20.12.1972
Neðri deild: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

95. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eins og ég skýrði út áðan, var forsenda þeirrar till., sem ég flutti, sú, að þessar tryggingar yrðu að fullu hjá almannatryggingum, og um það er greinilega ágreiningur hér á hinu háa Alþ., sem við getum ekki leyst á þessum stutta tíma. Ég sagði, að ef menn gætu ekki fallizt á till. mína, teldi ég eðlilegast, að ég drægi hana til baka og við geymdum afgreiðslu þessa máls fram yfir áramót. Ég gat ekki annað skilið af orðum hv. frsm, heilbr.-og trn., Jóns Skaftasonar, en hann gæti á það fallizt, að þetta vandamál yrði þá ekki frekar rætt hér á þinginu. Ég dreg þar með þessa till. til baka. Ég vil láta þess sérstaklega getið út af umr. hér í gærkvöld, að ég hef haft samband um þetta mál við hv. þm. Pétur Sigurðsson, og hann er algerlega sammála mér um, að það sé skynsamlegast, úr því sem komið er, að þetta mál verði ekki afgreitt að þessu sinni. Þá standa þau ákvæði, sem sett voru í siglingalög í fyrra, sem sú löggjöf, sem gildir um þetta atriði, þangað til ný lög hafa veríð sett.

Út af því, sem hv. þm. sagði hér áðan, langar mig samt til að rifja í örstuttu máli upp dálítið lærdómsríka sögu. Á síðasta hausti stóðu mál þannig, að útgerðarmenn lýstu því yfir, að þeir sæju sér ekki fært að gera út flotann, vegna þess að tryggingafélögin í landinu fengjust ekki til þess að tryggja sjómenn samkv. ákvæðum siglingal., og það var áskorun frá forustumönnum útgerðarmanna til útvegsmanna um allt land að gera skip sin ekki út á þessum forsendum. Ég beitti mér þá fyrir því við Brunabótafélag Íslands, sem er ríkisfyrirtæki, að það gerði tilboð um slíkar tryggingar, til þess að það lægi fyrir, að það væri hægt að fá þessa tryggingu. Þá gerðist sá ánægjulegi atburður, að önnur tryggingafélög lýstu því þegar í stað yfir, að þau væru fús til að tryggja, og meira að segja þau sögðust geta boðið mun betri kosti en Brunabótafélag Íslands. Þá leystist málið.

En Kristján Ragnarsson hringdi í mig af hálfu Landsambands ísl. útvegsmanna, og ég lofaði honum því, að ég mundi beita mér fyrir því, að gerð yrði breyting á þessari löggjöf, þannig að tryggingaskyldan væri skilgreind á miklu nánari hátt en gert var í siglingal., og jafnframt, að ég reyndi að tryggja, að iðgjöldin yrðu sem allra lægst. Á þeim forsendum var lögð í það vinna að útbúa það kerfi, sem ég hef hér lagt fyrir, og sú vinna var fyrst og fremst unnin af Guðjóni Hansen tryggingafræðingi.

Þegar þessi till. var tilbúin, óskaði ég eftir, að búinn yrði til samvinnuhópur fulltrúa frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, frá Sjómannasambandi Íslands og frá Farmanna- og fiskimannasambandinu. Fulltrúar allra þessara aðila fjölluðu um þessa till., áður en ég lagði hana fram hér á þingi, og það var full samstaða fulltrúa allra þessara aðila um það, að með þessu væri málið leyst og þeir væru fylgjandi þessari till. Einu manna í þessari n. var hv. þm. Pétur Sigurðsson. Ég heyrði enga aths. frá Landssambandi ísl. útvegsmanna um það, að þessi grundvöllur, sem þarna er gerður, — sem er forsenda þess, að Tryggingastofnunin geti tekið þetta að sér, — væri ekki í samræmi við hagsmuni útvegsmanna. Enga slíka aths. heyrði ég. Hitt veit ég ósköp vel, að einmitt nú, þegar Þessi till, er komin fram hér á þingi, þá koma þessi vátryggingafélög, sem ekki þóttust geta veitt þessa tryggingu í haust, en létu síðan til leiðast að veita hana, og segja: Nú erum við reiðubúin til að tryggja á þessum forsendum. — Þau vilja fá möguleika til þess að hagnast á þessari tryggingu. Það má vel vera, að hv. alþm. séu fúsir til þess að leysa málið á þeim forsendum á þinginu eftir áramót, því að mér skilst, að það sé samstaða um, að þetta gangi ekki lengra að þessu sinni. En ég vil þá a.m.k. taka það skýrt fram, að ég mun ekki hafa forustu fyrir breytingu á þeim forsendum. Ég lít á það sem mitt verkefni að tryggja sjómönnum þau kjör, sem þeir eiga skýlausan rétt á, en gera það á þann hátt, að kostnaður útvegsmanna af því yrði í algeru lágmarki. Ég var ekki að hugsa um hagsmuni hinna einstöku vátryggingafélaga í því sambandi.