20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af þessari till. segja, að það er vægast sagt á mörkunum, að hægt sé að bera upp till. af þessu tagi, sem nýlega er búið að fella, þó að hún hafi þar verið í fylgd með annarri. En ég vil í tilefni af þessu segja það, að ég mun standa fyrir því að reyna að leita eftir samkomulagi á milli þeirra aðila, sem hér eiga ríkastra hagsmuna að gæta, m.a. útvegsmanna í Vestmannaeyjum og Grindavík og hér á Suðurnesjum, sem sækja á þetta svæði. Náist sæmilegt samkomulag, mun ég gefa út reglugerð um að loka þessu tiltekna friðunarsvæði einnig fyrir þorskanetaveiðum í samræmi við þann lokunartíma, sem ákveðinn er í landhelgisreglugerðinni, þ.e.a.s. frá 20. marz til 20. apríl. Það er á valdi rn. að gefa út fyrirskipun um það atriði. Það var alltaf ætlunin, að þau ákvæði, sem voru í landhelgisreglugerðinni, giltu aðeins um togveiðar, af því að þessi atriði, sem þar var verið að tilkynna, snerta fyrst og fremst útlendinga. Takist sæmileg samstaða við þá aðila, sem þarna eiga mestra hagsmuna að gæta, um að loka þessu svæði einnig nú á næstu vertíð fyrir netaveiðum, þá mun það verða gert, en aðeins á þeim tíma, sem svæðið er annars lokað samkv, landhelgisreglugerðinni, þ.e.a.s. frá 20. marz til 20. apríl. En þessi till., sem hér er um að ræða, miðar að því að gera breytingar á þeirri landhelgisreglugerð, sem við höfum gefið út og tilkynnt, og það eitt er nægjanlegt til þess, að þessa till. ætti að fella.

En meginatriðið, sem hv. 3. þm. Sunnl. leggur hér áherzlu á, að loka þessu svæði einnig fyrir þorskanetaveiðum, verður tekið til athugunar. Mér er vel kunnugt um, að um þetta er allverulegur ágreiningur, og hefur komið skýrt fram hjá útgerðarmönnum, t. d. í Grindavík, að þeir eru ekki alls kostar á það sáttir að láta loka þessu veiðisvæði alveg fyrir sér. Það var skoðun okkar, að það yrði að fara um svona lokun í samræmi við það, sem almennt yrði gert, þegar reglur yrðu settar um tiltekin lokunarsvæði allt í kringum landið. En eins og ég segi, náist sæmileg samstaða þeirra, sem hér eiga mestan hlut að máli, þá mun rn, beita sér fyrir því að gefa út reglugerð um að loka þessu tiltekna friðunarsvæði á þessum stað einnig fyrir þorskanetaveiðum á komandi vertíð.

Ég mæli algerlega gegn þessari till. hv. þm. og hefði viljað fara fram á það við hann, að hann drægi hana til baka, eftir að ég hef gefið þessa yfirlýsingu hér. Ég vænti, að hann skilji mætavel. að það er ekki ástæða til þess að fara að loka þessu svæði núna, ef um það er mikill ágreiningur, eins og þessi mál öll liggja fyrir nú. Ég vil því fara fram á það við hann, að hann dragi till. til baka, sem er allavega mjög vafasöm, en að öðru leyti er ég till. hans andvígur.