24.10.1972
Sameinað þing: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1973

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Að lokinni framsöguræðu hæstv. fjmrh. í gær fóru hér fram almennar umr. um efnahags- og fjármál á breiðum grundvelli, eins og skiljanlegt er, þegar fjárlagafrv. er lagt fram. Ræðumenn sneiddu meira eða minna hjá því að víkja að einstökum liðum í þessu fjárlagafrv., enda þótt full ástæða væri til að fara náið í það.

Venjulega gerir maður ráð fyrir því, að í fjárlagafrv. séu ígrundaðar og vel athugaðar till. hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma og það megi ganga út frá því, að þetta frv. sé svo úr garði gert, að það lýsi í einstökum atriðum, hver vilji viðkomandi yfirvalda sé um fjárveitingar til einstakra mála. En nú bregður svo við, að þegar minnzt er á einstök mál í þessu fjárlagafrv., þá kemur fram, að ýmist hefur láðst að setja þau inn í frv. ellegar rn. er ekki kunnugt um, hvar eigi að setja fjárveitingarnar inn í það eða þá að upplýst er, að hæstv. ríkisstj. hafi góðan hug til þess að breyta frv. Þannig vitna ég til frétta um það, sem snertir aðstoð við vanþróuðu þjóðirnar. Á það var bent, að ekki væri gert ráð fyrir fjárveitingu til þessa liðs, eins og í síðustu fjárl., — og reyndar þar á undan. Þegar á þetta var bent, kom yfirlýsing frá rn. um það, að þeim hefði ekki verið ljóst, hvar fjárveitingin skyldi sett inn í frv., og því hefði það alls ekki verið gert, en beiðni send beint til fjvn., og gengur rn. út frá því, að úr þessu verði bætt í meðförum, og er ekkert nema gott eitt um það að segja í sjálfu sér. Í öðru lagi er minnzt á hér í dag í síðasta máli, að enda þótt fjárveitingar til þess máls, sem þar var fitjað upp á, séu ekki fyrir hendi í frv., þá standi ekki annað til en góður hugur hæstv. ríkisstj. til þess að ráða bót á því í meðförum Alþingis, og því er ekki gott við þetta að eiga, þegar menn fara að rýna ofan í einstaka liði.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í almennum umr. um fjárlagafrv., en vildi gera hér eitt mál að umtalsefni, sem ég tel af ýmsum ástæðum, að eigi sérstakt erindi inn í þefsar umr. Þar á ég við fjárveitingar til Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Afstaða og afgreiðsla hæstv. ríkisstj. á því máli er e.t.v. táknrænt dæmi um það, hve stjórnin og stjórnarsinnar eru sjálfum sér samkvæmir, hversu tvískinnungur þeirra er óskammfeilinn og hversu þeim raunverulega er annt um þær félagslegu umbætur, sem þeir sífellt telja sér til ágætist. Stuðningur við námsmenn verður vissulega að teljast menningarlegt og félagslegt viðfangsefni, bæði vegna þeirrar kröfu nútímans, að sem flestir afli sér menntunar og fræðslu, sem á annað borð hafa hug og getu til og eins vegna hins, að í seinni tíð gerast æ háværari og þjóðfélagslegri kröfur um, að fullt jafnrétti ríki á þessu sviði, svo námsmönnum eða fólki almennt sé kleift að stunda nám, og þá langskólanám, án tillits til efnahags eða fjárhagsástæðna. Aukin námslán voru tekin upp sem heilagt baráttumál og veigamikill þáttur í stjórnarandstöðu núv. stjórnarflokka, og var reyndar aldrei legið á þeim áróðri, að viðreisnarstjórnin væri námsmönnum andvíg í kröfugerð þeirra fyrir auknum námslánum. Látum það nú vera. Þó fór svo að lokum, að fráfarandi ríkisstj. samþykkti í öllum atriðum áætlanir stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna um fjárveitingar til námsmanna, og skyldu þær koma til framkvæmda í áföngum að fullu á fjárlagaárinu 1974–1975. Þessari ákvörðun þáv. ríkisstj, fögnuðu námsmenn mjög, enda fylgdi þáv. ríkisstj. þessari ákvörðun sinni eftir, með því að fylgja áætluninni að öllu leyti í fjárlagagerð fyrir árið 1971. Á því þingi gripu þáverandi stjórnarandstæðingar undir forustu núv. hæstv. iðnrh. til þess örþrifaráðs að bera fram till. þess efnis, að áætlunin yrði lögfest, svo að ekki færi á milli mála, að henni yrði fylgt. Væntanlega vildu þeir með þessu sýna áhuga sinn og stuðning í verki, og skal ekki efast um heilindi þeirra í þeim efnum.

Þegar fyrsta fjárlagafrv. þessarar ríkisstj. var lagt fram hér í fyrrahaust, brá hins vegar svo við, að þar voru settar inn tölur og fjárveitingar, sem þýddu stórskerðingu á áætlun Lánasjóðsins. Í því frv. vantaði upp á um 90 millj. kr. til þess að það mætti áætlun Lánasjóðsins. Þetta mál olli á sínum tíma miklu fjaðrafoki og ef ekki reiði, þá mikilli undrun a.m.k. í röðum námsmanna, sem sízt áttu von á þessum viðbrögðum bjá þeim mönnun, sem svo mjög höfðu haldið kröfum þeirra á lofti. Ekki varð hjá því komizt, á þeim tíma, að fá frekari og afdráttarlausari upplýsingar um afstöðu ríkisstj. til þessa máls. Vegna þingskapa þá var slíkt ekki unnt við fjárlagaumr. á síðasta þingi, og því leyfði ég mér að spyrjast fyrir um málið utan dagskrár í Sameinuðu þingi. Skal ekki getum að því leitt, hvort það var hin mikla óánægja og úlfúð, sem fjárlagafrv. vakti í röðum námsmanna eða sú skýring, sem ráðh. gaf, að till. hefðu ekki borizt í tæka tíð, — hvor ástæðan var veit ég ekki, — en hitt er víst, að ráðh. gaf í þessari umr., og sem svar við minni fsp., yfirlýsingu þess efnis, að aldrei hefði annað staðið til en taka fullt tillit til þessarar áætlunar. Eitt er víst, að þessu svari hæstv. ráðh. var mjög fagnað, enda urðu efndir í fullu samræmi við þær yfirlýsingar. Þess má geta að auki, að hæstv. menntmrh. sá við þessa umr. ástæðu til þess að undirstrika sérstaklega, að vilji hans hefði aldrei staðið til annars, en farið yrði eftir áætluninni, aldrei hefði annað komið til greina.

Nú hefur vinstri stjórnin lagt fram fjárlagafrv. sitt í annað sinn og þá gerist hið óvænta, — ég vil segja furðulega, — að aftur er stórlega vikið frá áætlun stjórnar Lánasjóðsins. Áætlun Lánasjóðsins gerði ráð fyrir því, að veitt yrði um 493 millj. kr. til sjóðsins, en samkv. þessu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 273 millj, kr. Að vísu hefur ráðh. nú við umr. lýst því yfir, að tekið verði tillit til innlendra verðhækkana, sem breyti þessari tölu til hækkunar, og er það ánægjuleg yfirlýsing, en hins vegar hefur ekki verið borin fram sú afsökun, sem gerð var hér í fyrra, að áætlun hefði ekki legið fyrir í tæka tíð. (Fjmrh.: Þetta lá nú fyrir.) Þetta lá nú fyrir, segir hæstv. ráðh. Það er gott að fá upplýsingar um það. Ég vildi segja í framhaldi af því, að hann hefur þó borið það fyrir sig í þessum umr., að þar sem tölum Lánasjóðsins, sem þá lágu fyrir í svona tæka tíð, annars vegar og tölum, að mér skilst, hagsýslunnar hins vegar ber ekki saman, sé áætlunin ekki tekin inn, eins og Lánasjóðurinn lagði til. Nú mætti að vísu spyrja, hvers vegna voru tölur áætlunarinnar ekki teknar inn í frv. úr því að þarna var ágreiningur um, þar var um hærri tölur að ræða og gott að hafa vaðið fyrir neðan sig. Einnig mætti spyrja, hvers vegna var þá ekki tekið fram í aths. eða þess getið, að þessi mismunur væri og hvað til stæði, ef og þegar rétt niðurstaða fengist. Að þessu hvoru tveggja mætti spyrja, ef óljóst væri hvort ríkisstj. hygðist fylgja áætlun Lánasjóðsis, eins og fullyrt var, að gert yrði, þegar málið bar á góma í fyrra.

En það er bara alls ekki óljóst, því að það vita allir, sem vilja vita og verður ekki annað skilið, en þetta fjárlagafrv. feli það í sér, að ríkisstj. hyggist falla frá áætlun Lánasjóðsins, falla frá þeirri stefnumörkun, sem námsmenn hafa lagt fram, fráfarandi ríkisstj. samþ. og ráðh. sjálfir hafa þótzt vilja styðja. Það er ekki af tilviljun eða misskilningi, sem nú rignir yfir ríkisstj. mótmælum frá samtökum námsmanna, bæði hér heima og erlendis, við þessar till.

Þessi stefnubreyting, sem ég tel, að komi fram í þessu fjárlagafrv., kemur fram, þegar ég skýri í örfáum orðum, hvernig áætlun stjórnar Lánasjóðsins er hagað. Í stórum dráttum er gert ráð fyrir því, að reikna verði með fjölgun námsmanna frá ári til árs, aukinni útfærslu af lánakjörum vegna fleiri aðila, sem fá lán, gera ráð fyrir verðlagsbreytingum, bæði hérlendis og erlendis og breytingum á reglugerðum. En síðast og ekki sízt verður að gera ráð fyrir því, að aukning verði á námsaðstöðunni, þ.e.a.s. sá áfangi, sem stíga á frá ári til árs, verði stiginn milli fjárl. Gert var ráð fyrir því, að námsmenn fengju greidda umframfjárþörf sína allt upp í 100% samkv. þessari áætlun fram til ársins 1974–1975, þ.e.a.s. fjárlagaársins, og næðist þá þessi 100% umframfjárþörf á því ári. Nú mun umframfjárþörfin hafa verið komin upp í u.þ.b. 77% og var þá gert ráð fyrir því samkv. áætluninni, að hún hækkaði núna á árinu 1973 upp í u.þ.b. 88%, ég hef nú fyrirvara á þessum tölum, en þær eru nærri lagi. En þá má sjá, að þetta síðasta atriði, þ.e.a.s. skrefin um aukningu á námsaðstoð, er það, sem skiptir meginmáli, er prinsipatriðið í þessari áætlun. En það vill svo til, að einmitt þetta atriði er fellt niður úr frv. og tillögugerð hæstv. ríkissj. Þess vegna segi ég, að hún hafi brugðið frá þeirri stefnumótun og því stefnumarki, sem að var miðað með áætluninni og fyrri stjórnvöld höfðu samþykkt.

Í aths. með fjárlagafrv. er þess getið, þegar raktar eru fjárveitingatill. til Lánasjóðsins, að tekið sé tillit til áætlunar sjóðsstjórnar um aukna útgjaldaþörf vegna fjölgunar lántakenda og styrkþega, úrfærslu lánakerfis, en við bætast nemendur Stýrimannaskólans, Vélskólans o.fl. og auk þess er tekið tillit til þeirra gengishækkana erlendra gjaldmiðla, sem orðið hafa að undanförnu. Þetta eru engin tíðindi. Þetta er alveg í fullu samræmi við þá áætlun, sem lá fyrir og gengið hefur verið út frá. Hæstv. ráðh. hefur í þessum umr. upplýst, eins og ég hef vikið að áður, að enn fremur verði tekið tillit til verðlagsbreytinga innanlands. Þetta eru heldur engin ný tíðindi og í fullu samræmi við áætlunina. Hins vegar mætti spyrja í því sambandi, við hvað sé miðað, þegar reiknaðar eru út innlendar verðlagsbreytingar, hvernig verði reiknað með tekjuöflun hjá námsmönnum. Þetta er meira og minna óljóst, en látum það nú vera. En það, sem hæstv. ráðh. hefur ekki minnzt á og ekki er heldur minnzt á í fjárlagafrv., er það, sem mestu máli skiptir, þ.e.a.s. aukning á námsaðstoð, hin hlutfallslega hækkun, sem koma á í áföngum á umframfjárþörf námsmanna. Hún mun samkv. áætlun Lánasjóðsins nema u.þ.b. 48 millj. á þessu ári. Hirði ég þá ekki að rekja um ýmsar smærri fjárveitingar, sem ekki eru teknar inn, — að mér sýnist, — í þetta frv.

Ég get ekki dregið aðrar ályktanir, — og er reyndar ekki einn um að draga þær ályktanir, — en að ríkisstj. hafi hafnað þessari stefnumörkun, eins og áður er getið, virt að vettugi það samkomulag, sem gert var í tíð fyrri stjórnar og hlaupizt frá þeirri áætlun, sem m.a. hæstv. núv. iðnrh. vildi beinlínis lögfesta fyrir aðeins tveimur árum síðan. Þetta er áætlunin og málið, sem hæstv. menntmrh. sagði hér í fyrra, að yrði að sjálfsögðu fylgt af þessari ríkisstj. Ef þetta eru rangar ályktanir hjá mér. þá bið ég hæstv. ráðh. um að leiðrétta mig, en annað verður ekki ályktað af málinu, eins og það liggur fyrir núna og ég hef rakið.

Nú hefur hæstv. ráðh. lýst því yfir, að endurskoða skuli þessi mál. Ef endurskoðun er nú fram undan, þá hefði nú verið karlmannlegra og heiðarlegra af ríkisstj. að hnika ekki frá þeirri áætlun, sem liggur fyrir, fyrr en að þessari endurskoðun lokinni. Það hefðu nú verið rökrétt vinnubrögð. En hitt vil ég benda á og minna á, að það eru engin ný tíðindi, að þetta skuli endurskoðað. Stjórn Lánasjóðsins lagði það beinlínis til, þegar frv. til breytingar á lögum varðandi Stýrimannaskólann og Vélskólann lá fyrir á síðasta þingi, að þessi endurskoðun færi fram og sú till. Lánasjóðsins var tekin til greina í þeim lögum, vegna þess að aftan við lögin, sem endanlega voru samþ. um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenzkra námsmanna, var hnýtt ákvæði til bráðabirgða, sem ég vil leyfa mér að lesa. En þar segir:

„Menntmrh. skal beita sér fyrir endurskoðun laga um námslán og námsstöðu, og skal að því stefnt, að henni sé lokið, áður en þing kemur saman haustið 1972.“

Þarna stendur það svart á hvítu samkv. l., sem þetta þing samþykkti hér í fyrra, að ráðh. skyldi beita sér fyrir þessari endurskoðun og þeirri endurskoðun skyldi lokið, áður en þetta þing hæfist. Nú hefur hins vegar hæstv. fjmrh. upplýst í þessum umr., að þessi endurskoðun standi fyrir dyrum, og ég get ekki skilið það öðruvísi en svo, að hæstv. menntmrh. hafi ekki komið þessu í verk — eða hvað líður þessari endurskoðun? Er búið að skipa þessa n.? Hvernig á hún að skipast? Hvernig er hagsmunum námsmanna hagað í þessari nefndarskipun? Það mætti líka beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., sem því miður er ekki viðstaddur þessa umr., — sýnir henni viðeigandi virðingu, — það mætti spyrja hann um það, hvað lántökum til að mæta fjárþörf Lánasjóðsins líði. Nú þegar þetta er mælt í dag, hefur dregizt að hefja lánveitingar um óeðlilegan tíma, vegna þess að sjóðurinn stendur í óvissu um fjárv. og fjárm.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég vildi ekki fjalla um þetta fjárlagafrv. að öðru leyti en því að víkja að þessu máli, taldi það eiga sérstakt erindi hér inn í þessa umr. Máske finnst ráðh. ekki mikið til þessa máls koma, það sé létt hlass að losa 50 millj. af 20 milljarða fjárlagafrv. Það kann að vera, að það vegi ekki þungt, þegar allt dæmið er skoðað og skipti ekki sköpum í fjárlagagerðinni. En ef það skiptir ekki sköpum, þá skiptir heldur ekki svo miklu máli, þó að þessar 50 millj., — eða hvað það nú er, — séu teknar inn, og væri það nú karlmannlegast, eins og málum er háttað. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að þessi meðferð á málinu, miðað við þær ályktanir, sem ég hef dregið, sé talandi tákn um þau vinnubrögð, sem ríkisstj. viðhefur, og þann hug, sem stjórn vinstri flokkanna ber til námsmanna og. þeirra hagsmuna. Nú verður ekki skotið sér á bak við afsakanir og betri vilja, og hefur það sannazt, hverjir séu fyrst skornir niður við trog, þegar veizluhöldunum linnir. Kannske verður þetta mál bezta dæmið um þau yfirboð og lýðskrum, sem viðhöfð hafa verið af þeim stjórnmálamönnum, sem nú sitja í valdastólum.