20.12.1972
Efri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er nú skipt um hlutverk. Við í stjórnarliðinu verðum nú að sitja og beita nokkurri stillingu og hlusta á það, sem hér er sagt, en þeir urðu að gera það á sínum tíma. Það væri satt að segja ástæða til þess að taka til nokkurrar athugunar þann þversagnakennda málflutning, sem stjórnarandstæðingar hafa viðhaft núna. Nú er ég í þeirri aðstöðu, að ég má ekki leggja út í það.

Viðvíkjandi spurningum hv. þm. er þess að geta, að ég minnist þess ekki, að við höfum á sínum tíma, þegar við vorum í stjórnarandstöðu, fengið skýrslur eða svör, sem við báðum um. Ég er ósköp hræddur um, að það hafi verið fátt um svör hjá hæstv. ráðh. þá. Þess er enn fremur að geta, að sumar þær spurningar, sem hann bar fram, eru þess háttar, að þeim verður ekki svarað með nokkurri vissu, því að þetta voru spurningar um spár. Hann spyr um, hver verði afkoma sjávarútvegs hver verði afkoma útflutningsiðnaðarins. Auðvitað er þetta allt byggt meira og minna á óvissum atriðum, óþekktum stærðum. En það eru spár um þetta, og mér er óhætt að segja það, þó að ég vilji ekki vera að fara hér með tölur, að spárnar segja, að afkoma sjávarútvegsins t.d. geti orðið mjög sæmileg. En vitaskuld er það háð forsendum, sem við vitum að þurfa að vera fyrir hendi, en við þekkjum ekki. Þeir menn, sem hafa athugað þetta, gefa sér forsendur í sambandi við aflann, og þá lítur svo út, að afkoma geti orðið mjög sæmileg.

Auðvitað koma margar hliðarráðstafanir til greina í sambandi við gengislækkun. Það hefur alltaf verið svo og verður auðvitað alltaf að vera svo. Hv. næstsíðasti ræðum. tók af mér að nokkru leyti ómakið í því sambandi, vegna þess að hann fór að gera grein fyrir því að nokkru leyti, skildist mér, sem líklegt er að gera í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Það er eðlilegra, verð ég að segja, að ræða þau atriði þar.

Það er tekið fram, að það er gert ráð fyrir að halda niðurgreiðslum í svipuðu horfi og verið hefur á þessu ári. Það er ekki gert ráð fyrir, að hægt sé að einskorða sig við það að halda vísitölu alveg í sömu skorðum og nú. Ég hef sjálfur sagt, að áhrifa gengisbreytingarinnar myndi eitthvað gæta í verðlagi. Ég heyrði, að hann kom með tölur. Ég vil ekki vera að fara með neinar tölur hér, fyrr en þær liggja fyrir og eru birtar í sambandi við fjárlög.

Enn fremur er auðvitað gert ráð fyrir því í sambandi við fjárl. að afla þess fjár, sem til þarf. Ég held, að hann hafi líka nefnt einhver tekjubýsn, sem yrðu sett inn í því sambandi, og enn fremur er það ekkert leyndarmál, að það verður, eins og verið hefur oft áður, hefur heimild í fjárl. til þess að skera niður eða lækka fjárveitingar, sem ekki eru bundnar öðrum lögum en fjárl., um allt að 15%. Þetta hefur stundum verið hærra, stundum í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Að því leyti, sem tekjur á fjárlögum endast ekki til þess að ná þeim markmiðum að halda vísitölunni nokkurn veginn við það mark, sem ég held, að hv. síðasti ræðumaður hafi nefnt, verður þessi niðurfellingarleið væntanlega notuð eftir því, sem á þarf að halda.

Við sumum atriðunum, sem hv. þm. spurði um, held ég, að hann geti fengið svör í ræðu, sem ég flutti í gær, en ég veit, að það er afsakanlegt, að honum hafi ekki gefizt tími til að lesa hana. Að öðru leyti eru sumar þær spurningar, sem bornar hafa verið hér fram, þess eðlis, að ég vil ekki svara þeim, t.d. eins og spurningu um það, hvernig gengið verði skráð í fyrramálið. Ef þessi lög verða samþ., er samþ. ákveðið stofngengi og líka ákveðið svigrúm, en stjórn Seðlabankans getur ákveðið, án þess að spyrja ríkisstj., hve mikið frávikið verði. Ég veit, að hv. þm. skilur, að ég fer ekki að skýra frá því hér, áður en hún hefur gefið út sína tilkynningu. Að vísu var fleira, en nokkuð annars eðlis, sem hann spurði um, en ég vil ekki svara. Það má vel vera, að honum finnist þetta ekki fullnægjandi svör.

Ég vil ekki vera að lengja umr., en þakka mönnum fyrir að hafa stillt máli sínu í hóf. Það stendur auðvitað sízt á mér að fara út í nokkrar umr hér, sem gætu gefið tilefni til deilu, enda þótt það sé ýmislegt, sem hægt væri að tína fram, sem stjórnarandstæðingar hafa sagt á sinni tíð.