20.12.1972
Efri deild: 35. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 14. sept. 1972, þar sem ríkisstj. var heimilað að taka til leigu um ótiltekinn tíma eitt eða tvö hvalveiðiskip hf. Hvals á Miðsandi til notkunar fyrir Landhelgisgæzluna með venjulegum skilyrðum um eignar- eða leigunám.

Vegna útfærslu fiskveiðimarkanna 1. sept. s.l. var mönnum ljóst, að sá skipakostur, sem Landhelgisgæzlan hafði yfir að ráða um þær mundir, væri ónógur til gæzlu hins stækkaða umsjónarsvæðis, til að sinna því hlutverki, sem gæzluskipunum er ætlað, m.a. vegna þess að líka stóð svo á um þær mundir, að eitt af stærri skipunum var í viðgerð og var ekki komið til landsins, og var vitað, að það mundi eitthvað dragast. Það var þess vegna leitað eftir því, hvort væri fáanlegt hentugt skip til gæzlustarfanna hér á landi eða erlendis, en ekki tókst að fá slíkt skip. Þá var það álit Landhelgisgæzlunnar eftir allmikla athugun, að til þessara starfa væru hentugust skip þau, sem notuð hafa verið til hvalveiða, skip Hvals h/f. Fóru þá fram viðræður við forstjóra eignaraðila, fyrst forstjóra Landhelgisgæzlunnar og ráðuneytisstjóra dómsmrn. og að lokum á milli mín og forstjóra Hvals. Í þessum viðræðum kom það fram, að hann taldi sig ekki geta eða vilja leigja skip með frjálsum samningum og kaus heldur, að leigunámi væri beitt. Var þá horfið að því ráði, og heimildin er höfð svo sem í þessum lögum greinir, þó að það væri raunar ekki beint ætlunin að taka nema eitt skip. Þegar þessi brbl. höfðu verið útgefin og ákvörðun hafði verið tekin samkv. þeim um að taka eitt hvalveiðiskipið leigunámi, tókst hins vegar greiðlega að ná samkomulagi um leigumálann og yfirleitt um öll önnur atriði í sambandi við yfirtöku Landhelgisgæzlunnar á skipinu. Þessi leigumáli er fyrir hendi, og það er sjálfsagt, að sú n., sem fær frv. til meðferðar, fái hann til athugunar. Þessi leigumáli er tímabundinn, en þó svo, að það er gert ráð fyrir því, að til framlengingar hans geti komið. Ég vil vona, að það standi þannig, að það verði hægt að sleppa þessu skipi um þær mundir, sem hvalveiðivertíð hefst, þannig að það geti sinnt því hlutverki, sem það hefur áður sinnt, og hvalveiðimenn þurfi ekki að verða fyrir neinum óþægindum af þessu. Um þetta get ég þó ekki gefið neina yfirlýsingu, vegna þess að það verður að ráðast af atvikunum og aðstæðunum, sem þá verða fyrir hendi, hvernig með málið verður farið. En eins og ég sagði, er það von mín, að svo geti orðið.

Það var nokkuð rætt um það, áður en þetta skip var tekið til notkunar við gæzluna, hvort það væri hentugt eða ekki. En nú hefur það verið notað við hana nokkurn tíma, og hefur sýnt sig, að það hefur reynzt allvel að sögn skipstjórnarmanna og annarra þeirra manna, sem á skipinu eru, að ég held. Það hefur reynzt ágætlega nothæft til gæzlustarfanna, og ég held, að segja megi, að það sé álit kunnugra manna, að það hafi ekki verið völ á hentugra skipi. En það er þannig, að við gæzlu á hinu stóra fiskveiðilögsögusvæði veitir í raun og veru ekki af 4 stórum skipum. Það er í raun og veru lágmarkið. Svo bætast við hin minni skip, sem geta auðvitað sitt og hafa næg verkefni að vinna við gæzlustörf og önnur þau margháttuðu störf, sem þau sinna.

Það heyrist stundum talað um, að varðskip séu í snatti. Það er mjög mikill misskilningur. En það eru óskir um það og gerðar kröfur til þess, og það er reyndar gert ráð fyrir því í lögum, að varðskip sinni ýmsum þörfum. M.a. er mjög títt, að fyrir utan björgunarstörf, sem þau vinna og geta unnið, aðstoði þau við sjúkraflutninga, jafnvel læknisflutninga vegna þess ástands, sem nú ríkir, á milli héraða og jafnvel stundum, — það verður að játa, — við venjulega flutninga, t.d. á námsfólki, þegar þannig stendur á í jólaleyfum og endranær, þannig að mér fyrir mitt leyti finnst það mjög óvirðulegt heiti á þeirri starfsemi, sem þau inna oft af hendi af mikilli nauðsyn, að vera að tala um snatt í því sambandi.

Herra forseti. Ég skal ekki fylgja þessu frv. úr hlaði með fleiri orðum. Það er í sjálfu sér einfalt. Það má segja, að það sé þegar komið til framkvæmda og hafi þannig að vissu leyti náð tilgangi sínum. En því er, eftir því sem í sjálfum lögunum stendur, ætlað að gilda um óákveðinn tíma, þó að það sé svo, eins og ég sagði, að ég vonist til þess, að til þess þurfi ekki að koma. Enn fremur er það svo, að það er sjálfsagt um þetta eins og önnur brbl., að það sé staðfest, sem ríkisstj. hefur gert í því efni, þannig að Alþ, lýsi vilja sínum á því og taki beina afstöðu til þess. Þess vegna er að mínum dómi alveg sjálfsagt og skylt, að Alþ. afgreiði þetta frv.

Um frv. varð í Nd. mót von minni nokkur ágreiningur, sem ég held, að stafi að miklu leyti af misskilningi, þar sem minni hl. n. vildi afgreiða það með rökstuddri dagskrá. En það er auðvitað svo, að ég eða stjórnin getur ekki sætt sig við það, því að í því fælist óbein vanþóknun á því, að gripið var til þessa ráðs. Hins vegar er það svo, að það er ekkert, sem kallar á, að þetta frv. verði afgreitt fyrir jól, og þarf ekki að hraða afgreiðslu þess þannig.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. sé vísað til 2, umr. og hv. allshn., og eins og ég sagði, þá getur auðvitað sú n. fengið leigumálann til athugunar og kallað fyrir sig þá aðila, sem þessu eru í sjálfu sér kunnugri í framkvæmdaatriðum heldur en ég, bæði forstjóra Landhelgisgæzlunnar og eins þá starfsmenn í dómsmrn., sem með þessi málefni fara.