20.12.1972
Efri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta tilraun til þráskákar af hálfu hæstv. forsrh., nefnilega að nota þau rök, að vegna þess að fyrrv. ríkisstj. hagaði sér illa 1967 eða 1968, þá leyfðist þeim það líka. Nú sat ég ekki á þingi 1967–1968 og kann ekki nákvæmlega um það að fjalla, hvaða gögn voru lögð þm. í hendur í sambandi við mat á því, hvort gengisskráning sú, sem ákveðin var, væri í samræmi við nauðsyn atvinnuveganna og atvinnuöryggis í landinu. Mér er nær að halda, að á þeim tíma hafi þm. fengið gögn í hendur, sem kváðu á um nauðsyn þeirra aðgerða með tilliti til afkomuhorfa atvinnuveganna.

Grundvallarspurning mín er sú að fá fram mat hagrannsóknadeildar á afkomuhorfum atvinnuveganna, áhrifum þessara efnahagsaðgerða á þjóðarbúskapinn og ríkisbúskapinn, viðskiptin við útlönd og fjárhaginn. Hæstv. forsrh. hefur réttilega hrósað sér af því að hafa átt þátt í því, að til staðar er álit valkostan. svokallaðrar, sem er vandað álit út af fyrir sig og gefur ágætar upplýsingar. Það, sem um er beðið, er, að samsvarandi upplýsingar séu gefnar þm. um þá leið, sem valin var. Hæstv. forsrh. neitaði ekki samstarfsflokkum sínum eða samstarfsráðherrum í ríkisstj, um slíkan samanburð. Hann lét Hagrannsóknadeildina gera slíkan samanburð á till. hvers stjórnarfl. fyrir sig um úrlausnir í efnahagsmálum. Það plagg liggur fyrir og er dagsett af hálfu hagrannsóknadeildar Framkvæmdarstofnunar 11. des. s.l. Ég er að biðja um samsvarandi upplýsingar þm. til handa um þá leið, sem valin hefur verið og hæstv. forsrh. er að verja af veikum burðum og mætti í dag. Þetta finnst honum ofætlun. Ég er aftur á móti tel það óvirðingu gagnvart þm. að veita þeim ekki slíkar upplýsingar og aðrar þær upplýsingar, sem við þdm. höfum farið fram á í þessum umr.

„Ég hygg, að afkoma sjávarútvegsins verði mjög sæmileg,“ segir hæstv. forsrh. nú. En ég minni hann á það, að þessi leið felur í sér tæplega 11% gengislækkun. Leið SF. samkv. álitsgerð og samanburði hagrannsóknadeildar frá 11. des. fól í sér 16% gengislækkun, og þá taldi hagrannsóknadeildin 100 millj. kr. vanta upp á það, að viðunandi afkomu sjávarútvegsins væri náð. Hvað vantar þá nú? Þess vegna eru svör hæstv. forsrh. ekki traustvekjandi. Þess vegna verða ekki aðrar ályktanir af svörum hæstv. forsrh. dregnar hér en að hæstv. ríkisstj. viti ekki, hvað hún er að gera.