20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

95. mál, almannatryggingar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég tel það mjög miður farið, að svo skuli komið um þær hugmyndir, sem fram hafa komið um að leysa þann vanda, sem tryggingamál sjómanna eru í, að það skuli hafa skapazt sú aðstaða, að ætla má, að þetta mál nái ekki fram að ganga og verði ekki leyst hér á Alþ., áður en þm. fara í jólafrí. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. á, að aðalfundi L.Í.Ú. í nóv. í haust var ekki slitið, heldur var fundinum frestað af tveimur ástæðum. Það var í fyrsta lagi vegna þess, að útgerðarmenn vildu fá um það örugga vissu, áður en vetrarvertíð hæfist, að rekstrargrundvöllur útgerðarinnar yrði að þeirra mati tryggður, og í öðru lagi, að tryggingamál sjómanna höfðu þróazt á þann veg, að útgerðarmenn töldu ekki, að þeir gætu sett flotann í gang, nema á því yrði breyting. Ég skal ekki ræða efnislega um það mál, en þetta liggur fyrir og þetta er hæstv. ríkisstj. mjög vel kunnugt um.

Hæstv. sjútvrh. gaf á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna í haust, ef ekki beina yfirlýsingu um, að hann mundi verða búin að leysa málin varðandi rekstur sjávarútvegsins fyrir áramót, þó að hann mundi beita sér fyrir því, að teknar yrðu upp viðræður við fulltrúa útgerðarinnar og stefnt að því, að þessi mál yrðu leyst fyrir jól. En ég hef ekki heyrt, að hæstv. ráðh. hafi tekið upp þessar viðræður. Það upplýsist, ef það er ekki, en ég hef ekki heyrt um það, að þær hafi verið teknar upp enn, og því alveg fyrirsjáanlegt, að sú hlið á máli útgerðarinnar leysist vart fyrir jól. Ég stend í þeirri meiningu, að hæstv. ríkisstj. hafi einnig gefið fyrirheit um það, að tryggingamálin skyldu leyst fyrir n.k. áramót. Þegar þetta liggur fyrir hvort tveggja, hlýtur að vera eðlilegt, að ég beini þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvort ríkisstj. muni á einhvern veg leysa þessi tvö mál þannig, að útgerðarmenn telji sig geta við það unað. Ég tel alveg nauðsynlegt, að slík yfirlýsing komi hér til og við þessar umr. frá hæstv. ríkisstj., hvort hún muni standa við þau fyrirheit, sem útgerðarmenn halda fram, að ég hygg með nokkuð réttu, að þeim hafi verið gefin um lausn þessara mála.

Annars sýnir það, sem hér var að gerast, að sú till., sem hér var boðuð í dag af hv. 2. þm.

Reykn. ásamt þremur meðnm. hans í þeirri n., sem þetta mál var i, hefur verið dregin til baka, það ástand, sem hér virðist vera að skapast á hinu háa Alþ. Ég vil minna á það, að í gær lá fyrir till. í sambandi við lög um bann gegn botnvörpuveiðum, sem hafði verið einróma samþ. í fiskveiðilaganefndinni af öllum 5 aðilum, sem þar eiga hlut að máli, einum frá hverjum flokki, og hafði einnig verið einróma samþ. af 7 mönnum í sjútvn. Þegar hún kemur hér til umr. og afgreiðslu í Nd. Alþ., flytur hæstv. sjútvrh. við hana brtt. Ég vil ekki halda því fram, að þarna hafi verið svo mikilvægt atriði, að það út af fyrir sig skipti máli. En þetta fer að verða að mínum dómi allískyggilegt, þegar n. og meiri hl. n. flytja till. og stuðningsmenn stjórnarinnar eru þar í fararbroddi, en ráðh. koma síðan hér og lýsa sig andvíga því og neyða menn til þess beinlínis annaðhvort að taka þær aftur eða þá fá þær felldar hér í þingsal. Þarna er um að ræða í báðum tilfellum hæstv. ráðh. frá Alþb., og ég veit ekki, hvernig maður á að skilja þetta, hvort þeir séu orðnir svo einráðir innan ríkisstj. og hér í þingsölum, að það þýði vart fyrir þm., hvorki úr stjórnarliði né stjóraarandstöðu, að vera að bera fram till. og reyna að fá þær samþ., ef það fellur ekki í kram þessara hæstv. ráðh. Ég held, að hv. Alþ. megi fara að gá að sér, ef slíkum vinnubrögðum á að halda áfram, að það sé komið á hreint einræði tveggja ráðh. yfir d. og yfir Alþ. og yfir ríkisstj. Ég held, að þetta sé aðstaða, sem þm. verði að fara að gera sér alveg ljóst, að myndazt hefur hér og greinilega komið fram í sambandi við þessi tvö atriði, sem ég var að benda á, og kannske fleiri mál.

Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál lengur, en vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég vil láta í ljós skoðun mína á því, að ég tel mjög miður farið, ef þetta mál á að enda hér, eins og virðist vera, að það eigi ekki að fá fyrirgreiðslu d. eða Alþ, nú fyrir áramót, þó að telja verði, að um það liggi fyrir loforð frá hæstv. ríkisstj. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. geti gefið einhvers konar yfirlýsingu um það, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar sér að leysa þann hnút, sem þessi mál eru komin í, bæði varðandi tryggingarmálin og eins, ef hann er þess umkominn, varðandi rekstrargrundvöll sjávarútvegsins.