsældarástand sé hér á landi, þá sé vandi fyrir höndum, og það er áreiðanlegt, að úr þeim vanda hafa stjórnarandstæðingar ekki gert minna en við, heldur meira. Í sjálfu sér getum við verið mjög þakklátir stjórnarandstöðunni og sérstaklega málgögnum hennar fyrir það, hve vel þau hafa undirbúíð þjóðina og fólkið að undanförnu undir, að það yrði að gripa til einhverra ráðstafana í þá átt, sem nú liggur fyrir, að gert hefur verið.

En hver er þá þessi vandi, sem við er að glíma og gerir nauðsynlegt að grípa til þessarar ráðstöfunar eða einhverrar annarrar, sem svipaðar verkanir gæti haft? Ég skal reyna að gera dæmið einfalt og nefna aðeins þann vanda, sem nú brennur heitast á haki okkar. Það er sá vandi, að það er ekki, jafnvel eins og er, fyrir hendi fullnægjandi rekstrargrundvöllur fyrir aðalútflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar og þá sérstaklega sjávarútveginn. Það er auðvitað sérstaklega alvarlegt mál, rétt þegar komið er að vetrarvertíð, að þannig sé ástatt fyrir þessum höfuðatvinnuvegi okkar. Það er deilt um ástæðurnar fyrir því, að svo er komið fyrir sjávarútveginum. Ég held samt, að ef menn vilja vera sanngjarnir og líta á staðreyndir, þá eigi ekki að vefjast fyrir neinum, hverjar ástæðurnar eru fyrir því, að þannig er komið fyrir sjávarútvegi og útflutningsatvinnuvegunum. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að afli hefur minnkað hér tvö s.l. ár, miðað við sóknarmáttinn. Það eru auðvitað engin rök út af fyrir sig að henda á heildaraflann, heldur verður að taka tillit til þess, hve bátar og önnur skip hafa verið mörg og hve mikla getu þau hafa haft, og enn fremur og þó aðallega, að samsetning aflans hefur breytzt og orðið mun óhagstæðari. Þetta eru staðreyndir, sem enginn getur neitað. Þetta eru staðreyndir, sem engin getur út af fyrir sig ráðið við, Hin aðalástæðan fyrir þessu er hækkandi tilkostnaður til lands. Til þessa hækkandi tilkostnaðar liggja ýmsar ástæður. Til hans liggur sú ástæða, að það hafa orðið óhagstæðar sveiflur í okkar nágrannalöndum, gengisbreytingar, sem hafa valdið því, að tilkostnaður og rekstrarkostnaður atvinnuveganna hefur þar af leiðandi vaxið. Enn fremur er það, að samið var í des. s.l. um verulegar kauphækkanir, sem hafa komið í áföngum, og ég skal fyrir mitt leyti játa, að einn þátturinn í þeim samningum, vinnutímastyttingin hefur komið fram sem meiri raunveruleg kauphækkun en ég hafði fyllilega gert mér grein fyrir í vissum þáttum atvinnurekstrarins, eins og t.d. í frystihúsaiðnaði. Það er ekki nein ástæða til að vera að draga fjöður yfir þetta.

En það er ekki nóg, að líta á það, sem er í dag, sem er þó eins og ég sagði, að fullnægjandi rekstrargrundvöllur er ekki fyrir hendi, heldur verður að lita fram í tímann og athuga það, sem fram undan er, og þá vita menn það, að 1. marz n.k. ber að mæta 6% grunnkaupshækkun. Ég held, að það geti enginn haldið því fram, að við þær aðstæður, sem nú eru í þessum atvinnuvegum, sé hægt fyrir sjávarútveginn og útflutningsiðnaðinn að mæta þessari hækkun, nema einhverjar aðgerðir væru gerðar. Um þetta held ég, að þurfi ekki að fjölyrða. Þetta eru staðreyndir, sem ekki verða umflúnar og menn verða að horfast í augu við. En menn geta svo deilt um það fram og aftur, hvernig þetta sé til komið og hverjum sé um að kenna. Auðvitað geta menn ekki deilt um sumar staðreyndirnar, sem eru gersamlega óviðráðanlegar öllum mannlegum mætti.

Ég skal ekki fara öllu nánar út í að gera grein fyrir þessum vanda eða þeim leiðum, þeim úrræðum, sem til greina gátu komið til að mæta honum. Það hafa hv. þm. fengið til lestrar í þeirri skýrslu, sem efnahagsmálanefnd hefur sent frá sér og ég gerði líka grein fyrir, nokkuð ítarlega í inngangsorðum mínum í hv. Nd. Vissulega er það svo, að um fleiri valkosti gat verið að tefla, og það gat verið vandasamt mat að meta, til hvaða ráðstafana ætti að grípa. Niðurstaðan varð þessi, sem fyrir liggur, að gripið var til gengisfellingar þeirrar, sem ákveðin hefur verið. Þó að þar sé ekki þrædd nein sú leið, sem valkostanefnd bendir á, má segja, að það sé kjarninn í einni þeirri leið, sem hún bendir á, þ.e.a.s. hinni svokölluðu uppfærsluleið. En vissulega eru frávik frá þeirri leið, eftir því sem valkostanefnd gerir ráð fyrir henni, og þá helzta frávikið, að það er gert ráð fyrir, að áhrif gengislækkunarinnar komi inn í vísitöluna.

Það hefur verið talað um, að þessi gengisfelling væri annars eðlis, en gengisfellingar þær, sem viðreisnarstj. beitti sér fyrir. Það má vissulega til sanns vegar færa. Í fyrsta lagi er þetta miklu minni gengisfelling en gerð hefur verið áður. Hún er gerð að ýmsu leyti við aðrir aðstæður og að sumu leyti við þær aðstæður, sem sérfræðingar telja líklegri til þess, að hún skili árangri. Hitt er svo, að ég hygg, líka óvenjulegt, að full vísitala fylgi, en það getur aftur á móti haft í för með sér, að áhrif þau, sem ætlunin er að ná með gengislækkun eða gengisbreytingu, verði skammvinnari en ella.

Ég er þeirrar skoðunar, að stöðugt verð og stöðugt gengi séu mikilsvert undirstöðuatriði í efnahagslífi, en ég álít þó annað atriði enn þýðingarmeira. Gengisskráningin er í sjálfu sér ekki neinn helgigripur, sem ekki má hreyfa við. En það, sem er þó alltaf höfuðatriðið í efnahagslífi þjóðar, er, að framleiðsluatvinnuvegir hennar gangi og geti starfað með eðlilegum hætti og staðið að öðru leyti undir þeim þáttum, sem þar eru og halda uppi þjóðarbúinu, til þess að það sé hægt að segja, að við lifum í velferðarþjóðfélagi. Þessi ráðstöfun, sem hér liggur fyrir, er gerð í þeirri trú, að hún geti afstýrt þessum vanda, sem er fyrir hendi og alveg á næsta leyti, að því er sjálfa vetrarvertíðina varðar, sem er þýðingarmikið tímabil í þjóðarbúskap Íslendinga. Mér dettur ekki í hug að vera með neinar fullyrðingar um það á þessu stigi, hversu varanleg þessi lausn muni verða, né heldur skal ég vera með neinar fullyrðingar um það, hversu lífseig þessi ríkisstj. reynist. Ég læt mér allar feigðarspár, sem fram voru bornar um ríkisstj. í hv. Nd., í léttu rúmi liggja og læt þær sem vind um eyru þjóta. En hvað sem um það er, þá er það skoðun mín, að það hafi beinlínis verið skylda ríkisstj. nú eins og á stóð að ráðast í það með fullum krafti og fullri dirfsku að reyna að leysa þennan vanda. Ég held, að hver ríkisstj., sem er ábyrg, hefði þurft að gera það og átt að gera það. Og ég held, að það hefði skapað mjög mikið vandamál í íslenzku þjóðfélagi, ef svo hefði farið, að ríkisstj. hefði ekki treyst sér til að gera tilraun til að leysa þennan vanda og hefði gefizt upp, eins og stjórnarandstæðingar kunna nú að orða það. Ekki segi ég þetta af því, að ég hafi svo mikið sjálfsálit, að ég ætli, að núv. ríkisstj. sé ómissandi, heldur af hinu, að ég vil biðja hv. þm. að hugleiða, hvað hefði gerzt, ef okkur hefði ekki tekizt að leysa þennan hnút nú og stjórnin hefði orðið að segja af sér með þessi málefni öll óleyst. Ég býst ekki við því, og mér er a.m.k. ekki kunnugt um, að það hefði verið fyrir hendi nokkur þingræðislegur meiri hl. til að taka við og mynda nýja stjórn, og ég býst við, að það hefði getað tekið æðilangan tíma að mynda slíka nýja stjórn, sem hefði haft meiri hl. Alþ. á bak við sig. Og ég býst við því, að það hefði ekki neinum þótt sérstaklega góður kostur, ef t.d. forseti hefði neyðzt til að grípa til þess úrræðis að skipa embættismannastjórn. Ég býst líka við, að það hefði orðið nokkuð torleyst verkefni fyrir hana að leysa þennan vanda, e.t.v. í mismunandi góðri samvinnu við Alþ. Ég held þess vegna, að það, sem við hefði blasað, ef núv. stj. hefði ekki tekizt að ná samkomulagi um það úrræði, sem fyrir liggur, hefði verið, að samningur um nýtt fiskverð, sem þurfa að hefjast og verða lokið fyrir áramót, hefðu dregizt um óákveðinn tíma, enginn veit hversu lengi. Og afleiðingin af því hefði orðið stöðvun bátaflotans og útgerðarinnar um óákveðinn tíma líka. Auðvitað er það svo, að við megum ekki við því að verða fyrir slíkum skakkaföllum. Okkur veitir ekki af því, að atvinnuvegirnir geti gengið óhindrað. Og hvað sem um þessa stjórn má segja og hver sem hennar eftirmæli verða, þá verður þó aldrei um hana annað sagt en það, að henni hefur hingað til tekizt að stuðla að því, að vinnufriður ríkti í landinu. Það hefur ekki komið til neinnar stórfelldrar vinnustöðvunar á starfstíma hennar. Ég hygg, að það sé ómælt fé fyrir þjóðarbúið, sem hefur einmitt unnizt við þetta.

Ég vona, að allir landsmenn skilji þetta, sem ég hef sagt um skyldur ríkisstj. til að ganga í það með fullri dirfsku að gera tilraun til að leysa þetta mál, hversu varanleg sem lausnin verður, og ég vona, að landsmenn meti það, ekki sízt atvinnurekendur, jafnvel þótt þeir verði eitthvað sparir á viðurkenningarorðin, enda hefur ekki verið sérstaklega óskað eftir þeim.

Ég hef mælzt til þess, að afgreiðslu þessa frv. væri hraðað. Sá háttur hefur jafnan verið hafður á um sams konar frv, og tilmæli verið tekin til greina, m.a. af okkur, sem nú erum í stjórn, þegar við vorum í stjórnarandstöðu. Ég hygg, að í þau fjögur skipti, sem á þetta hefur reynt, hafi frv. slíkt sem þetta verið afgreitt ýmist á einum eða tveimur dögum. Ég tel mig hafa vilyrði, svo að ég segi ekki loforð, fyrir því, að þetta mál nái afgreiðslu á 2 dögum. Afgreiðslan í Nd. tók að vísu nokkuð lengri tíma en eðlileg skipti á milli d. segja til um, en ég vona samt með tilliti til þess, að báðar n. munu hafa unnið saman að þessu máli, að það takist að afgreiða málið núna í kvöld eða nótt hér í hv. Ed. Ég veit, að ég þarf ekki að vera að fara um það neinum orðum, hvílík óþægindi eru að því, að fá þetta mál ekki afgreitt. Það er öllum, sem hér eru, auðvitað ljóst, að að því eru mikil óþægindi fyrir marga, hæði fyrirtæki og almenning, að gjaldeyrisviðskiptí þurfi að stöðvast á nýjan leik.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.