20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Till. sú, sem ég ásamt hv. 10 þm. Reykv. flutti hér við 2. umr. sem bráðabirgðaákvæði, var borin upp í einu lagi og náði því miður ekki samþykki. Við viljum freista þess nú við 3. umr. að bera fram skriflega brtt., sem er shlj. 2 mgr. till., eins og hún var á þskj. 185. Þetta er gert vegna þess, að ég er ekki alveg viss um, að hv. þm. hafi gert sér raunverulega grein fyrir, hvað þarna er verið að fara fram á og hversu nauðsynlegt er að lögfesta þetta ákvæði.

Eins og hér var rætt í gær og ítarlega bent á, er í gildandi reglugerð varðandi þetta svæði á Selvogsbanka aðeins gert ráð fyrir, að bannaðar verði veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót. Það er vitað, og hefur komið hér fram á Alþ, áður, að þeir aðilar, sem þarna hafa kannske einna mestra hagsmuna að gæta, þ.e. samtök sjómanna, skipstjórnarmanna og útgerðarmanna í Vestmannaeyjum, hafa nú í 15 ár, allt frá því á árinu 1957, reynt að fá friðað tiltekið hrygningarsvæði á svæðinu milli Vestmannaeyja og Reykjaness. Það hefur aldrei, þegar farið hefur verið fram á þetta, verið beðið um það að friða þetta einungis fyrir botnvörpu og flotvörpu eða dragnót, heldur alfriða það fyrir öllum veiðum og þá alveg sérstaklega fyrir þorskanetaveiðum. Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að þó að þessi tilmæli hafi komið frá aðilum í þessari veiðistöð, hefur það alltaf legið ljóst fyrir þeim ekki síður en öðrum, að þeir eru þarna að skerða nokkuð sína aðstöðu til veiða í þorskanet. Þeir hafa manna fyrst gert sér grein fyrir því, að ef á að vera hægt að treysta á þessar veiðar í framtíðinni, verði að gera einhverja ráðstöfun til þess að friða hrygningarsvæðin að vissu marki og þá sérstaklega fyrir þorskanetaveiðum. Ég tel lærdómsríkt það ástand, sem á þessum stað skapaðist í fyrra, þegar það sýndi sig, að fiskur gekk ekki inn á þetta veiðisvæði til hrygningar nema í mjög takmörkuðum mæli og þessi verstöð, Vestmannaeyjar, skar sig alveg úr öðrum verstöðum með lélegt aflamagn. Ég held, að það sé samdóma álit þeirra manna, sem þarna eru kunnugastir, að það sé ekki óhætt að treysta á það, að þetta endurtaki sig ekki og haldi ekki áfram að endurtaka sig og kannske í enn ríkari mæli en áður, ef ekki verða þegar gerðar beinar ráðstafanir til friðunar og þá alveg sérstaklega fyrir þorskanetaveiðum. Botnvörpuveiði og dragnótaveiði eru aldrei stundaðar á þessu tímabili á þessum svæðum og hafa ekki verið, síðan stóru togararnir hér áður fyrr komu einstöku sinnum inn á það, þegar mesta fiskigengdin var. Ég vil því vænta þess, að hv. alþm. geti verið sammála um það að gera a.m.k. þessa breytingu — að verða við óskum þeirra fiskimanna, sjómanna og útgerðarmanna, sem hafa hagsmuna að gæta af veiðum á þessu svæði, að verða við óskum þeirra um að gera þessar ráðstafanir, sem þeir telja sjálfir nauðsynlegar, ef á að vera hægt að treysta því, að veiðar haldi þarna áfram í eitthvað svipuðum mæli og verið hefur áður. Það getur vel verið, að þetta sé of seint og það hefði átt að vera búið að gera slíkar ráðstafanir fyrir kannske 10–15 árum, en það er þó betra að okkar dómi að gera þetta núna heldur en draga það enn þá.

Það er svo með friðunarráðstafanir, að reynslu höfum við því miður sáralitla fengið í þessum efnum, og það, sem verður gert í framtíðinni, er gert í tilraunaskyni til að sjá, hvort hugmyndir fiskifræðinga og hugmyndir sjómanna og annarra koma til með að verka eins og þeir vona. Fiskifræðingar hafa sagt, að þeir geti ekkert um þetta fullyrt. Það eru viss atriði, sem gripa þarf inn í, og þeir hafa ekki viljað ræða um þetta. Þess vegna eru allar hugmyndir um friðunarráðstafanir fyrst og fremst tilraunir til að stöðva þá öfugþróun, sem verið hefur, því að við höfum greinilega verið með ofveiddan þorskstofn hér við land á undauförnum árum. Ég vænti því, eins og ég sagði áðan, að hv. Alþ. geri sér grein fyrir, hve mikið alvörumál er hér á ferðinni, og þegar það er ósk þeirra manna, sem telja sig eiga hagsmuni sína undir því, að friðun eigi sér stað þarna, þá verði orðið við ósk þeirra. Ég tel það lágmarkskröfu, að Alþ. verði við óskum þeirra aðila, sem þarna stunda þessar veiðar, að gera tilraun með að friða þetta tiltekna svæði, ekki aðeins fyrir dragnót og botnvörpu, heldur einnig fyrir netum, sem menn eru almennt sammála um, að séu það veiðarfæri, sem mest hætta starfi af, að ofveiði eigi sér stað með.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja fram skrifl. brtt. frá mér og hv. 10. þm. Reykv.