20.12.1972
Neðri deild: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

95. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Í gær frestaði ég samkv. ósk brtt., sem ég flutti á sinum tíma um slysatryggingu sjómanna sem brtt. við lög um almannatryggingar. Þessi brtt. hefur legið hér fyrir þinginu í hálfan mánuð, þannig að ærinn tími hefur verið til þess að athuga hana. En þó fór það svo, eins og oft vill verða, að menn fara ekki að huga að málum fyrr en á seinustu stundu, og í gærkvöld kom í ljós, að það voru uppi margar óljósar hugmyndir um þetta mál. Ég gekk í morgun frá nokkrum breytingum á þessari till. minni, og ég geri mér vonir um, að sú till. komi á borð þm. eftir nokkrar mínútur. Ég gekk þar til móts við sjónarmið, sem fram hafa komið. M.a. hefur það verið gagnrýnt, að í upphaflegri till. minni var rætt um, að atvinnurekendur almennt ættu að eiga þess kost að taka slíka tryggingu, þó að skyldan væri einvörðungu bundin við sjómenn. Ýmsir vildu, að þetta væri bundið aðeins við sjómenn og ekki minnzt á aðra atvinnurekendur í þessu sambandi. Ég hef fallizt á það sjónarmið, enda þótt ég sé þeirrar skoðunar, að það séu ýmsir aðilar aðrir en sjómenn, sem vinni svo áhættusöm störf í þjóðfélaginu, að þeir eigi að geta átt kost á slíkri tryggingu.

Hér kom fram í gær frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni sú till., að dánarbætur miðað við dauða yrðu 11/2 millj., en ekki 1 millj. eins og var í minni upphaflegu till. Ég get eftir atvikum fallizt á þessa till. hv. þm. Péturs Sigurðssonar, líka vegna þess, að mér finnst dálítið óviðkunnanlegt, ef við hér á Alþ. þurfum að fara að greiða atkv. um það, til hve hárrar upphæðar eigi að meta líf manna. Í þessum till. mínum er einnig um að ræða smábreytingar á hinum mánaðarlegu bótum til ekkju og til barna, sem ég hygg, að enginn ágreiningur þurfi að verða um, en það eru þær bætur, sem ég tel vera langmikilvægastar í þessu sambandi. Það er framfærsluskyldan, sem ég tel vera langmikilvægasta réttinn, því að sú upphæð, sem greidd er í eitt skipti fyrir öll kann, — a.m.k. í sumum tilvikum, ef svo stendur á, að menn farist án þess að vera kvæntir eða eiga börn, — þá kann að vera, að slíkar bætur lendi til fjarskyldra ættingja, sem hafa í rauninni engan siðferðilegan rétt á slíkum bótum.

En það, sem mestur ágreiningur virðist vera um, er það atriði, að menn hafa talað um, að þessi slysatrygging yrði ekki einvörðungu bundin við Tryggingastofnun ríkisins, eins og ég hef lagt til, heldur verði almenn vátryggingafélög einnig höfð þarna með, þannig að menn geti valið um það, hjá hverjum þeir tryggja. Nú vil ég gera mönnum grein fyrir því, að það var grundvöllur þessarar till., sem ég flutti, að þessar tryggingar yrðu að fullu hjá Tryggingastofnuninni. Og ástæðan fyrir því er afar augljós. Hér er um að ræða mjög vandasama tryggingu, þannig að ef hægt á að vera að ákveða þar lágmarksiðgjöld, þá þurfa almannatryggingarnar að geta gert sér grein fyrir því, um hve umfangsmikla tryggingu þarna er að ræða og hve miklar árlegar tekjur geti verið um að ræða, og á þeim forsendum geti almannatryggingarnar síðan reiknað út lágmark iðgjalda. Þetta er sjálfur grundvöllur þessarar till. og ef þetta gerist ekki, þá er till. í sjálfu sér gersamlega þýðingarlaus.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, að ef þetta væri haft opið, þá geta komið upp alls konar undarleg og leiðinleg tilvik. Það gæti t.a.m. gerzt, að útgerðarmenn, sem hafa viðskipti, sem þeim er annt um, við tryggingafélög, tryggi hjá þeim þann hlut þessa vanda, sem er auðveldastur og kann að verða ábatasamastur, en velti yfir á Tryggingastofnun ríkisins því, sem er hættulegast, og því, sem erfiðast er að leysa úr. Úr þessu yrði slík flækja, að það væri enginn kostur að halda iðgjöldunum í því lágmarki, sem ég tel hafa verið hugmyndina með þessu. Ég vil einnig benda á atriði eins og það, að með þessu kerfi er um það að ræða, að Tryggingastofnun ríkisins greiði bætur, sem nema mjög verulegum fjárupphæðum, í 8 ár, ef slys verður. Við getum hugsað okkur slíkt tilvik eins og það, að útgerðarmaður verði fyrir miklu slysi, þar sem þarf að greiða mjög háar upphæðir um 8 ára skeið. Þetta yrði Tryggingastofnunin að gera, en hún gæti átt það á hættu, að útgerðarmaðurinn flytti sínar tryggingar til annars fyrirtækis strax á eftir. Það liggur í hlutarins eðli, að það er ekki hægt að byggja upp kerfi, eins og ég er að tala um í þessari till. á forsendum eins og þessum.

Þetta er engin einkaskoðun mín, þetta er skoðun Guðjóns Hansens tryggingafræðings, sem var ráðunautur heilbr.- og trmrn. við að búa þetta kerfi til. Hann telur þetta vera algera forsendu. Slík hin sama er skoðun tryggingaráðs. Þetta er einnig skoðun forstjóra Tryggingastofnunarinnar, Sigurðar Ingimundarsonar.

Vegna þess, eins og menn vita, að breytingar á almannatryggingal. þarf að samþykkja fyrir áramót og við verðum að skila því frv. frá okkur eftir sem allra skemmstan tíma, standa málin þannig, að annaðhvort verða menn að fallast á það fyrirkomulag, sem ég legg hér til, — og geta þá kannske haft í huga, að hægt er að breyta því síðar að sjálfsögðu eins og öllu fyrirkomulagi, — eða ég verð að draga þessa till. til baka, og þá standa ákvæðin eins og þau voru samþ. í siglingal. síðast. Það er þá hægt að taka það upp á þinginu eftir jól að framkvæma þessa breytingu, en ákvæði siglingal. mundu standa þangað til. En þessi hugmynd, sem hérna er, stendur og fellur með þessum grundvelli, þannig að það væri alveg út í hött að breyta grundvellinum, þá svífur hugmyndin gersamlega í lausu lofti. Þetta vil ég biðja menn að gera sér grein fyrir og hugleiða og eins hitt, að við höfum ákaflega nauman tíma til stefnu, þannig að við getum ekki haldið þannig á málum, að við þurfum að halda uppi löngum deilum, hvorki hér né í Ed. Við verðum að gera upp hug okkar um þetta. Vilja menn fallast á þessa meginhugmynd, sem ég hef hér gert grein fyrir, og með þeim varnagla þá, að það sé hægt að breyta því síðar, eða vilja menn þá fallast á hitt, að við tökum alls ekki upp þessi slysatryggingarákvæði núna á þessu þingi, heldur geymum það þangað til eftir jól.