20.12.1972
Efri deild: 36. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

114. mál, verðlagsmál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Við tveir nm. höfum skrifað undir nál. með fyrirvara, en munum þó fylgja frv. eins og það liggur fyrir. Ég vek athygli á því, að nú er þessi skipun verðlagsnefndar ekki tímabundin við eitt ár, eins og verið hefur, og kann það út af fyrir sig að orka tvímælis. Ég er a.m.k. engan veginn sannfærður um, að hér sé um óvefengjanlega rétta skipun slíkrar n, að ræða. En fyrirvari minn er þó aðallega við það bundinn, að ég tel verðlagsmálum og meðferð þeirra þann veg farið, að skjótra úrbóta sé þörf, og því sé hér ekki um að ræða frv., sem í raun og veru ætti að vera til frambúðar, heldur þurfi að taka mál þessi öll nýjum og föstum tökum.