20.12.1972
Efri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, hefur verið rætt á fundum fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. Raunar var sameiginlegur fundur í morgun með fjh.- og viðskn. Nd. og einnig eftir hádegi. Á fundinum í morgun mættu þrír bankastjórar Seðlabankans og hagrannsóknastjóri. Svöruðu þeir fsp. og gáfu ýmsar upplýsingar, eftir því sem tilefni gafst til.

Að frv. því, sem hér er á ferðinni hefur verið unnið á sama hátt og að þeim frv. á undanförnum árum, sem fjallað hafa um gengisfellingar. Í því eru velflest sömu atriðin, nema í 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að kaup- og sölugengi megi ekki vera meira en 21/4% undir eða 21/4% yfir stofngengi. Það kom fram á fundinum í morgun, að Seðlabankinn leggur áherzlu á að fá þetta atriði í 3. gr. samþ., enda mun það vera til samræmis því, sem gerist hjá nágrannaþjóðum okkar, og til samræmis við reglur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það er búið að ræða þetta frv. svo mikið, að ekki er ástæða til þess að flytja um það langa ræðu hér, en meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir, en minni hl. mun skila séráliti.